Friðrik Þór Friðriksson

Hrafn Helgi Helgason - Kolbeinn Rastrick - Sandra Líf Long - Veronika Guðmundsdóttir J.

Friðrik Þór Friðriksson fæddist í Reykjavík árið 1954, ólst þar upp í Stórholtinu og síðar í Karfavogi og fór hann eins og margir aðrir í sveit á sumrin. Kvikmyndin hans Bíódagar (1994) eins og segir í grein Morgunblaðsins, fjallar meira og minna um barnæsku Friðriks, sem er fléttuð með skáldskap.[1]

Friðrik lauk stúdentsprófi frá MT, menntaskólinn við Tjörnina, árið 1976. Frá unga aldri var hann virkur í kvikmyndaheiminum og starfaði sem framkvæmdarstjóri kvikmyndaklúbbs framhaldskólanna, Fjalarkattarins.

Á árshátíð menntaskólans árið 1975 var sýnd fyrsta stuttmyndin hans Nomina Sunt Odiosa þar sem hann sá um handrit, leikstjórn og framleiðslu myndarinnar.[2] Sú kvikmynd var einnig sýnd sama ár á RÚV sem gerði þetta að upphaf á kvikmyndaferil hans.[3]Með virkri starfsemi innan geirans hafði hann öðlast þá þekkingu sem hann nýtti sér sem kvikmyndamaður en hafði í raun aldrei farið í neitt kvikmyndanám. Eftir menntaskóla fór hann frekar í bókmenntanám við Háskóla Íslands þar sem hann lauk árið 1979. Á tímabili menntaskóla og háskóla vann Friðrik sem starfsmaður á sumrin í Steinsmiðju Sigurðar Helgasonar en hætti ári fyrir lok háskólanámsins. Friðrik var einnig mikill íþróttamaður sem æfði og keppti í fótbolta, körfubolta og handbolta á sínum tíma. Hann þótti hæfileikaríkur í fótbolta sem skilaði honum mörgum Íslandsmeistaratitlum með Fram.

Friðrik var frumkvöðull í menningarstarfsemi af ýmsu tagi og var auðvitað lengi mikill áhrifavaldur í kvikmyndageiranum hér á landi. Hann var stofnandi og virkur starfsmaður Kvikmyndablaðsins, kvikmyndafélagsins Hugrenningu, Íslensku kvikmyndasamsteypunnar og Myndbandagerð Reykjavíkur, allt á tímabilinu 1979-1986. Fyrir utan kvikmyndir var hann einnig meðal þeirra sem stofnuðu bókaútgáfuna Svart á hvítu árið 1981 og hlutur af stofnanda teymi Gallerí Suðurgötu 7. Þar sýndi hann eigin hugmyndaverk sem voru síðar sýnd í Norðurlöndunum, Póllandi, Ítalíu og Bandaríkjunum.[4] Vegna kunnáttu og áhuga hans um kvikmyndir fékk hann sæti sem kvikmyndagagnrýnandi hjá DV, var í kvikmyndahátíðarnefnd og í stjórn bæði á Kvikmyndahátíð í Reykjavík og Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda. Einnig var hann formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra. Í dag er hann meðlimur Evrópsku kvikmyndaakademíunni.[5]

Það fer ekki á milli mála að Friðrik hefur um langt skeið haft mikil áhrif á sviði kvikmyndamenningar og mótað þróun hennar á Íslandi. Nú síðast tók hann að sér hlutverk rektors Kvikmyndaskóla Íslands. Þrátt fyrir að hafa sjálfur aldrei stundað nám þá hefur hann möguleika á að hjálpa nýliðum og halda áfram sinni þáttöku í kvikmyndaheiminum á Íslandi.

