Bandaríkjaferð
Morgunblaðið: 14. 07. 1944: Lofti er boðið að fara til Bandaríkjanna að kynna sér það nýjasta í tæknimálum á vegum Kodak, fer einnig til að fullvinna tvær kvikmyndir

Loftur Guðmundsson ljósmyndari er á förum til Ameríku og mun dvelja vestra í nokkra mánuði.

Fer hann til að kynna sjer nýjustu tækni í ljósmyndagerð og hefir í hyggju að ferðast víða um Bandaríkin og kynnast bestu ljósmyndurum þar og starfsaðferðum þeirra. Einnig fer hann með Reykjavíkurkvikmyndina og kvikmyndina af Hitaveitunni til að fullgera þær.

Hið heimsfræga fjelag Kodak hefir boðið Lofti að kynna sjer alt það, sem firmað hefir upp á að bjóða á sviði ljósmyndatækninnar, en þetta firma er sem kunnugt er eitt fremsta firma í sinni grein og hefir auk stórra verksmiðja, einhverjar bestu rannsóknarstofur í heimi á sviði ljósmynda gerðar og ljósmyndatækja ...


Vísir: 15. 07. 1944: Loftur fer utan, stutt viðtal

Loftur Guðmundsson ljósmyndari, er farinn vestur um haf til að kynna sér þar nýungar á sviði ljósmyndatækni, m.a. mun hann leggja áherzlu á að kynna sér litmyndatökur af fólki.

Loftur ljósmyndari hefir nú um 20 ára skeið rekið ljósmyndastofu hér i bænum. Á þessum tíma hefir hann tekið ótölulegan fjölda ljósmynda af bæjarbúum og öðrum sem á fund hans hafa leitað og aflað sér með iðn sinni mikilla vinsælda.

En Loftur hefir einnig tekið fjölda kvikmynda og má segja að hann hafi byrjað vel í þeim efnum, er hann gerði kvikmyndina Ísland í lifandi myndum ...
Vísir: 19. 09. 1944: Skeyti frá Lofti um dvöl sína í Bandaríkjunum – kvikmyndirnar sem hann framkallaði heppnuðust vel

Samkvæmt skeyti, sem Vísi hefir borizt vestan um haf, hafa bæði Reykjavíkurkvikmynd svo og lýðveldishátíðarkvikmynd Lofts Guðmundssonar heppnazt með ágætum, en eins og kunnugt er, fór hann með þær báðar til Ameríku til að láta framkalla þær þar.

Loftur hefir að undanförnu dvalið vestra í boði Kodakverksmiðjanna, sem eru stærstu ljósmyndatækjaframleiðendur i heimi. Hefir Loftur ekki aðeins kynnt sér þar alla nýjustu tækni í andlitsmyndagerð, þ.ám. myndatöku í eðlilegum litum, heldur hefir hann og ferðast um á milli útibúa fyrirtækisins víðsvegar um Ameríku, skoðað þau og kynnt sér vinnubrögð öll ...


Morgunblaðið: Lýðveldishátíðarmynd Lofts sýnd í New York við góðar viðtökur ásamt myndum af heimsókn forseta Íslands og föruneyti til Bandaríkjanna

Um 100 Íslendingar komu saman nýlega í Henry Hudson gistihúsinu í New York til að horfa á kvikmyndir af lýðveldishátíðahöldunum hjer þann 17. júní s.l. Íslendingafjelagið í New York hjelt samkomu þessa.

Loftur Guðmundsson ljósmyndari, sem nú dvelur í Ameríku, sýndi kvikmyndir er hann hafði tekið af lýðveldishátíðinni og voru myndirnar í eðlilegum litum.

Ennfremur var sýnd kvikmynd af ferðalagi forseta Íslands til Ameríku. Áhorfendur klöppuðu mjög þegar íslenskir áhrifamenn komu fram á myndunum, einkum voru mikil fagnaðarlæti, þegar myndirnar af forsetanum voru sýndar. Að kvikmyndasýningunum loknum voru sungnir ættjarðarsöngvar ...
Vísir: 07. 03. 1945: Loftur í Bandaríkjunum hefur ferðast víða og sýnt Lýðveldismyndina, fór í heimsókn í MGM og margt fleira

Loftur Guðmundsson, ljósmyndari, sem nú dvelur vestur í Ameríku, skrifaði Stefáni Einarssyni ritstjóra Heimskringlu bréf skömmu eftir nýárið, þar sem hann skýrir frá ferðum sínum, störfum og fyrirætlunum í Ameríku.

Í bréfi þessu segir hann m.a.: Ég hefi verið að ferðast í Bandaríkjunum frá því í ágúst s.l. til þess að kynna mér það bezta og nýjasta í ljósmyndatækni, og hefi til þessa ferðalags notið aðstoðar hins heimsfræga firma Eastman Kodak Company.

Hefi eg verið í New York, Washington, Baltimore, Rochester, N.Y., hjá, eða í aðalbækistöð Kodaks, og nú síðast í Los Angeles og Hollywood, þar sem mér hefir hlotnazt að sjá og kynnast film-félaginu Metro-Goldwyn-Mayer ...


Morgunblaðið: 14. 03. 1945: Loftur ásamt öðrum Íslendingum í Kaliforníu, mynd

Nokkrir Íslendingar í Kaliforníu í boði hjá Lofti Guðmundssyni ljósmyndara og konu hans, er þau voru þar á ferð.

