Baltasar Kormákur

Höfundar: Andri Freyr Sigurpálsson, Eydís Egilsdóttir Kvaran, Nikulás Tumi Hlynsson, Stefanía Stefánsdóttir, Unnur Agnes Níelsdóttir og Vera Fjalarsdóttir

Baltasar Kormákur Samper fæddist 27. febrúar 1966 í Reykjavík. Foreldrar hans eru Kristjana Guðnadóttir Samper og spænski listmálarinn Baltasar Samper. Baltasar segir að listsköpun föður síns hafi verið honum mikill innblástur.[1] Hann ólst upp í Kópavogi og áhugamál hans þegar hann ólst upp voru útivist, fótbolti, hestamennska og lærði hann einnig að sigla seglbát.[2] Baltasar gekk í Menntaskólann í Reykjavík og var þar á náttúrufræðibraut. Hann ætlaði fyrst að verða dýralæknir og sótti dýralæknaskóla í Liverpool. Sá ferill var þó ekki langlífur. Baltasar tók þátt í leikfélagi Menntaskóla Reykjavíkur, Herranótt, allan skólaferilinn og varð seinna formaður félagsins. Fljótlega eftir útskrift gekk hann í Leiklistarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1990.[3] Hann var ráðinn af Þjóðleikhúsinu sem leikari eftir leiklistarnámið og starfaði þar til 1997.[4] Hjá Þjóðleikhúsinu lék Baltasar m.a. í uppsetningu á leikritunum Rómeó og Júlía og Kæra Jelena. Einungis fjórum árum eftir útskrift setti Baltasar upp söngleikinn Hárið sem sló rækilega í gegn. Árið 1995 stofnaði hann svo sitt eigið leikhús, Loftkastalann.

Loftkastalinn átti sér áratugs líftíma og þónokkrar sýningar leikhússins vöktu athygli.  Má þar nefna fyrstu uppsetningu leikfélagsins, sem var söngleikurinn Rocky Horror, en Baltasar leikstýrði sviðsuppfærslunni. Baltasar var sömuleiðis leikstjóri Svika (Betrayal) eftir Harold Pinter, sem sett var á svið árið1998. Sama ár leikstýrði Guðjón Pedersen Músum og mönnum, sviðsaðlögun á heimsfrægri skáldsögu John Steinbeck.[5] Þá settu leikfélög margra framhaldsskóla upp sín leikrit í Loftkastalanum, t.d. leikfélag MH sem frumsýndi Martröð á Jólanótt í lok árs 2004 og Nemendamótsnefnd Verzlunarskóla Íslands sem frumsýndi Welcome to the Jungle árið 2005.[6] Eins og áður var nefnt nutu sumar sýningar leikhússins velgengni en það var jafnframt umdeilt og að sögn Baltasars var reksturinn afar erfiður.[7]

