Andlát og arfleifð
Vísir: 04. 01. 1952: Loftur lést í nótt

Einn af kunnustu borgurum Reykjavíkur, Loftur Guðmundsson ljósmyndari, lézt í Landakotsspítala í nótt eftir 2ja mánaða þunga legu.

Loftur Guðmundsson varð 59 ára. Hann þótti einn fremsti maður í sinni atvinnugrein, er hann hafði stundað um aldarfjórðung eða svo, en einnig var hann brautryðjandi í kvikmyndagerð hér á landi, eins og alkunna er.

Hann var tvímælalaust með vinsælustu og minnisstæðustu mönnum í sinni stétt, og löngu þjóðkunnur maður ...


Þjóðviljinn: 05. 01. 1952: Loftur Guðmundsson lést í fyrrinótt

Loftur Guðmundsson ljósmyndari lézt í Landakotsspítalanum í fyrrinótt.

Loftur hafði átt við langvarandi vanheilsu að stríða og að síðustu kvikmynd sinni: Niðursetningurinn, vann hann sjúkur maður og hlífði sér ekki.

Í óvissunni um hve starfskraftarnir entust lengi vann hann í keppni við veikindin: að ljúka myndinni meðan enn væri tími til ...
Morgunblaðið: 12. 01. 1952: Loftur jarðsunginn mánudaginn 14. janúar. Athöfninni verður útvarpað

Maðurinn minn, faðir okkar og tengdafaðir Loftur Guðmundsson ljósmyndari, verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni mánudaginn 14. jan. kl. 2 e.h. — Athöfninni verður útvarpað.

— Húskveðja hefst að heimili hans Sólvallagötu 9, kl. 1:15 e.h.

— Þeir, sem vildu minnast hins látna eru vinsamlega beðnir að láta einhverja líknarstofnun njóta þess.

Guðríður Sveinsóttir, börn og tengdabörn ...


Morgunblaðið: 13. 01. 1952: Minningargrein um Loft

Loftur heitinn var á réttri hillu sem ljósmyndari, þótt hann hefði vafalaust getað orðið snillingur sem tónasmiður eða listmálari, ef hann hefði fengið til þess nægan undirbúning.

Hann fylgdist vel með á þeim listavegi, sem aðstæður og örlög leiddu hann inn á, varð einn fyrstur manna til að taka kvikmyndir hér á landi, byrjaði víst á því á Alþingishátíðinni 1930, og fékk fyrir því afar mikinn áhuga, svo að hann réðst í það að gera kvikmyndir og varði til þess miklum tíma og fé, fyrst í Íslandsmynd sína og síðar í tvær kvikmyndir, skáldlegs og sögulegs efnis.

Við þá síðari vann hann allt síðastliðið sumar, veðsetti til þess allar eigur sínar og vann að henni svo að segja dag og nótt meðan heilsa og kraftar entust og langt fram yfir það. Að henni lokinni lagðist hann sína hinztu legu, þá leiddur lengra fram en mannlegur máttur gat náð til hjálpar ...
Alþýðublaðið: 15. 01. 1952: Minningargrein um Loft, eftir samstarfsfélagann og blaðamanninn Loft Guðmundsson

„Þetta er nú held ég loksins allt komið í lag, nafni, og ef við verðum heppin með veðrið, þá verðum við búin að taka myndina eftir hálfan mánuð. Lengra sumarfrí eiga leikararnir ekki, og ég verð að hespa þetta allt af í sumar, annars lýk ég ekki við það. Þetta verður seinasta kvikmyndin sem ég tek...“

Ekki grunaði mig þá, að sú spá nafna míns myndi rætast á svo skjótan og sviplegan hátt, enda þótt mér væri vel kunnugt, að hann hafði ekki gengið heill til skógar að undanförnu.

Við sátum ínni í bifreiðinni hans í Austurstræti. Úti var sumar og sól og nafni hafði margt að hugsa og mörgu að sinna eins og endranær.