Árið 1975 tóku Stúdentaráð Háskólans og Félagsstofnun Stúdenta upp samstarf við Kvikmyndaklúbb menntaskólanna og mynduðu kvikmyndaklúbbinn Fjalaköttinn. Friðrik Þór Friðriksson “var framkvæmdastjóri og primus motor” við stofnun Fjalakattarins og segir hann sjálfur að starfsemi við klúbbinn hafi haft gífurlega mikil áhrif á hann sem kvikmyndagerðarmann.[6] Í grein eftir Arnald Indriðason sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997 segir Friðrik Þór að Fjalakötturinn hafi verið hans kvikmyndaskóli. Fjalakötturinn sá um fjölbreyttar kvikmyndasýningar í Tjarnabíó og er léttilega hægt að sjá hvernig þetta hafi gagnast Friðriki Þór sem ungum kvikmyndagerðarmanni. Fjalakötturinn starfaði í sjö ár (1975–1982) og það voru um 2.000 meðlimir þegar best lét samkvæmt Friðriki Þór.[7]Frá áttunda áratug tuttugustu aldar hefur Friðrik Þór verið áhrifamikill þátttakandi í kvikmyndaiðnaði á Íslandi. Árið 1982 stofnaði hann Íslensku kvikmyndasamsteypuna ehf. sem varð atkvæðamikil í kvikmyndaframleiðslu á Íslandi og tók m.a. þátt í samstarfi við leikstjórann Lars von Trier og framleiðslufyrirtæki hans Zentropa.[8] Íslenska kvikmyndasamsteypan sá um framleiðslu fjölda kvikmynda, þar á meðal helstu verka Friðriks Þórs, en má þar nefna Börn náttúrunnar (1991) og Engla alheimsins (2000). Þrátt fyrir vinsældir kvikmyndanna sem framleiddar voru af (eða gefnar út í samstarfi við Zentropa) Íslensku kvikmyndasamsteypunni lenti fyrirtækið í gjaldþroti og var fyrirtækið afskráð af Ríkisskattstjóra árið 2006.[9]

Friðrik Þór var fyrstur Íslendinga tilnefndur til Óskarsverðlauna af bandarísku kvikmyndaakademíunni en það var fyrir Börn nátturunnar árið 1992.[10] Friðrik Þór hafði þá þegar hlotið menningarverðlaun Dagblaðsins Vísir (DV) og birtist pistill í DV árið 1992 sem skoraði var á ríkisstjórn Íslands að fjárfesta í kynningu á kvikmyndinni erlendis fyrir dómnefndina.[11] Ári seinna vann Börn náttúrunnar aðalverðlaun á Yubari-kvikmyndahátíðinni sem haldin er árlega í Japan. Þetta er afar merkilegur árangur þar sem kvikmyndir á borði við Reservoir Dogs (1992, Quentin Tarantino) voru líka tilnefndar.[12]

Ásamt hinum fyrrnefndu menningarverðlaunum DV hefur Friðrik Þór hlotið fjölmörg íslensk kvikmyndaverðlaun þar sem hann vann t.d.  bæði Edduverðlaunin fyrir bíómynd ársins og leikstjóri ársins árið 2000. Friðrik Þór hefur verið tilnefndur til Edduverðlauna fyrir Engla Alheimsins (2000), Næsland (2004) og Mamma Gógó (2010). Árið 2008 var Friðriki Þór afhend heiðursverðlaun ÍKSA (Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían) og eru það ein æðstu verðlaun sem gefin eru út hérlendis.[13]

Fyrsta heimildarmynd Friðriks Þórs var Rokk í Reykjavík (1982) en hún fjallar um tónlistarsenu Reykjavíkur milli áranna 1981 til 1982. Myndin klippir á milli mismunandi tónleika og viðtala við ýmsar hljómsveitir og tónlistarmenn en þar lýsa þeir viðhorfi sínu gagnvart tónlistinni og tilverunni almennt.[14] Í heildina koma fram átján hljómsveitir í myndinni en af þeim má nefna Egó, Fræbbblana og Grýlurnar. Rokk í Reykjavík er eins konar uppgjör við pönkhreyfinguna á Íslandi og er kvikmyndin talin ein besta heimild sem til er um um hana á Íslandi auk þess sem hún er athyglisvert sjálfstætt listaverk.[15] Friðrik Þór lýsti markmiðum og innblæstri myndarinnar í viðtali við DV með eftirfarandi hætti:

 „Með henni [Rokk í Reykjavík] er aðallega verið að reyna að varpa ljósi á það sem er að gerast í tónlistarlífi íslendinga. Það hefur verið mikill uppgangur i rokktónlist okkar upp á síðkastið og það er vonandi að þessi mynd gefi góðan þverskurð af honum. Þetta eru nokkuð svipaðir tímar og voru fyrir svona 15 árum þegar rokkið tók að blómstra."[16]

