Ágúst Guðmundsson

höfundur höfundur höfundur og höfundur

Ágúst Guðmundsson fæddist þann 29 júní árið 1947. Ágúst stundaði nám við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með gráðu í íslensku og frönsku. Hann nam í kjölfarið leiklist við Þjóðleikhúsið og kvikmyndastjórn við National Film School í Englandi þar sem hann útskrifaðist árið 1977. Kvikmyndir Ágústs Guðmundssonar hafa sett íslenska kvikmyndagerð á kortið, innan sem utanlands. Land og Synir er talin hafa dregið að sér meira en helming allra íbúa á Íslandi. Ágústi hefur verið líkt við leikstjóra á borð við Ermanno Olmi og Ingmar Bergman fyrir viðkvæma lýsingu hans á daglegu lífi hins almenna borgara, og fyrir áhrifamikla notkun landslags í kvikmyndum sínum.

Ágúst leikstýrði stuttmyndunum Lifeline to Cathy árið 1977 og Lítil þúfa árið 1980 Fyrir þær fékk hann verðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíð Chicago og kvikmyndahátíð Reykjavíkur. Með gott orðspor að baki og smávegis styrk frá nýstofnaða Kvikmyndasjóðnum gaf Ágúst Guðmundsson út sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd árið 1980, en sú kvikmynd heitir Land og synir. Land og synir er almennt talin vera einn helsti „boðberi íslenska kvikmyndavorsins“.[1]

Hún er einnig mikilvæg í sögu íslenska þjóðarbíósins að því leyti að allir þættir kvikmyndarinnar eru alíslenskir. Kvikmyndin fjallar um sögu Íslendinga á fyrri hluta 20. aldar þegar þjóðin var að breytast úr aldagömlu bændasamfélagi í bæjarsamfélag, en hún er byggð á samnefndri skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar. Kvikmyndin fékk mikla aðsókn hérlendis og vakti athygli erlendis en hún hlaut silfurverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Taorminu.

Ágúst hélt sigurgöngu sinni áfram en hans önnur mynd var víkingamyndin Útlaginn (1981) sem er byggð á Íslendingasögunni um Gísla Súrsson. Ágúst Guðmundsson var fyrstur manna til að framleiða víkingamynd hér á landi en hún fékk mikla aðsókn frá landsmönnum. Hinsvegar var Ágúst gagnrýndur fyrir hve mikla áherslu hann lagði á nákvæmni sögunnar í stað þess að gera hana kvikmyndalegri og er það líklegast ein af ástæðunum fyrir því að hún varð ekki eins vinsæl erlendis og gert var ráð fyrir. Aðalhlutverkin fóru þau Helgi Skúlason, Tinna Guðlaugsdóttir og Arnar Jónsson með og var kvikmyndin að mestu leiti tekin upp í Rekjavík. Vert er að minnast á það að bæði Land og synir og Útlaginn voru framlag íslendinga til Óskarsverðlauna árin 1980 og 1981.

Þriðja kvikmynd Ágústs sló öll aðsóknarmet landsins og fyllti hjörtu landsmanna til lengri tíma en um er að ræða gamansöngleikinn Með allt á hreinu (1982). Ágúst bæði leikstýrði Með allt á hreinu og skrifaði handritið með Stuðmönnum og Eggerti Þorleifssyni. Myndin fjallar um tvær hljómsveitir, Stuðmenn og Gærurnar (réttu nafni Grýlurnar), og samkeppni þeirra um að ná árangri í tónlistarsenunni. Við fylgjumst með ferðalögum þeirra um Ísland og þeim skemmtilegu og stundum yfirnáttúrulegum ævintýrum sem þau lenda í á leiðinni. Aðalpersónur myndarinnar eru landsþekktu hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar sem eru í raun að leika sig sjálf í myndinni.

Myndin hefst á því þegar parið Kristinn ,,stuð” (Egill Ólafsson) og Harpa Sjöfn (Ragnhildur Gísladóttir) lenda í slæmu rifrildi um hljómsveitina sína sem leiðir til þess að hún skiptist í tvær gjörólíkar hljómsveitir og bindur enda á ástarsamband þeirra. Kristinn verður aðalsöngvari popp-hljómsveitarinnar Stuðmenn og Harpa verður aðalsöngkona pönk-hljómsveitarinnar Gærurnar. Þau keppast um frægð og frama og reyna að hindra fyrir hvoru öðrum um að fá að spila á alls konar viðburðum á Íslandi. Það er einstaklega skemmtilegt að fylgjast með baráttu þeirra beggja og tónlistin er ekki í verri kantinum.  

