Fljúgandi furðuhlutur

Höfundur svars: Katrín Guðmundsdóttir

Fljúgandi furðuhlutir (e. Flying Saucer) eru fyrirbæri sem hafa verið viðloðandi vísindaskáldskap, einkum geimveruinnrásarmyndir (e. Invasion Film), frá því um miðja tuttugustu öld. Þótt fjölmargir einstaklingar haldi því fram að þeir hafi orðið áskynja um fljúgandi furðuhluti og jafnvel átt samgang við þau í gegnum tíðina er uppruni hugtaksins engu að síður skáldskaparlegs eðlis og á rætur að rekja í bandarísk afþreyingartímarit (e. Pulp Magazines).

Hér er um að ræða hvers kyns fyrirbæri — þó ekki af jarðneskum toga — sem fljúga um í gufuhvolfi jarðar, gjarnan hlykkjótt og á ógnarhraða. Enska orðið „Saucer“ vísar í undirskál og er því einnig talað um fljúgandi diska á íslensku þótt fyrirbærin takmarkist síður en svo við form þeirra. Furðuhlutir þessir eru alloft álitnir vera samgöngubúnaður æðri vitsmunavera utan úr geimi og vilja margir meina að vitnisburður um tilvist þeirra bendi til þess að njósnað sé um okkur jarðarbúa.

Bandarísk afþreyingartímarit voru sérlega vinsæl á fyrri hluta síðustu aldar og báru uppi vísindaskáldskapar- og furðusagnahefð sem höfundar á borð við H.G. Wells og Jules Verne höfðu lagt grunn að nokkru áður. Tímarit eins og Amazing Stories, Astounding Stories, Science Fiction Magazine voru framleidd í massavís og innihéldu ógrynni af smásögum um ókennileg og fjarstæðukennd viðfangsefni, ekki síst fljúgandi furðuhluti og geimverur.

Frásagnarhefðin stimplaði sig rækilega inn í bandaríska menningu og í kjölfarið varð áhugi og jafnvel trú á annarra heima líf mun viðteknari en áður. Árið 1947 kvaðst flugmaðurinn Kenneth Arnold til dæmis hafa orðið vitni að níu disklaga fyrirbærum þeytast yfir háloftin þegar hann var að fljúga þar um sjálfur. Upplifun hans vakti mikla athygli og töluvert fjölmiðlafár en í kjölfarið urðu frásagnir einstaklinga af slíkum fyrirbrigðum mun tíðari en þekkst hafði áður.

Fyrsta kvikmyndin sem sækir innblástur í þennan menningarkima er The Flying Saucer (1950, Mikel Conrad) en þar koma þó engar geimverur við sögu. Fljúgandi diskar sem sögupersónur komast á snoðir um eru þvert á móti tilraunaverkefni vísindamanns sem sovéskir njósnarar vilja komst yfir. Ári seinna komu fyrstu geimveruinnrásarmyndirnar út; The Man from Planet X (Edgar G. Ulmer), The Thing from Another World (Howard Hawks, Christian Nyby) og The Day the Earth Stood Still (Robert Wise), en þær segja allar frá óttablendinni upplifun einstaklinga eða samfélags þegar fljúgandi diskar lenda fyrirvaralaust á jörðinni.

Í seinni tíð hafa fljúgandi furðuhlutir verið nokkuð vinsælt viðfangsefni í vísindaskáldskap sem og samfélagslegri umræðu um varnarmál og jafnvel geðheilbrigði. Hvort sem fólk trúir á annarra heima líf eður ei verður ekki horft fram hjá því að vangaveltur um fyrirbæri af þessu tagi, uppruna þeirra, eðli og áform, eru vel til þess fallin að gagnrýna menningarheima mannsins með því að setja þá í samhengi við aðra – óþekkta – menningarheima.

Heimildir:

Armando Simon, „Pulp Fiction UFOs“. Skeptic, útg. 16. tölubl. 4, 18-20 (Altadena: Millennium Press, 2011).

Farrah Mendlesohn, „Fiction, 1926-1949“. The Routledge Companion to Science Fiction (New York: Routledge, 2011).