Frá 101 til Hollywood

Fáir íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa átt jafn farsælan feril og Baltasar Kormákur, og enginn ef litið er til velgengni Baltasars á alþjóðavettvangi. Hann hefur skapað sér nafn innan Hollywood og leikstýrt stórum verkefnum sem notið hafa vinsælda, auk þess að skarta stórstjörnum á borð við Mark Wahlberg, Denzel Washington og Diane Kruger. Leikstjóraferillinn hófst þó heima, með kvikmyndinni 101 Reykjavík (2000), sem Baltasar skrifaði, framleiddi og leikstýrði. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Hallgríms Helgarsonar og segir frá Hlyni (Hilmir Snær Guðnason), stefnulausum manni sem býr hjá móður sinni. Þegar spænskur flamenco-kennari, Lola (Victoria Abril), flytur til mæðginanna yfir jólin myndast sérkennilegt ástarsamband milli Lolu og Hlyns og út frá því fer einkennileg atburðarás af stað. Myndin naut gríðarlegrar velgengni innanlands og erlendis var hún meðal annars verðlaunuð á Toronto International Film Festival og fékk býsna umfangsmikla dreifingu í Evrópu.[8] Peter Preston lýsir Baltasar sem svari Íslands við Pedró Almodóvar í dómi sínum um 101 Reykjavík fyrir The Guardian. Anarkíska atburðarásin í samhengi hráslagalegu áfengisdrifnu kuldaborgarinnar veitir gamansömu yfirbragði náttúrulega innkomu, þar sem persónur reyna að hjúfra sig saman í leit að hlýju. Preston hrósar 101 Reykjavík fyrir það hversu vel hún fangar ömurleika lífsins á afskekktri og harðbýlli eyju og telur ómögulegt að líka illa við frumraun Baltasars í leikstjórastólnum.[9] Eftir velgengni 101 Reykjavíkstofnaði Baltasar fyrirtækið Sögn ehf. ásamt þáverandi eiginkonu sinni Lilju Pálmadóttir. Erlendis var fyrirtækið þekkt sem Blue Eyes Productions og starfaði það sem framleiðslufyrirtæki á sviði leiklistar og kvikmynda.[10]

Næsta kvikmynd Baltasars, Hafið (2002), er byggð á samnefndu leikriti eftir Ólaf Hauk Símonarson frá 1992. Myndin segir frá efnaðri útgerðarfjölskyldu sem býr í litlu íslensku sjávarþorpi og þeim erjum sem myndast þegar faðirinn, Þórður (Gunnar Eyjólfsson), vill selja kvótann sinn og flytja til höfuðborgarinnar. Þemu myndarinnar líkjast öðrum skandinavískum fjölskyldudrömum líkt og Festen (Thomas Vinterberg, 1998) og Arven (Per Fly, 2003).[11] Í gagnrýni sinni fyrir New York Times lýsir Stephen Holden Hafinu sem annaðhvort grimmilega skemmtilegri gálgahúmorsmynd eða einni af bitrustu fjölskyldudrömum sem hvíta tjaldið hafði séð.[12] Myndin hlaut fjölda Edduverðlauna og var ein aðsóknarmesta íslenska kvikmynd árið 2002.[13]

A Little Trip to Heaven (2005) er bandarísk/íslensk framleiðsla. Myndin er að hluta framleidd af bandarískum fyrirtækjum og dreifingaraðilum, og skartar bandarískum stjörnum í helstu hlutverkum, og er Forest Whitaker þar í fyrirrúmi. Bróðurpartur framleiðsluteymisins eru þó Íslendingar og er Blue Eyes helsta framleiðslufyrirtækið. Myndin fjallar um tryggingarsvindl og fylgir morðmáli sem Abe Holt (Forest Whitaker) hefur verið fenginn til að rannsaka.

Myndinni gekk ekki jafn vel og fyrri myndum leikstjórans, en á heimsvísu skilaði hún 123 þúsund Bandaríkjadölum. Til samanburðar má nefna að Hafið þénaði 176 þúsund dali og 101 Reykjavík yfir hálfa milljón dala.[14] Þá hlaut myndin ennfremur heldur snubbótta útreið þegar að Eddu-verðlaununum kom, og fáar sem engar tilnefningar enduðu í myndarinnar ranni. Dennis Harvey segir fyrstu tilraun Baltasars til að fjarlægja sig sínu þjóðarbíói og móðurmáli leiða af sér móðugan söguþráð, mislukkað sögusvið og óþróaðar persónur. „[A Little Trip to Heaven] er sígilt dæmi um leikstjórnarhæfni sem tapast við þýðingu,“ segir Harvey í dóm sínum á myndinni fyrir Variety.[15]