Nokkrum mánuðum síðar sátum við nokkrir blaðamenn, inni í vinnustofu hans og horfðum á kvikmyndina ...


Alþýðublaðið: 18. 08. 1968: Magnús Jóhannsson, sem hefur umsjón með varðveislu mynda Lofts, gerir samning við Sjónvarpið um að afrita myndir Lofts til sýningar og varðveislu

Um þessar mundir er verið að ganga frá samningum milli sjónvarpsins og Magnúsar Jóhannssonar útvarpsvirkja um endurnýjun á elztu kvikmyndum Lofts heitins Guðmundssonar ljósmyndara.

Sjónvarpið veitir 100 þúsund króna styrk til þess starfs, en eitt eintak af hverri filmu verður síðan geymt í sjónvarpinu.

Magnús hefur allt frá því Loftur lézt haft elztu kvikmyndaefni Lofts, sem er á 35 mm. eldfimri nitrat filmu og er ekki sýningarhæft undir höndum.

Verður þetta gamla og merka myndaefni nú sett á varanlega 16 mm. filmur ...
Tíminn: 28. 05. 1970: Viðtal við Óskar um ferilinn þar sem hann er sagður hafa gert fyrstu íslensku myndina og minnst á Loft í framhjáhlaupi

Óskar Gíslason var fyrsti Íslendingurinn, sem gerði innlenda kvikmynd, og hann tók aðra leiknu kvikmyndina, sem framleidd var hér á landi. Það er litmyndin Síðasti bærinn í dalnum, sem enn er sýnd hér við og við og hlýtur alltaf góða aðsókn.

Fyrstu íslenzku, leiknu kvikmyndina, Milli fjalls og fjöru, tók Loftur heitinn Guðmundsson ljósmyndari, og var hún frumsýnd sama ár og mynd Óskars ...


Morgunblaðið: 01. 07. 1976: Magnús Jóhannsson, útvarpsvirki, hefur umsjón með kvikmyndasafni mynda Lofts

Magnús hefur nú umráð með kvikmyndasafni Lofts heitins Guðmundssonar, ljósmyndara, og hefur unnið nokkra þætti fyrir sjónvarpið úr þeim myndum, en svo hafði talazt til með Lofti og Magnúsi áður en Loftur andaðist, að Magnús skyldi hafa yfirráð yfir kvikmyndasafni hans ...
Vísir: 06. 02. 1977: Umfjöllun um Kjarval og Loft og farið yfir feril Lofts

Loftur Guðmundsson var fæddur að Hvammsvík í Kjós 18. ágúst 1892. Hann fluttist til Reykjavikur um aldamótin og ólst þar upp.

Loftur var mikið listamannsefni. Hann fékkst við að mála, lagði stund á píanóleik og tónsmíðar. Hann var um sinn meðeigandi og síðar eigandi gosdrykkjaverksmiðjunnar Sanitas. Sigldi til Kaupmannahafnar til náms í ljósmyndun.

Heimkominn 1924 setti hann á stofn ljósmyndastofu sína, sem við hann er kennd og hóf jafnframt töku kvikmyndarinnar Íslandi í lifandi myndum sem var frumsýnd á nýjársdag 1925.

Loftur vann síðan jöfnum höndum að ljósmyndun og kvikmyndagerð allt til dauðadags, 4. janúar 1952.

1948 gerði hann fyrstu íslensku talmyndina, Milli fjalls og fjöru. Loftur gekk ekki heill til skógar meðan á töku síðustu kvikmyndar hans stóð Niðursetningnum frá 1951 og hann lést áður en draumar hans rættust um að taka þriðju leiknu kvikmyndina eftir Sverði og bagli Indriða Einarssonar í tilefni af 400 ára dánarminningu Jóns biskups Arasonar og sona hans ...


