Síðasti Bærinn í dalnum (1950)Þjóðviljinn: 27. 01. 1990: Æskuminning um myndina og áhrif hennar á ungan huga

Hérna í árdaga, áður en veðrið varð vont, sá ég nefnilega bíómynd, sem átti eftir að hafa ómæld áhrif á drauma mína jafnt í vöku sem svefni ímörg ár. Tók við af Grýlumartröðinni.

Þetta mikla upplifelsi fór fram Í Tjarnarbíói og hét Síðasti bærinn í dalnum. Byrjar að því er mig minnir á upphrópuninni Beeeerguuuuur..!

Reyndar eru minningar mínar frá þessari fyrstu íslensku kvikmynd lífs míns ærið þokukenndar, ef til vill vegna þess að inní minninguna um myndina blandast reiðileg rödd systur minnar, nöldrandi eins og venjulega yfir ósanngjarnri tilvist minni ...


Morgunblaðið: 10. 05. 1990: Myndin sýnd á Íslenskum kvikmyndadögum á Akranesi

Sýndar verða margar, skemmtilegar myndir, s.s. Síðasti bærinn í dalnum og myndir eftir Ósvald Knudsen ...Helgarpósturinn: 15. 12. 1994: Bestu tæknibrellur íslenskrar kvikmyndagerðar þegar kistillinn flýgur

Það er kannski hægt að virða Norðmönnum til vorkunnar að þeir eigi ekki pening fyrir jafn fínum tæknibrellum og Ameríkanar.

Samt reyna þeir og hafa setið við með svo litlum árangri að brellurnar líta út eins og þær hafi verið gerðar á fornu pc-vélinni sem notuð er til að skrifa þessa grein. Þess utan er fólk falið bak við slæður eða notuð jókerblys.

Seint gæti þetta keppt við Síðasta bæinn í dalnum og frábærustu tæknibrellu íslenskra kvikmynda, þegar Óskar Gíslason filmaði flugferð barnanna í kistlinum ...


Austurland: 17. 08. 1995: Myndin sýnd á Seyðisfirði í tilefni af 100 ára afmæli kvikmyndarinnar

Á mánudeginum eru tvær myndir eftir Óskar Gíslason.

Önnur þeirra er Síðasti bærinn í dalnum frá 1950 ...Alþýðublaðið: 20. 10. 1995: Myndin sýnd á kvikmyndahátíð í Regnboganum í tilefni af 100 ára afmæli kvikmyndarinnar

Síðasti bærinn í dalnum eftir Óskar Gíslason, framleidd árið 1950 ...


Morgunblaðið: 14. 06. 1996: Fyrirtækið Flugkistur nefnt eftir flugkistunni í myndinni, vegna æskuminninga

En hvernig er nafn fyrirtækisins S.B.D. flugkistur til komið?

„Fljúgandi kista birtist fyrst á Íslandi í kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum. Ég var smágutti þegar myndin var sýnd í sjónvarpinu og var uppnuminn af kistunni. Einari datt í hug það snjallræði að nefna fyrirtækið eftir myndinni. Flugkista er þýðing á enska orðinu flightcase“ ...Morgunblaðið: 23. 05. 1997: Annar aðalleikari myndarinnar látinn, minningagrein

Einnig lék hann annað aðalhlutverkið í kvikmynd Óskars Gíslasonar, Síðasti bærinn í dalnum ...


Morgunblaðið: 02. 12. 1997: Uppsetning á sögunni í Hafnarfjarðarleikhúsi, sagan klassísk og myndin einnig

Flestir Íslendingar, sem komnir eru af unglingsaldri, ættu að kannast við kvikmyndina Síðasta bæinn í dalnum sem Óskar Gíslason gerði eftir sögu Lofts Guðmundssonar, þar sem kista flýgur, tröll hafa hamskipti, álfar dansa og dvergar hverfa og birtast á víxl.

Var myndin frumsýnd 1950, en sama ár gaf Loftur söguna einnig út á bók. Upp úr bók þessari hafa þeir félagar Gunnar og Hilmar Jónsson, forsprakkar Hafnarfjarðarleikhússins, unnið leikgerð sem frumsýna á 17. janúar næstkomandi ...Lesbók Morgunblaðsins: 24. 01. 1998: Leikritið frumsýnt

Sagan um Síðasta bæinn í dalnum er flestum Íslendingum að góðu kunn.

Þeir sem ekki kannast við bók Lofts Guðmundssonar, muna örugglega eftir kvikmynd Óskars Gíslasonar, sem var fyrsta kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd hér á landi og jafnframt ein sú vinsælasta.