Baltasar heldur áfram í glæpagreininni og fylgir A Little Trip to Heaven eftir með Mýrinni (2006), mynd sem byggð er á samnefndri skáldsögu Arnalds Indriðasonar. Mýrin segir frá lögreglumanninum Erlendi (Ingvar E. Sigurðsson) og morðmáli sem reynist teygja anga sína djúpt inn í fortíðina og tengjast gömlum leyndarmálum. Mýrin sló í gegn á Íslandi og varð sömuleiðis tekjuhæsta mynd leikstjórans fram að því, en miðasölutekjur eru áætlaðar tæplega 750 þúsund dalir.[16] Ólíkt A Little Trip to Heaven var Mýrin jafnframt afskaplega sýnileg á Edduverðlaununum, og endaði með að hljóta fimm verðlaun, meðal annars fyrir bíómynd og leikstjóra ársins. Eins og áður segir gekk myndin vel erlendis, hún hlaut góða dóma í stórum tímaritum líkt og Variety og New York Times, auk verðlauna á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum.[17] Mýrin er mikilvægur hlekkur í íslensku glæpamyndagreininni, Baltasar sækir í hefð glæpamynda hérlendis og deilir Mýrin einkennum með myndum greinarinnar. Björn Þór Vilhjálmsson hefur bent á að innilokunarkennd sé áberandi einkenni íslenskra glæpakvikmynda, eyjan er lítil og sama má segja um erfðamengi þjóðarinnar, og flótti er jafnan vonlaust, hvort sem leitast er við að flýja yfir Atlantshafið til annarra landa eða frá fortíðinni, sem liggur þungt á samtímanum og markar nútímalífi afmarkaðan og þröngt skilgreindan farveg. Lausnin á ráðgátunni sem Erlendur glímir við í Mýrinni tengist genabanka erfðafyrirtækis sem geymir upplýsingar um erfðaefni þjóðarinnar. Hugmyndin um að DNA heillar þjóðar sé varðveitt og geti hjálpað til við að grafa upp gamla glæpi styrkir innilokunarkenningu Björns, „á Íslandi er engin undankomuleið.“[18]

Baltasar leitaði aftur til leikhússins þegar hann gerði sína næstu mynd, Brúðgumann (2008). Hún er lauslega byggð á Ivanov, leikriti Anton Chekhov, og fóru tökur Brúðgumans fram samhliða uppsetningu á Ivanov í Þjóðleikhúsinu.[19] Baltasar leikstýrði báðum verkum og skartaði sama leikhópi í helstu hlutverkum, þeim Hilmi Snæ Guðnasyni, Laufeyju Elíasdóttur og Margréti Vilhjálmsdóttur. Í leikskrá Ivanov stendur: „áhorfendum gefst hér einstakt tækifæri til að kynnast því hvernig sami leikstjóri og leikhópur nálgast leikverk í ólíkum miðlum.“[20] Brúðguminn sló í gegn á innanlandsmarkaði og vann til fjölda Edduverðlauna.[21]

Næstu myndir Baltasars voru gerðar í Hollywood, og verður þar sú fyrsta, Inhale (2010), að teljast áberandi hógværust. Í kjölfarið fylgdi endurgerð af kvikmyndinni Reykjavík – Rotterdam (2008), sem í Bandaríkjunum nefndist Contraband (2012). Contraband segir frá smyglaranum Chris Farraday (Mark Wahlberg) sem neyðist til þess að fara til Panama í smyglleiðangur til þess að vernda mág sinn Andy (Caleb Landry Jones). Sama ár gaf Baltasar út íslensku myndina Djúpið (2012) sem byggð er á sannsögulegum atburðum þegar fiskiskipið Hellisey sökk árið 1984 og aðeins einn áhafnameðlimanna lifði af, aðalpersónan Guðlaugur Friðþórsson (Ólafur Darri Ólafsson). Djúpið fjallar um kvöldið örlagaríka og þá þrekraun upp á líf og dauða sem Guðlaugur stóð frammi fyrir. Myndin hlaut ellefu Edduverðlaun[22] og var vel sótt í íslenskum kvikmyndahúsum en kvikmyndagestir voru tæplega 50 þúsund.[23] Hollywood bankaði þó aftur upp á og næst tók Baltasar að sér gerð hasarmyndarinnar 2 Guns (2013), en í aðalhlutverkum voru Mark Wahlberg og Denzel Washington. Myndin kostaði 61 milljón dali og skilaði tæpum 132 milljónum dala á heimsvísu.[24] Velgengni 2 Guns fylgdi Baltasar eftir með stórháskamyndinni Everest (2015), sem sömuleiðis gekk vel á heimsvísu (skilaði yfir 200 milljónum dala).[25] Næsta kvikmynd Baltasars var Eiðurinn (2016). Baltasar leikstýrði kvikmyndinni og lék sjálfur aðahlutverkið ásamt því að skrifa handritið með Ólafi Egilssyni. Eiðurinn sló í gegn í heimalandinu og aftur varð kvikmynd eftir Baltasar sigursæl á Edduverðlaununum, en hún hlaut samtals sex verðlaun.[26] Síðan tók við önnur háskamynd þegar Baltasar leikstýrði Adrift (2018) sem líkt og Djúpið fjallar um sjávarháska.