Alþýðublaðið: 03. 02. 1978: Börn Lofts ánafna Kvikmyndasafni Íslands myndir hans

Menntamálaráðherra gat þess í ræðu sinni að börn Lofts Guðmundssonar, ljósmyndara, hefðu ánafnað safninu myndir Lofts Milli fjalls og fjöru og Niðursetningurinn ...
Morgunblaðið: 03. 02. 1978: Stutt umfjöllun um feril Loft

Loftur Guðmundsson fæddist árið 1892 á Valdastöðum í Kjós, en fluttist fimm ára gamall til Reykjavíkur. Hann fór til Kaupmannahafnar árið 1921 og lagði stund á kvikmyndun og ljósmyndagerð. Kom aftur til Reykjavíkur fjórum árum síðar og setti þá á stofn eigin ljósmyndastofu, en konunglegur hirðljósmyndari varð hann 1930.

Loftur hóf einna fyrstur manna á Íslandi kvikmyndagerð, en fyrstu kvikmynd sína gerði hann 1924, og var það heimildarmyndin Ísland í lifandi myndum. Hann gerði fjórar aðrar heimildarmyndir og tvær myndir eftir sögum sem hann hafði sjálfur samið, Milli fjalls og fjöru (1948) og Niðursetningurinn (1951).

Auk þess að vera ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður var Loftur einnig snjall orgelleikari og samdi hann fjölmörg sönglög. Þá var hann einn af stofnendum knattspyrnufélagsins Vals 1911 ...


Dagblaðið: 03. 02. 1978: Myndir Lofts sýndar í Sjónvarpinu, meðal annars stuttmyndin Sjón er sögu ríkari

Loft Guðmundsson ljósmyndara og kvikmyndatökumann þarf vart að kynna með mörgum orðum, því hann kannast eflaust flestir við.

Tengdasonur Lofts, Ásgeir Kári Guðjónsson, sagði okkur í stuttu rabbi að Loftur hefði tekið nokkuð margar kvikmyndir og þá aðallega þær sem kalla mætti heimildamyndir. Má til dæmis nefna Ísland í lifandi myndum sem Loftur tók árið 1925 og fjallar hún um atvinnuhætti okkar Íslendinga á þessum tíma.

Nokkrum árum síðar eða í kringum 1937 tók Loftur aðra mynd um svipað efni og fjallar hún aðallega um landbúnaðinn. Þá má nefna mynd sem hann tók fyrir Hitaveituna af fyrstu stóru framkvæmdunum í Reykjavík og mynd af Alþingishátíðinni, en hún mun því miður vera glötuð ...
Morgunblaðið: 28. 11. 1985: Saga Sanitas, gosverksmiðjunnar sem Loftur stýrði um skeið á 3. áratugnum

Árið 1916 var verksmiðjan Sanitas flutt í kjallarann í húsi Gísla, Smiðjustíg 11, og Guðrúnu er minnisstætt að fólkið kom alltaf upp í kaffi. Sama ár seldi Gísli Lofti bróður sínum fyrirtækið. Loftur var þá 24 ára. Kunnugir telja að Jens Waage, bankastjóri íslandsbanka, hafi greitt götu bræðranna í þeim efnum.

Áður hafði Loftur unnið í kjötverslun Tómasar Jónssonar og stofnað, ásamt öðrum manni, eigin verslun í Aðalstræti, þar sem Morgunblaðshúsið er nú. Loftur seldi þó fljótlega sinn hlut í versluninni en átti Sanitas til ársins 1924.

Loftur mátti nú tæpast vera að því að sinna gosdrykkjagerð, enda þurfti hann ekki að hafa áhyggjur af Sanitas. Árið eftir kaupin kom nefnilega til starfa hjá honum afburða áreiðanlegur maður og duglegur, Sigurður Waage ...


Morgunblaðið: 25. 02. 1990: Bryndís Pétursdóttir lék í báðum talmyndum Lofts

Árið 1948 lék Bryndís í fyrstu talkvikmyndinni, sem tekin var á Íslandi af Lofti Guðmundssyni, en sú mynd nefndist Milli fjalls og fjöru.

