Ferðafélag Íslands
Morgunblaðið: 03. 02. 1948: Mynd Ósvalds og Guðmundar frá Miðdal af heklugosinu sýnd á fundi Ferðafélags Íslands

— Af því að Ferðafjelag Íslands hefur áður sýnt mynd af byrjun gossins mun jeg sýna þá kafla úr mynd okkar Fjallamanna, sem teknir eru af gosinu eins og það var í haust og fyrri hluta Vetrar, sagði Guðmundur frá Miðdal, er blaðið átti tal við hann í gær.

— Sýndar verða myndir frá fjórum ferðum, þar af einni flugferð. Sýna þessar myndir m.a. er nýi gígurinn neðst í suðvestur öxlinni myndaðist og þegar gamla hraunhlaupið sprakk og hraunið flóði suður um Höskuldshjalla. Þá er sumt af myndinni tekið í snjó skömmu fyrir jól ...


Vísir: 01. 02. 1958: Tvær myndir eftir Ósvald frumsýndar á kvöldvöku Ferðafélagsins, önnur fjallar um fornleifarannsóknir í Skálholti og sýnir frá skálholtshátíðinni, Kristján Eldjárn flytur skýringar með henni og hin er um Ásgrím Jónsson listmálara

Á kvöldvökunni verða frumsýndar tvær kvikmyndir sem Ósvaldur Knudsen hefur tekið, með skýringarteksta Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar.

Kvikmyndir þessar eru frá fornleifarannsóknunum í Skálholti og frá Skálholtshátíðinni, svo og kvikmynd, sem gerð hefur verið um Ásgrím Jónsson listmálara og starf hans ...
Tíminn: 06. 02. 1958: Um sýninguna á fundi Ferðafélagsins á myndum úr Skálholti og um Ásgrím Jónsson, báðar sagðar vel unnar og góðar heimildir og þá sérstaklega myndin um Ásmund

Báðar þessar kvikmyndir hefir Ósvaldur Knudsen gert, en dr. Kristján Eldjárn skýrir þær með nokkrum snjöllum setningum. Báðir eiga þakkir skilið.

Myndirnar túlka söguleg augnablik, er seinni tímum mun þykja mikilsvirði að hafa ljóslifandi fyrir augum.

Myndin af Ásgrími Jónssyni verður stórmerk heimild um þennan sérstæða og stórbrotna snilling og brautryðjanda, sem fyrstur ísl. myndlistarmanna gerði þá listgrein að ævistarfi, og vakti þjóðina til meðvitundar um tign og fegurð landsins ...


Morgunblaðið: 08. 02. 1958: Um sýningu Ferðafélagsins á myndunum frá Skálholti og um Ásgrím

Síðan var frumsýnd Skálholtskvikmynd eftir Ósvald Knudsen, með texta eftir Kristján Eldjárn, þjóðminjavörð, og talaði Kristján inn á myndina.

Var mynd þessi mjög merkileg um marga hluti, og þó sérstaklega, að sýndur var gröftur að grunni Brynjólfskirkju. Á myndinni sést er komið var niður á steinkistu Páls biskups Jónssonar, og er lokinu var lyft af henni. Er sá fundur einn merkasti fornminjafundur hér á landi.

Þá var sýnd Skálholtshátíðin 1956, er fjölmargir erlendir kirkjuhöfðingjar sóttu Skálholt heim. Var gerður mjög góður rómur að kvikmynd þessari.

Næst var frumsýnd kvikmynd af verkum Ásgríms Jónssonar, listmálara, og nokkuð úr athafnalífi listamannsins. Björn Th. Bjórnsson, listfræðingur flutti fróðlegt erindi um Ásgrím og list hans ...
Tíminn: 16. 10. 1958: Ósvaldur sýnir tvær myndir á kvöldvöku Ferðafélags Íslands

Sýndir verða tveir litkvikmyndaþættir, sem Ósvaldur Knudsen hefir tekið og fylgir tal og texti eftir Kristján Eldjárn.

Þá verður sýnd litkvikmynd af séra Friðrik Friðrikssyni og starfi hans og einnig mynd af síðustu fráfærum hér á landi ...