Að taka upp kvikmyndir við krefjandi aðstæður einkennir seinni myndir Baltasars en hann telur að krefjandi aðstæður séu hluti af sér: „Ég hef traust á hæfileikum mínum í krefjandi aðstæðum, það er stór partur af mér. Ég óttast ekki áskoranir, ég elska þær“.[27] Í viðtali grínaðist Baltasar með að hafa undirbúið sig fyrir vettvangstökur á Everest með daglegu arki í gegnum snjóstorm þegar hann var drengur, og þá leiðinni í skólann.[28] Íslenskar veðuraðstæður urðu svo einmitt grunnurinn að stærsta verkefni hans, sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð (2015-), sem framleiddir eru af fyrirtæki Baltasars, Reykjavik Studios. Tvær 10 þátta seríur hafa komið út og leikstýrði Baltasar þar af fjórum þáttum. Þættirnir njóta ekki aðeins vinsælda á Íslandi heldur um allan heim og þá sér í lagi í Evrópulöndum en sjónvarpstöðvar á borð við BBC hafa sýnt þáttaraðirnar báðar. Þættirnir hittu einnig í mark hjá gagnrýnendum. Sam Wollaston gagnrýnandi hjá The Guardian segir í dómi sínum: „Fegurðin er öðruvísi, hún liggur með undarlegum hætti út frá náttúrunni, þarna eru jöklar og ísilagðir firðir í landi eldfjalla sem er í senn lifandi og hættulegt. Norrænt ef til vill, en þetta er svo sannarlega og virðingarlega, íslenskt“.[29] Föðurlandið, aðstæður þess og landslag eru því brunnur sem Baltasar sækir reglulega í.