Yfir 100 þúsund Íslendingar sáu Með allt á hreinu þegar hún kom fyrst út sem er gríðarlega há tala því fólksfjöldinn var bara um 240 þúsund á þessum tíma.[2] Hún hefur elst vel og mörg lögin eru ennþá sungin af öllum aldurshópum. Í Með allt á hreinu eru einnig fjölmargir „frasar“ sem hafa lifað með þjóðinni, eins og til dæmis hin fleygu orð: ,,Það verður sko engin helvítis rúta, það verður langferðabíll!,” og ,,takið af ykkur skóna!” Það mætti jafnvel segja að Með allt á hreinu sé orðin að költmynd sökum þess að hún er ennþá eftirsótt þrátt fyrir að vera nærri fjörutíu ára gömul. Ágúst gerði framhaldsmynd tveimur áratugum síðar sem ber nafnið Í takt við tímann (2004), en að gerð hennar komu auk Ágústs margir aðrir sem verið höfðu í fyrri myndinni.

Árið 1984 leikstýrði Ágúst Gullsandi, en hún er gamanmynd með pólitísku ívafi sem fjallar um smábæ á suðurströnd Íslands. Myndin fjallar um þá ólgu meðal heimafólks þegar gull finnst á nærliggjandi ströndum og hvernig sá fundur umturnar rólega smábæjaranda í sannkallaða ringulreið. Heimafólkið skiptist niður í tvær fylkingar: Þá sem vilja kurteis samskipti við herinn og þá sem vilja hann burt. Einnig er deilt um eyðiland sem varð fyrir miklum móðurharðindum fyrir rúmum tveimur öldum.

Myndin er innblásin af leitunum frægu af hollenska gullskipinu sem strandaði á Skeiðarársandi á 17.öld, en leitirnar fóru fram með aðstoð Bandaríkjamanna á árunum 1960-1983. Ágúst vildi gera mynd sem fjallaði um viðveru Bandaríkjamanna á Íslandi og viðhorf Íslendinga gagnvart þeim, en Ágúst telur sambandið vera markaðsdrifið.[3] Edda Björgvinsdóttir, Arnar Jónsson og Pálmi Gestson fara með aðalhlutverkin í myndinni og hlaut Ágúst gullverðlaun á norrænu kvikmyndahátíðinni í Lubeck fyrir hana.

Eftir árið 1984 tekur við langt tímabil þar sem Ágúst framleiðir einungis leikið sjónvarpsefni en hann hefur annað slagið framleitt sjónvarpsmyndir fyrir RÚV á milli kvikmynda, Saga úr stríðinu (1976), Skólaferð (1978) og Gullna hliðið (1984) þar á meðal. Árið 1988 framleiddi hann sjónvarpsþættina Nonni og Manni, sem eru byggðir af skáldsögum Jón Sveinssonar um “Nonna” en þættirnir þóttu vinsælir meðal barna og fullorðna. Ágúst fékk einnig það verkefni að framleiða Sea Dragon (1990), fjögurra hluta þáttaröð fyrir sjónvarpsstöðina Thames í London. Ágúst sneri svo aftur að kvikmyndagerð með myndinni Dansinn (1998) og svo stuttu seinna gaf hann út Mávahlátur (2001).

Kvikmyndin Mávahlátur er byggð á bók eftir Kristínu Marju Baldursdóttur og var frumsýnd árið 2001. Myndin fjallar um Öggu litlu sem grunar Freyju frænku sína um óheiðarleika eftir að hafa komið heim til Íslands eftir áralanga búsetu í Ameríku. Freyja er afar dularfull kona, hún er með gríðarlega sítt hár, mitti sem er aðeins rúmur hálfur metri og vegur naumlega 52 kíló. Agga fylgist grant með henni og telur að hún fari út að næturlagi til að dansa með álfunum og myrðir ástmenn sína.

Aðaleikarar eru Margrét Vilhjálmsdóttir, Ugla Egilsdóttir, Heino Ferch, Hilmir Snær Guðnason, Kristbjörg Keld og Edda Björg Eyjólfsdóttir. Myndin hlaut góðar viðtökur og þá sérstaklega vel í Bandaríkjunum en Dave Kehr frá New York Times sagði eftirfarandi um myndina: „A sleek and entertaining work with pockets of darkness and mystery!”. Mávahlátur var framlag íslendinga til Óskarsverðlaunanna árið 2002 og hún hlaut Edduverðlaun fyrir bíómynd ársins, leikstjóri ársins, leikkona ársins (Margrét Vilhjálmsdóttir), leikari og leikkona ársins í aukahlutverki (Hilmir Snær Guðnason og Kristbjörg Kjeld) o.fl. á heimsvísu.