Nú hefur Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör tekið verkið upp á sína arma og frumsýnir í dag nýja leikgerð eftir Gunnar Helgason og Hilmar Jónsson, sem jafnframt leikstýrir sýningunni, byggða á bók Lofts ...


Lesbók Morgunblaðsins: 08. 08. 1998: Mynd af og umfjöllun um Ártún, bæinn sem lék stórt hlutverk í myndinni

Síðasti bærinn í dalnum, var hann oft nefndur þessi bær eftir að Óskar Gíslason tók þar samnefnda kvikmynd.

Bærinn hét Ártún og er nú horfinn ...DV: 13. 03. 1999: Upptaka af leikritinu sýnt í Sjónvarpinu

Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör hefur getið sér gott orð á undanförnum árum fyrir vandaðar sýningar á íslenskum verkum.

Sjónvarpið sýnir nú upptöku af sýningu leikhússins á leikgerð þeirra Gunnars Helgasonar og Hilmars Jónssonar á Síðasta bænum í dalnum eftir Loft Guðmundsson ...


DV: 26. 03. 1999: Lesandi hafði samband, vill fá myndina í Sjónvarpið enda sígild

Ég vil endilega hvetja Sjónvarpið til að sýna hina gömlu sígildu kvikmynd Síðasti bærinn í dalnum.

Auk þess sem þetta er ein elsta kvikmynd okkar er hún afar skemmtileg.

Hún væri þarft innlegg í þá hefð sem oft bryddir á að taka til endursýningar gamlar myndir en aðeins með vissu og löngu millibili.

Mér datt þetta í hug eftir að samnefnt leikrit var sýnt í Sjónvarpinu fyrir nokkru. Prýðileg uppfærsla og skemmtileg.

En gömlu myndina endilega líka, takk ...DV: 25. 06. 1999: Myndin ein af þeim minnisstæðustu úr æsku

Ein af minnisstæðustu uppáhaldsmyndum þessa tíma er Íslenska kvikmyndin Síðasti bærinn í dalnum ...


DV: 21. 09. 2001: Tröllin í myndinni sem vísun í hryllingsmyndir

Ég veit ekki til þess að Íslendingar hafi gert margar hryllingsmyndir. Fyrir utan einstaka draugasenu í kvikmyndum Friðriks Þórs og tröllin í Síðasta bænum í dalnum eftir Óskar Gíslason þá detta mér helst í hug kvikmyndin Húsið eftir Egil Eðvarðsson og svo sjónvarpsmyndin Draugasaga eftir Viðar Víkingsson ...Morgunblaðið: 11. 05. 2004: Lesandi spyr hvort það sé ekki hægt að sýna myndina aftur, enda langt síðan síðast

Mig langar að vita hvort hægt sé að sýna myndina Síðasti bærinn í dalnum eftir Óskar Gíslason.

Það eru mörg ár síðan ég sá þessa mynd síðast og finnst kominn tími til að sýna hana aftur ...


Reykjavík Grapevine: 23. 07. 2004: Myndin einn af áhrifavöldum í lífi Ara Ergis

Last Town in the Valley (Síðasti bærinn í Dalnum) by Loftur Guðmundsson. 1950.

I saw it on Channel One in 1972, then four years of age, and pissed in my pants and shat myself with fear. No horror film is better in my recollection, and I still have a fear of large flying coffins ...Morgunblaðið: 12. 09. 2004: Æskuminning um myndina

Hefurðu tárast í bíói?

Já, já – fyrst þegar ég var polli og sá tröllin birtast á tjaldinu í myndinni Síðasti bærinn í dalnum. Brimsölt hræðslutár, skreið út, var lengi að jafna mig ...


Morgunblaðið: 21. 12. 2004: Ólafur Guðmundsson, sem lék tröllið í myndinni, látinn, minningargrein

Óli var með hærri mönnum af sinni kynslóð og þekktur borgari, ekki síst vegna starfa sinna í lögreglunni til margra ára, en hann lék einnig tröll í kvikmynd Óskars Gíslasonar Síðasti bærinn í dalnum frá árinu 1950, sem var önnur talsetta leikna kvikmyndin sem gerð var á Íslandi ...Morgunblaðið: 03. 02. 2005: Tónlist unnin upp úr verkum Jórunnar Viðar fyrir myndina

Athyglisverðari var frumflutningur á Svítu fyrir kammersveit eftir Þórð Magnússon sem unnin var upp úr tónlist Jórunnar við kvikmyndina Síðasti bærinn í dalnum.

Sú tónlist braut blað í íslenskri tónlistarsögu því aldrei áður hafði verið gerð músík fyrir leikna íslenska kvikmynd í fullri lengd.

Svíta Þórðar er samin út frá stefjum í kvikmyndinni og er hún haganleg að allri gerð.