Höfundareinkenni

Baltasar kemur fram við áhorfendur sína af virðingu. Hann segir þeim ekki hvernig þeim á að líða og persónusköpun er ekki látin hvíla á upplýsingum sem persónur tjá í samtölum. Þannig kemur Hollywood-hasarmyndin 2 Guns á óvart fyrir það hversu hæg og íhugul hún er, sbr. gagnrýni Odie Henderson um myndina á rogerebert.com: „Tónninn, takturinn og framsetning hasaratriðina kemur á óvart. Þetta er hægari og íhugulli mynd en auglýsingar gefa til kynna.“[30] Í þessari sömu gagnrýni, sem gefur myndinni þrjár stjörnur, er fundið að því að stiklurnar að myndinni taka ekki tillit til gætilegrar meðferðar Baltasars á sögunni: „Það kom mér á óvart hversu lengi Bobby (Denzel Washington) og Stig (Mark Whalberg) eru á huldu í frásögninni. Auglýsingar og stiklur ljóstruðu upp um þessa ráðgátu undireins.“[31] Höfundareinkenni Baltasars koma eflaust ekki jafn skýrt fram í Hollywood-hasarmynd, þar sem hann fer einungis með leikstjórn, eins og í íslenskri mynd sem hann bæði skrifar og leikstýrir, eins og Djúpið er dæmi um. Þar hefði verið auðvelt og jafnvel freistandi að dramatísera söguna af Guðlaugi sem bjargaði lífi sínu með því að synda 5-6 kílómetra leið til lands í köldum sjó og niðamyrkri. Myndin fjallar ekki um afrekið sem slíkt, heldur manneskjuna sem horfir upp á félaga sína drukkna og kemst ein lífs af, um ágang fólks og fjölmiðla sem heimtar merkingu. Myndmál, aðstæður, svipbrigði og hálfsagðar setningar miðla því sem miðlað verður. Áhorfandinn er virkjaður en ekki mataður og margir deila eflaust pirringnum með umheimi Guðlaugs, sem vill koma honum og afreki hans fyrir í einfaldri frásögn á þægilegum stað í merkingarheimi sínum svo það eigi hægara með að næra sig á henni. Baltasar neitar áhorfandanum um það og gerir miklu meira en að komast upp með það. Hann treystir sögunni og lætur duga að segja hana og láta áhorfandann um að ljúka við merkinguna.

Baltasar hefur tjáð sig um að eiga til að sökkva sér í verkefni. Eftir að hafa dregið leikara sína og starfsfólk upp á stórhættulegt fjall Everest, fór hann með næsta hóp á árabát á stórhættulegt haf. Þó svo að hann leikstýri í Hollywood framleiðslum, þá sér hann til þess að velja verkefni sem deila sameiginlegum þemum við myndir hans heima frá, maður á móti náttúru. Til þess þarf að vinna í náttúru, ekki í stúdíói. „Maður skapar umhverfi sem leikarar geta nálgast og unnið með, í staðinn fyrir að skapa gerviumhverfi og ímynda sér hvernig það væri. Ég trúi að listin finnist í hindrunum. Ef þú átt allan pening í heiminum eða færð hvað sem þig vantar, mun það líta út eins og tölvuleikur“, segir Baltasar í viðtali við The Guardian um myndina Adrift .[32]


Heimildir

[1] Hörn Heiðarsdóttir, „Sagt að skjóta Mexíkóann”, Dagblaðið Vísir, 16. ágúst, 2013, 31. Sótt 9. mars, 2020, https://timarit.is/page/6395791?iabr=on#page/n29/mode/2up/search/baltasar%20kormákur

[2] Freer, Ian, „Baltasar Kormákur interview: my obsession with adventure”, Telegraph, 19. júní, 2018. Sótt 9. mars 2020, https://www.telegraph.co.uk/films/adrift/baltasar-kormakur-interview/.

[3]  Ísak Hinriksson, „Allt sem er ómögulegt er spennandi”, RÚV, 18. júní, 2018, 6. mars, 2020, https://www.ruv.is/frett/allt-sem-er-omogulegt-er-spennandi.

[4] „Baltasar Kormákur”, IMDb, síðast sótt 20. febrúar, 2020 af https://www.imdb.com/name/nm0466349/bio.

[5] „Loftkastalinn flýgur milli landshluta: Vinsældir og menningarverðmæti,“ Morgunblaðið, 8. september, 1998, https://www.mbl.is/greinasafn/grein/418129/.

[6] „Afmælissýning í Loftkastalanum,“ Leiklistavefurinn, 10. ágúst, 2005, https://leiklist.is/afmssg-oftkastalanum/?cn-reloaded=1. 

[7] Ísak Hinriksson, „Allt sem er ómögulegt.”

[8] Jón E. Gústafsson, „Valin besta mynd í sínum flokki,“ Morgunblaðið, 19. september, 2000, 76.

[9] Peter Preston, „101 Reykjavík,“ gagnrýni á 101 Reykjavík, eftir Baltasar Kormák, The Guardian, 3 júní, 2001.