Árið 1998 frumsýnir Ágúst kvikmynd sína Dansinn. Myndina skrifaði hann ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Atladóttur og er handrit myndarinnar byggt á sögunni Her skal danses eftir hinn þekkta færeyska rithöfund Williams Heinesens. Sagan gerist árið 1913 og segir frá brúðkaupi sem haldið er í Færeyjum og stendur yfir í þrjá daga. Þegar að breskur togari strandar við eyjuna vegna ofsaveðurs sameinast brúðkaupsgestir við að ná skipverjum á land. Þegar líða tekur á veisluna fara undarlegir atburðir að eiga sér stað sem leiða til þess gestir fara að telja að djöfullinn sjálfur hafi gerst boðflenna í brúðkaupinu. Með aðalhlutverk myndarinnar fara Gunnar Helgason, Baldur Trausti Hreinsson, Gísli Halldórsson og með hlutverk brúðhjónanna fara Pálína Jónsdóttir og Dofri Hermannsson. Dansinn hlaut ágætis viðtökur og í dómi Guðmundar Ásgeirssonar, blaðamanns Morgunblaðsins segir meðal annars að Dansinn hafi verið besta kvikmynd ársins og að hún sé góður undanfari fyrir komandi ár í íslenskum kvikmyndaiðnaði. Myndin hlaut nokkur verðlaun, þar á meðal fyrir bestu kvikmyndatöku á Festroia kvikmyndahátíðinni sem haldin er í Portúgal, fyrir bestu leikstjórn á kvikmyndahátíðinni Moscow International Film Festival og var að auki tilnefnd sem besta norræna kvikmynd ársins á Amanda Award kvikmyndahátíðinni í Noregi. Á Íslandi fékk Dansinn Edduverðlaunin fyrir búninga ársins.

Ófeigur gengur aftur (2013) er nýjasta kvikmynd Ágústs Guðmundssonar og eru aðalleikarar í myndinni eru Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, Gísli Örn Garðarson og Ilmur Kristjánsdóttir. Kvikmyndin fjallar um parið Önnu Sól og kærasta hennar Inga Brján. Faðir Önnu, Ófeigur er ný látinn og erfir Anna húsið hans í miðbænum. Hún og Ingi ákveða að selja íbúðina og flytja á nýjan og barnvænni stað. Hins vegar fer allt á annan endann þegar faðir Önnu, Ófeigur gengur aftur og gerir allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir að þau nái að selja húsið. Ingi Brjánn tekur þá til sinna ráða og reynir að losa sig við reimleika hússins en þá er spurning hvort Anna sól sér tilbúin að kveðja föður sinn fyrir fullt og allt.

Aðspurður hvað taki við núna, nefnir Ágúst þrenn verkefni sem hann ætlar sér á næstunni. Hann hefur í huga er að gera mynd með danska framleiðandanum Tivi Magnusson um seinni heimsstyrjöldina í Grænlandi.[4]Annað verkefnið á að fjalla um ástfangna hjúkrunarkonu frá Höfn í Hornafirði en sú mynd ber vinnuheitið Ást á heimsenda og að lokum hefur Ágústi lengi langað að gera enska víkinga-kómedíu.[5]


Heimildir

[1] Björn Þór Vilhjálmsson, „Furðuleg og óhófleg bjartsýni“, Hugrás, 29.nóvember 2017, http://hugras.is/2017/11/furduleg-og-ohofleg-bjartsyni/, (Sótt 8.4.2019.).

[2] Peter Cowie, „Icelandic Films“, Kvikmyndamiðstöð Íslands, 2005, http://www.kvikmyndamidstod.is/media/skjol/iceland.pdf, (Sótt 8.4..2019.), bls. 66 í skjalinu.

[3] Peter Cowie, „Icelandic Films“, bls.54 í skjalinu.

[4] Nafn höfundar kemur ekki fram, „Viðtalið – Ágúst Guðmundsson“, Kvikmyndir.is, 22.mars 2013, http://kvikmyndir.is/vidtalid-agust-gudmundsson/, (Sótt 8.4.2019.).

[5] Sama rit og hér að ofan.