„Gunnar Eyjólfsson var þá nýkominn heim frá námi og lék hitt aðalhlutverkið á móti mér.“

Árið 1950 lék hún svo aðalhlutverkið í kvikmynd Lofts Niðursetningnum, þá á móti Rúrik Haraldssyni ...
Morgunblaðið: 23. 08. 1992: Grein um Loft í tilefni 100 ára fæðingarafmælis hans

Hundarð ár eru liðin frá fæðingu Lofts Guðmundssonar, eða Lofts ljósmyndara, eins og hann var oftast nefndur.

Um langt árabil var enginn maður með mönnum eða ekkert barn með börnum sem ekki var búið að festa á ljósmynd frá Lofti. Um miðbik aldarinnar þótti sjálfsagt að allar blómarósir bæjarins létu taka af sér uppstilltar litaðar myndir hjá Lofti, helst hallandi sér að súlu.

En Loftur gerði fleira en að ljósmynda. Hann er einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar, gerði árið 1949 fyrstu leiknu talmyndina í fullri lengd sem sýnd var í íslensku kvikmyndahúsi, Milli fjalls og fjöru. Hafði þá allt frá 1923 gert heimildarmyndir, m.a. af Alþingishátíðinni 1930.

Sá íslendingur var ekki til sem ekki þekkti Loft, enda kom hann víða við þar sem nýjungar voru á döfinni. Þegar hann lést 1952 hafði hann nýlokið annarri leikinni kvikmynd í fullri lengd, Niðursetningnum eftir sögu Jóns Mýrdals með Brynjólf Jóhannesson í aðalhlutverki ...


Morgunblaðið: 29. 10. 1992: Útvarpsþáttur um ævi og störf Lofts, viðtöl við ættingja og samstarfsfólk

í dag verður á dagskrá þáttur sem nefnist „Þeir hjá Kodak bókstafiega báru mig á höndum sér“.

Í þættinum verður reynt að bregða upp mynd af Lofti Guðmundssyni, ljósmyndara, kvikmyndagerðarmanni, tónlistarmanni og töframanni í tilefni af því að nýlega eru liðin hundrað ár frá fæðingu hans, en Loftur gerði fyrstu íslensku talmyndina í litum og fullri lengd.

Í þættinum verður meðal annars rætt við ekkju Lofts, dóttur og stjúpdóttur og Gunnar Eyjólfsson leikara, er þreytti frumraun sína á hvíta tjaldinu í kvikmynd hjá Lofti ...
Eyjafréttir: 10. 12. 1992: Mynd Lofts frá Vestmannaeyjum sýnd

Sýndar voru tvær gamlar Eyjakvikmyndir, önnur var frá miðjum þriðja áratugnum.

Kvikmyndina tók Loftur Guðmundsson, ljósm. og er hún tekin sömu daga og fræga ljósmyndin frá Eyjum sem prýddi 50 króna seðilinn hér áður fyrr ...


Ægir: 01. 12. 1993: Loftur tók myndir á Ísafirði árið 1936

Myndirnar á þessari síðu eru teknar úr kvikmynd sem Loftur Guðmundsson gerði um rœkjuveiðar og vinnslu í djúpinu árið 1936.

Líkur benda til að hér bogri þeir félagar Ole G. Syre og Simon Olsen við vinnu sína í rœkjubáti. Á neðri myndinni er Simon Olsen að innbyrða rœkjunót.

Kvikmynd Lofts er í eigu Skjalasafnsins á Ísafirði og kann Ægir Jóhanni Hinrikssyni bókaverði þakkir fyrir aðstoð við að koma þessum myndum á prent ...
Morgunblaðið: 11. 09. 1994: Verk eftir Loft flutt á hátíðartónleikum 50 ára afmælis lýðveldisins

Aðeins tvö tónskáld áttu tvö lög hvort á efnisskrá tónleikanna: Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946) og Loftur Guðmundsson (1892- 1952).