[10] Guðrún Helga Sigurðardóttir, „Baltasar og Bláu augun,“ Frjáls Verslun, 1. mars, 2001, 18-19.

[11] John Sundholm og fleiri, Historical Dictionary of Scandinavian Cinema (Lanham: Scarecrow Press, 2013), 240.

[12] Stephen Holden, „The Sea,“ gagnrýni á Hafið, eftir Baltasar Kormák, New York Times, 16. maí, 2003.

[13] Ásgrímur Sverrisson, „2002 var ár hafsins,“ Land & synir, 1. apríl, 2003, 4.

[14]101 Reykjavík,“ „Hafið“ og „A Little Trip to Heaven,“ Box Office Mojo, sótt 8. maí, 2020, https://www.boxofficemojo.com/title/tt0237993/?ref_=bo_se_r_1, https://www.boxofficemojo.com/title/tt0332381/?ref_=bo_se_r_3 og https://www.boxofficemojo.com/title/tt0420740/?ref_=bo_se_r_1.

[15] Dennis Harvey, „A Little Trip to Heaven,“ gagnrýni á A Little Trip to Heaven, eftir Baltasar Kormák, Variety, 26. september, 2005.

[16]„Jar City,“ Box Office Mojo, sótt 8. maí, 2020, https://www.boxofficemojo.com/title/tt0805576/?ref_=bo_se_r_1.

[17] Steve Gravestock, A History of Icelandic Film, ritstj. Andrew Tracy (Toronto, Ontario: Toronto International Film Festival, Inc., 2019), 112.

[18] Björn Þór Vilhjálmsson, „Violently Funny: Comedic Capers, Claustrophobia, and Icelandic Crime Cinema,“ í World Film Locations: Reykjavík, ritstj. Jez Conolly og Caroline Whelan (Fishponds, Bristol, UK: Intelect Books, 2012), 74-75.

[19] Steve Gravestock, A History of Icelandic Film, ritstj. Andrew Tracy (Toronto, Ontario: Toronto International Film Festival, Inc., 2019), 112.

[20] „Ívanov,“ Gríman, sótt 9. maí, 2020, http://griman.is/index.php?option=com_content&task=view&id=230&Itemid=109.

[21] Steve Gravestock, A History of Icelandic Film, ritstj. Andrew Tracy (Toronto, Ontario: Toronto International Film Festival, Inc., 2019), 112.

[22] „Djúpið,“ IMBb, sótt 10. mars, 2020, https://www.imdb.com/title/tt1764275/awards?ref_=tt_awd.

[23] „Svartur á leik stærsta íslenska mynd á árinu,“ Viðskiptablaðið, 19. desember, 2012.

[24] „2 Guns,“ Box Office Mojo, sótt 8. apríl, 2020, https://www.boxofficemojo.com/title/tt1272878/?ref_=bo_se_r_1.

[25] „Everest,“ Box Office Mojo, sótt 8. apríl, 2020, https://www.boxofficemojo.com/title/tt2719848/?ref_=bo_se_r_2.

[26] “The Oath,“ IMDb, sótt 11. Mars, 2020, https://www.imdb.com/title/tt4433890/?ref_=nv_sr_srsg_0.

[27] Baltasar Kormákur, „Why I Make Extreme Survival Movies,“ Talkhose.com, 30. maí, 2018, sótt 10. maí, 2020, https://www.talkhouse.com/why-i-make-extreme-survival-movies/.

[28] Sama.

[29] Sam Wollaston, „Trapped review: Stuck in a stormy, moody fjord with a killer on the loose? Yes Please,“ The Guardian, 15. feb, 2020.

[30] Anderson, Odie. (2013, 2. ágúst). 2 Guns. Sótt af: https://www.rogerebert.com/reviews/2-guns-2013.

[31] Sama.

[32] Ian Freer, “Baltasar Kormákur: My Obsession With Adventure,“ viðtal við Baltarsar Kormák, The Guardian, 19. júní, 2018.