Talið frá vinstri: Ágústa Jóhannsdóttir, Einar Markússon píanóleikari, Kolbeinn Pjetursson, Helgi Helgason (sonarsonur Jónasar Helgasonar organista. Hann hefir aldrei til Íslands komið. Hann er sjerfræðingur í litmyndatækni), Loftur Guðmundsson, Gyða Gísladóttir og Marta Pjetursdóttir.

Kona Lofts tók myndina og sjest því ekki á henni ...
Morgunblaðið: 15. 03. 1945: Loftur leggur til í bréfi frá Bandaríkjunum að sendar verði kvikmyndir vestur fyrir þá Íslendinga sem búa þar

Það var athyglisverð frjettagrein, sem birtist hjer í blaðinu í gærmorgun um Loft Guðmundsson og vinsældir, sem þjóðhátiðarkvikmynd hans hefir átt að fagna meðal Vestur-Íslendinga. Það vill svo vel til, að jeg get bætt þarna dálitlu við, því jeg fjekk nýlega brjef frá Lofti, þar sem hann ræðir einmitt þessi mál.

Loftur segir m.a. í brjefi sínu: „Nú sem stendur er verið að sýna kvikmyndina, sem jeg tók á þjóðhátíðinni, á þingi Þjóðræknisfjelagsins í Winnipeg. Næst verður hún sýnd í Minneapolis. Jeg Ijet setja í hana enskan texta til þess að þeir útlendingar, sem venjulega eru boðnir á samkomur íslendinga, geti skilið hvað fram fer“ ...


Vísir: 23. 04. 1945: Loftur kominn heim frá Bandaríkjunum með Lýðveldishátíðarmyndina og tæki til litkvikmyndunar á leiðinni

Loftur Guðmundsson ljósmyndari er nýkominn hingað til lands eftir margra mánaða dvöl í Ameríku, þar sem hann hefir bæði verið að ganga frá Reykjavíkurkvikmynd sinni og kvikmynd sem hann hafði tekið á lýðveldishátíðinni.

Ennfremur kynnti hann sér litmyndatökur af fólki þar vestra og fær hann innan skamms vélar og efni til slíkrar myndatöku að vestaii.

Loftur tjáði Vísi að þessar myndatökur væru mjög dýrar, en árangurinn af þeim væri líka miklu betri en hann hefði nokkru sinni búizt við. Hafa Ameríkumenn öðlazt mikla tækni á þessu sviði og hefir henni fleygt fram síðustu árin ...
Morgunblaðið: 24. 04. 1945: Viðtal við Loft um dvölina í Bandaríkjunum

Loftur Guðmundsson, ljósmyndari er kominn til landsins um eftir nærri eins árs dvöl í Ameríku. Þar kynnti hann sjer nýjustu tækni á sviði ljósmyndunar.

Tíðindamaður blaðsins hitti Loft að máli í gær og bað hann segja frá dvöl sinni vestra. Jeg get í einu orði sagt, að dvöl mín vestra hefir heppnast langt fram yfir það sem jeg gerði mjer vonir um, segir Loftur.

— Það á jeg að þakka hinu heimsfræga Eastmans Kodak company, sem gerði för mína, mjer og konu minni ógleymanlega.

— Ekkert var til sparað hvorki í að kynna mjer ljósmyndun eða annað ...


Vísir: 28. 04. 1945: Loftur fjallar um verksmiðjur Kodak

Loftur Guðmundsson ljósmyndari segir í eftirfarandi þætti lesendum kvikmyndasíðunnar frá heimsókn sinni til Kodak, stærsta ljósmyndafyrirtækis jarðarinnar.

Seinna mun Loftur ef til vill segja frá ýmsu öðru varðandi ljósmynda- og kvikmyndatækni Ameríkumanna.

Eastman Kodak Company, sem í daglegu tali er kallað „Kodak“, hefir í Rochester N. Y. yfir 200 stórbyggingar, og starfa þar um 40 þús. manns.

Rochester-borgin hefir bezta vatnið, sem neytt er í Bandaríkjunum, en þó ekki líkt því eins gott og við höfum hér á Íslandi.

Stór á rennur í gegnum Rochester og er borgin byggð yfir hana. Kodak hefir sína eigin vatnsveitu og nota verksmiðjurnar um 60 milljónir lítra af vatni á dag.

— Kodak hefir oft hlaupið undir bagga og hjálpað borginni um vatn, þegar þess hefir þurft ...
Vísir: 19. 05. 1945: Loftur fjallar um Hollywood

Ég hafði ávallt hugsað mér að Hollywood væri sérstakur staður í Californíu — þar sem eingöngu væru hin stóru kvikmyndaleiksvæði þar sem úði og grúði af leikstjörnum.

Nei, Hollywood er stórborg áföst við Los Angeles — hina fögru og stóru borg — sem mun vera sú langsamlega stærsta í heimi, hvað víðáttu snertir.

— Los Angeles (Englaborgin) er mest öll byggð á smáhæðum og dölum, en aðalborgin, eða miðpunktur hennar er mestmegnis sléttlendi.

— Og sem eitt dæmi um stærð borgarinnar, má geta þess, að ein gatan er um 165 kílómetrar að lengd

— en Hollywood filmstjörnubærinn er mestinegnis á sléttlendi byggð, og er um hálftíma keyrsla frá miðpunkti Los Angeles til Hollywood og þar eru mestu og fjölbreyttustu ljósaauglýsingar sem eg hefi séð — og stingur út New York í því tilliti, og er þá mikið sagt ...