Sigvaldi er vel að þessum sóma kominn, því að hann hefur notið og nýtur enn meiri hylli en flestir aðrir íslenskir sönglagahöfundar.

Loftur Guðmundsson var „fjölhæfur maður og hugkvæmur“, eins og segir í ísl. æviskrám Páls E. Olasonar, hafði kornungur fengist við verslun og iðnrekstur, hélt tónleika á stofuorgel (harmoníum) í Bárubúð 1916 með aðstoð Emils Thoroddsens sem lék á píanó, en fór síðan utan, lærði ljósmyndagerð og einhver tónlistarfræði í Danmörku, og 1920 kom út sönglagahefti eftir hann á forlagi Wilhelms Hansens í Kaupmannahöfn ...


Morgunblaðið: 11. 05. 2002: Minning Lofts heiðruð á Þjóðminjasafninu

Efnt verður til tveggja sýninga í sumar og verður hin fyrri opnuð 17. maí í Hafnarborg og er í tengslum við Listahátíð. Þar verður varpað ljósi á ævi og störf Lofts Guðmundssonar ljósmyndara, kvikmyndagerðarmanns og athafnaskálds.

„Hann kom víða við, hann var lífskúnstner og eldhugi og ekki síður mikill sölumaður en jafnframt brautryðjandi í íslenskum listum.

Loftur var einn helsti portrettljósmyndari landsins í aldarfjórðung og gegndi lykilhlutverki í íslenskri kvikmyndagerð. Hann reið á vaðið við gerð listrænna kvikmynda á Íslandi og gerði m.a. fyrstu íslensku talmyndina, Milli fjalls og fjöru, árið 1948.

Í sýningarskrá verður reynt að varpa ljósi á ævi og störf Lofts og á sýningu Þjóminjasafnsins í Hafnarborg verður í fyrsta sinn birt úrval ljósmynda eftir Loft og eru það bæði frummyndir og nýmyndir úr safni Þjóðminjasafns Íslands.“ ...
Morgunblaðið: 12. 05. 2002: Grein Erlends Sveinssonar um Loft

„Í rauninni var viðfangsefni kvikmyndagerðarmannsins Lofts Guðmundssonar aðeins eitt: Fósturlandið,“ skrifar Erlendur Sveinsson í grein sinni um Loft Guðmundsson, ljósmyndara og kvikmyndagerðarmann.

Nú eru 110 ár liðin frá fæðingu Lofts og 50 ár frá dauða hans og eru á Listahátíð tvær sýningar um verk brautryðjandans af því tilefni.

Með sýningum Þjóðminjasafnsins í Hafnarborg á ljósmyndum Lofts Guðmundssonar og Kvikmyndasafns Íslands á heimildarmyndunum Ísland í lifandi myndum (1925), Reykjavík (1944) og leiknu kvikmyndinni Milli fjalls og fjöru í Bæjarbíói gefst í fyrsta sinn tækifæri til að fá heildarmynd af ljósmyndaranum og kvikmyndagerðarmanninum Lofti Guðmundssyni, svo að segja í sviphendingu ...


DV: 17. 05. 2002: Umfjöllun um Loft og viðtal við Erlend Sveinsson

Loftur Guðmundsson er frumkvöðull í íslenskri kvikmyndagerð," segir Erlendur Sveinsson kvikmyndagerðarmaður sem þekkir hvað best til Lofts og mynda hans.

Hann segir að með myndum Lofts hafi íslendingar fyrst farið að geta speglað sig í lifandi myndum; séð sjálfa sig á hvíta tjaldinu í myndum sem teknar hafi verið af íslendingum. Áður hafi það verið útlendingar sem komu sem ferðamenn til landsins og mynduðu land og þjóð ...
Morgunblaðið: 18. 05. 2002: Heiða Jóhannsdóttir um sýninguna um Loft í Hafnarborg

Loftur Guðmundsson (1892–1952) var einn helsti ljósmyndari í sinni tíð og frumkvöðull í kvikmyndagerð á Íslandi.