Hljómsveitarraddsetningin er litrík og samsvarar sér ágætlega auk þess sem hún nær ágætlega að fanga andrúmsloft kvikmyndarinnar ...


Morgunblaðið: 21. 05. 2006: Viðtal við Jórunni Viðar, um myndina á bls. 27

Það dró til tíðinda á tónlistarferli mínum þegar Ævar Kvaran hafði samband við mig og bað mig að semja tónlist við kvikmynd Óskars Gíslasonar, – Síðasti bærinn í dalnum.

Ég vissi ekki hvort ég gæti þetta. Myndin er hérumbil þögul nema hvað sögumaður talar og tók klukkutíma í flutningi. Ég var næstum hálft ár að semja þessa tónlist.

Þessi mynd var afskaplega skemmtileg og ævintýraleg, ég þurfti að túlka í tónlistinni allt það sem gerðist, t.d. þegar vinnumaðurinn, sem var í raun tröll, var að slá steðjann, þegar amma sat við rokkinn og systkinin flugu í kistunni.

Tími var tekinn á vissum köflum myndarinnar, ég var með skeiðklukku og þannig samdi ég tónlistina. Allt þetta gaf mér mikil tækifæri. Þegar farið var að sýna myndina var biðröð næstum í kringum bíóið.

Tónlistin tengdi saman hina ólíku kafla myndarinnar, ég vann náið með upptökumönnunum að því verki og fann að þeir voru ánægðir með tónlistina ...Fréttablaðið: 13. 11. 2006: Bakþankar Þráins Bertelssonar um myndina

Fyrsta Íslenska kvikmyndin sem ég sá hét Síðasti bærinn í dalnum og sú síðasta var Mýrin.

Þetta eru ólíkar myndir og erfitt að bera þær saman, ekki síst vegna þess að tímans tönn hefur nagað sundur fyrir mér söguþráðinn í fyrri myndinni svo að eftir sitja aðeins fáeinar slitrur.

Þó rámar mig í að aðalpersónurnar hafi verið mjög ungar, eins og Ísland var þá; stelpa og strákur sem bjuggu í sveit.

Forvitni og nýjungagirni æskunnar leiddi síðan til þess að börnin fundu sér kraftmikið farartæki sem var töfrakista og flugu af stað á vit ævintýra; gott ef þau lentu ekki um stund í tröllahöndum; en allt fór það vel að lokum ...


Blaðið: 29. 09. 2007: Æskuminning um myndina

Ein fyrsta myndin sem hafði veruleg áhrif var Síðasti bærinn í dalnum sem Óskar Gíslason gerði árið 1950.

Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar ég - barnung - sá hana í Ríkissjónvarpinu.

Ég var alin upp við lestur ævintýra og sagna og fannst magnað að sjá þessi stórskornu tröll birtast ljóslifandi í sauðarlitunum og þegar kistan tókst á loft og flaug á einhvern óskiljanlegan hátt ...Morgunblaðið: 08. 03. 2008: Jórunn Viðar um gerð tónlistar við myndina

Frumkvöðulsandinn sagði líka til sín í því hversu óhrædd Jórunn var við að takast á við ýmsa miðla en hún samdi til að mynda tónlistina við fyrstu íslensku kvikmyndina, Síðasti bærinn í dalnum.

Það var óskapleg hvatning fyrir mig þegar ég fékk pöntun frá Íslandi frá Óskari Gíslasyni, í gegnum Ævar Kvaran, um að gera músík við þessa mynd.

Ég var ekkert smeyk við formið enda hafði ég í farteskinu hugmyndir sem kviknuðu þegar ég fékk að sjá filmuna“ ...


Fjarðarpósturinn: 14. 01. 2010: Kvikmyndasafn Íslands sýnir myndina í Bæjarbíó Hafnarfirði

Á þriðjudaginn kl. 20 sýnir Kvikmyndasafn Íslands myndina Síðasti bærinn í dalnum eftir Óskar Gíslason í leikstjórn Ævars Kvaran.

Myndin var tekin á Tannastöðum í Ölfusi, í Kershelli og í Kjós.

Í myndinni bregður fyrir tæknibrellum sem á þeim tíma þóttu nýstárlegar og gáfu henni aukið gildi, að minnsta kosti fyrir yngstu áhorfendurna ...Fréttablaðið: 19. 04. 2014: Myndin sýnd í tilefni af opnun sýningar um leiklist í Kjósinni

Í tilefni af opnuninni verður sýnd kvikmyndin Síðasti bærinn í dalnum sem Óskar Gíslason gerði eftir kvikmyndasögu Lofts Guðmundssonar rithöfundar og Þorleifs Þorleifssonar ...