Morgunblaðið: 25. 11. 1959: Ósvaldur sýnir myndina Vorið er komið á kvöldvöku Ferðafélags Íslands, mynd um vorkomuna á Íslandi, Kristján Eldjárn talar yfir, farið yfir frumsýningar Ósvalds

Þá nýjustu, Vorið er komið, hefur Ósvaldur gert á undanförn um árum. Hann hefur ferðazt víða um og safnað efni og gengið svo frá henni í haust.

Er þetta undurfalleg litmynd af vorinu í íslenzkum sveitum og ungviðinu sem þá er hvarvetna að stíga sín fyrstu spor í veröldinni. Er einkum sýnt mikið úrval af fuglum, og sennilega hafa aldrei sézt svo margar íslenzkar fuglategundir í einni kvikmynd áður.

Þarf óendanlega þolinmæði til að ná slíkum myndum, og segir Ósvaldur að sér hafi gengið einna verst með spóann, sem var svo var um sig og var þotinn um leið og heyrðist í vélinni.

Einnig er góður kafli um fjallarefinn og börnin hans, um tvílemdu ána að koma lömbum sínum í heiminn o.m.fl. ...
Tíminn: 05. 02. 1965: Ósvaldur gerður að heiðursfélaga í Ferðafélagi Íslands

Á síðasta skemmtifundi félagsins var tilkynnt, að félagsstjórnin hafi kjörið Ósvald Knudsen málarameistara, heiðursfélaga í Ferðafélagi Íslands.

Svo sem kunnugt er, hefur Ósvaldur gert margar merkilegar kvikmyndir af landi og þjóð og með þeim bæði kynnt fjölda manna fegurð og mikilleik íslenzks landslags og náttúru, og ekki síður bjargað miklum fróðleik um lífskjör fólks og forna atvinnuhætti, sem nú eru sem óðast að hverfa.

Í því sambandi má minna á kvikmyndir hans frá Hornströndum, Ullarband og jurtalitun, Vorið er komið, Tjöld í skógi, Sogið, um Heklugos og Öskjugos og nú síðast Sveitin milli sanda, auk fjölda annarra kvikmynda.

Þetta landkynningarstarf inn á við er mjög í anda stefnuskrár Ferðafélagsins, og auk þess hefir Ósvaldur alla tíð verið mikill vinur félagsins og leyft því að frumsýna flestar myndir sínar ...


Morgunblaðið: 12. 03. 1969: Ósvald sýnir þrjár myndir á kvöldvöku Ferðafélags Íslands, mynd um Ríkarð Jónsson myndhöggvara, myndin Morgunstund að Núpsstað, báðar í kringum 5 mínútur að lengd, og mynd um Pál Ísólfsson sem er 25 mínútur að lengd

Ósvaldur Knudsen hefur nýlokið við gerð þriggja kvikmynda, sem hann frumsýndi á mánudag. Eru þær mynd um Ríkarð Jónsson, myndhöggvara, sem takin er í vinnustofu hans, og tekur sýning hennar 5—6 mínútur.

Mynd sem nefnist Morgunstund að Núpsstað, sem er í litum, og kemur Hannes Jónsson, bóndi og fyrrum póstur þar fram, ásamt fleirum, og tekur 6—7 mínútur að sýna hana.

Loks er mynd um Pál Ísólfsson, tekin að miklu leyti í Ísólfsskála. Er það saga Páls í stuttu máli í litum og tekur um 25 mínútur sýning hennar ...
Morgunblaðið: 15. 03. 1969: Gagnrýni á myndirnar þrjár sem Ósvald sýndi á kvöldvöku Ferðafélagsins

Fyrsta myndin var af listamanninum og snillingnum Ríkharði Jónssyni á verkstæði hans. Myndin var helzt til stutt. Mig langaði til að sjá meira af verkum Ríkharðs. Í stað hins talaða orðs, sem fylgir slíkum myndum, kvað Ríkharður rímur og stemmur meðan hann stóð að verki, en það var ein af mörgum íþróttum þessa fjölhæfa listamanns. Myndin virtist tekin öll á sama degi nálægt áttræðisafmæli Ríkharðs

Önnur myndin var af Páli Ísólfssyni, en hér var brugðið upp svipmyndum úr ævi hans síðustu tvo áratugina. Því var þessi mynd miklu betri sem heimildarmynd. Myndin er óvenju vel samsett og bregður upp fjölmörgum atvikum frá ýmsum stórhátíðum, þar sem Páll stóð fyrir söng eða stjórnaði hljómsveitum ...