Með yfirlitssýningu á ljósmyndum Lofts í Hafnarborg og sýningum á kvikmyndum hans í Bæjarbíói á dagskrá Listahátíðar er leitast við að draga upp heildstæða mynd af ævi og lífsstarfi þessa atorkusama frumkvöðuls.

Að verkefninu standa Hafnarborg og Hafnarfjarðarbær, myndadeild Þjóðminjasafns Íslands, Kvikmyndasafn Íslands og Listahátíð í Reykjavík, undir yfirskriftinni „Enginn getur lifað án Lofts“ ...


DV: 28. 05. 2002: Stutt um nafna Lofts, blaðamann og rithöfund

Á boðsmiða Kvikmyndasafns íslands á sýningu á Milli fjalls og fjöru eftir Loft Guðmundsson, ljósmyndara og brautryðjanda í kvikmyndagerð, er prentuð í daufum rasta mynd af tveimur börnum sem kíkja upp úr kistu. Þroskað fólk þekkir þar undireins fræga senu úr Síðasta bænum í dalnum og spyr svolítið ringlað: Gerði Loftur Guðmundsson þá mynd?

Svarið er bæði já og nei: Óskar Gíslason gerði Síðasta bæinn í dalnum en Loftur Guðmundsson gerði handritið að henni. Gallinn er bara sá að það er ekki sami Loftur. Þessi Loftur var einum 14 árum yngri en brautryðjandinn og lifði líka talsvert lengur og var þekktur blaðamaður og rithöfundur ...
Morgunblaðið: 29. 05. 2002: Bragi Ásgeirsson skrifar gagnrýni um sýninguna um Loft

Ef Loftur getur það ekki þá hver? og seinna: Enginn getur lifað án Lofts voru um áratugaskeið eitursnjöll slagorð Lofts Guðmundssonar (1892–1952).

Hann var tvímælalaust vinsælasti ljósmyndari landsins um sína daga, stór hluti af daglegu lífi og þróunarsögu höfuðborgarinnar um áratuga skeið.

Lífleg persóna mannsins, sem allir þekktu og töluðu um, var drjúgur hluti af svipmóti bæjarlífsins, ljósmyndastofan lengi í húsakynnum Nýja bíós í Austurstræti, en seinna á Bárugötu 5.

Það var sérstök lifun, upphefð og hátíð að nálgast stofurnar báðar, andrúmið framandi og nokkurs konar stöðutákn að eiga mynd af sér tekna af Lofti eða hinu þjálfaða starfsliði hans ...


Morgunblaðið: 18. 08. 2012: Sutt umfjöllun um Loft í tilefni 120 ára fæðingarafmælis hans

Loftur Guðmundsson, ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður, fæddist 18. ágúst 1892 í Hvammsvík í Kjós. Foreldrar hans voru Guðmundur Guðmundsson, bóndi og síðar verslunarmaður í Reykjavík, og Jakobína Jakobsdóttir.

Loftur var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Stefanía Elín Grímsdóttir og eignuðust þau fjögur börn. Eftir að hún lést bjó hann með Guðríði Sveinsdóttur.

Loftur fluttist til Danmerkur 1921 og stundaði nám í orgelleik og lærði ljósmyndun og framhaldsnám hjá Peter Elfelt í Kaupmannahöfn 1925.

Samhliða ljósmyndanáminu kynnti hann sér kvikmyndagerð. Árið 1945 fór hann til Ameríku til að kynna sér hana frekar ...
Fréttablaðið: 19. 04. 2014: Opnun sýningar um áhrif Lofts og nafna hans á leiklist í Kjósinni

Í dag klukkan þrjú verður opnuð sýning í Ásgarði í Kjós sem nefnist einfaldlega Leiklist í Kjós. Á sýningunni er fjallað um Loft Guðmundsson rithöfund og alnafna hans sem starfaði sem ljósmyndari. Listamennirnir voru báðir fæddir í Kjós og komu mikið að leiklist og kvikmyndagerð ...