Miðlar

„Media“ er fleirtala af „medium“ sem merkir miðill. Í tengslum við kvikmyndafræði getur miðill meðal annars falið í sér einhvern millilið sem hægt er að tjá eitthvað í gegnum, ákveðið geymsluform svo sem diska, spólur eða filmu, eða ákveðið efni sem listamaður vinnur úr.

Eðli miðla er nokkuð umdeilt ásamt því hvort mikilvægt sé að eigna hugmyndum um slík eðli ákveðna fagurfræði. Í bók sinni Laókóon (1766) færir Gotthold Ephraim Lessing til að mynda rök fyrir því að höggmyndalist og skáldskapur séu tveir ólíkir miðlar með innbyggða fagurfræði sem er að sama skapi ólík. Í kvikmyndafræðilegu samhengi má segja að Rudolf Arnheim haldi sambærilegum hlutum fram í Um kvikmyndalistina (x) þar sem hann gagnrýnir tilkomu hljóðsins fyrir þær sakir að það muni bjaga sanna listræna eiginleika kvikmyndarinnar.