Næsta heimildarmynd Friðriks er Eldsmiðurinn (1983), sem er 35 mínútna mynd um einbúann Sigurð Filippusson og fábrotið líf hans sem eldsmiður á Hólabrekku á Mýrum við Hornafjörð. Myndin fylgir hversdagsleika Sigurðar og kemur fljótt í ljós að hann er ekki einungis eldsmiður heldur líka mikill uppfinningamaður, en þar má nefna að Sigurður smíðaði til að mynda sína eigin vindrafstöð, sem sá honum fyrir rafmagni.[17] Næsta heimildarmynd Friðriks var í fullri lengd, en það er Kúrekar norðursins er út kom árið 1984. Myndin gerir fyrstu og einu kúrekahátíðina sem var haldin á Skagaströnd árið 1984 að viðfangsefni. Myndin fangar andrúmsloft hátíðarinnar auk þess sem hún fjallar um aðalstjörnu hátíðarinnar, Hallbjörn Hjartarson og hans lífsskoðanir.

Ári síðar kom Hringurinn (1985) út, en hana má ef til vill staðsetja á mörkum heimildarmyndarinnar og tilraunamyndarinnar. Ferðin hringinn í kringum Ísland er tekin upp með gleiðshornlinsu og tökuvélin er fest framan á bifreið. Myndin sýnir svo hraðaða upptöku á allri hringferðinni.

Næsta heimildamynd Friðriks kom tuttugu og fjórum árum efir Hringinum en það var Sólskinsdrengurinn (2009) sem fjallar um mæðginin Margréti Dagmar og Kela, en Keli er með hæsta stig einhverfu. Margrét vill geta veitt syni sínum frekari hjálp en henni hefur verið fáanleg og fer til Bandaríkjanna til að hitta fræðimenn sem gætu mögulega veitt henni meiri innsýn í hugarheim sonar síns. Þar að auki hittir Margrét foreldra í svipuðum aðstæðum og hún. Sólskinsdrengurinn olli því að mikil vitundarvakning varð í íslensku samfélagi um einhverfu og var myndin sérstaklega áhrifarík í að varpa ljósi á fólk með röskunina og fjölskyldur þeirra á afar mannlegan hátt.

Árið 2015 gerði Friðrik síðan heimildarmyndina Sjóndeildarhringurinn sem fjallar um Georg Guðna Hauksson. Georg Guðni var einn af helstu áhrifavöldunum þegar kom að endurreisn landlagsmálverka á Íslandi á níunda áratugnum. Myndin samanstendur af viðtölum við ýmsa mennigarfræðinga, listaunnendur og aðdáendur Guðna en þar má nefna stórstjörnuna Viggo Mortensen.

Áður en Friðrik Þór hóf að gera kvikmyndir í fullri lengd leikstýrði hann tveimur stuttmyndum. Fyrsta myndin var Nomina Sunt Odiosa frá árinu 1975 sem sýnir nemendur útskrifast úr Menntaskólanum í Reykjavík við tjörnina í miðbæ Reykjavíkur. Inná milli senanna er klippt yfir í tökur af gosflöskum að vera fylltar, tappaðar og merktar. Önnur stuttmynd Friðriks var Brennu-Njálssaga (1980) sem er eins konar kennslumynd á hvernig má brenna Íslendingasögurnar á báli. Árið 2002 gerði Friðrik sína þriðju stuttmynd, erótíska verkið On Top Down Under eða Hjarnið logar. Myndin sýnir annars vegar íslenska konu, sem leikin er af Nínu Gunnarsdóttir, að minnast gamals elskhuga um miðjan vetur á Íslandi. Hún sýnir svo hins vegar brennandi heita eyðimörk Ástralíu, þar sem maður leikinn af Hilmari Snæ Guðnasyni er að ferðast með ís.

Fyrsta leikna frásagnarmynd Friðriks Þórs í fullri lengd er kvikmyndin Skytturnar (1987), en hún fjallar um hvalveiðimennina Grím (Þórarinn Óskar Þórarinnsson) og Bubba (Eggerts Guðmundsson) og stormasama ferð þeirra til Reykjavíkur. Eftir að þeim Grím og Bubba er hent  út úr krá eftir krá eru þeir á endanum eltir upp af lögreglunni og kvöld þeirra í Reykjavík endar með algjörum ósköpum. Það var hins vegar með Börn náttúrunnar (1991) sem Friðrik festi sig í sessi í íslenskri kvikmyndagerð, en myndin naut fordæmalausrar velgengi á erlendri grundu.

Börn náttúrunnar fjallar um eldri borgarana Þorgeir (Gísli Halldórsson) og Stellu (Sigríður Hagalín) sem fá nóg af lífinu í Reykjavík og ákveða að flýja í sameiningu elliheimilið sitt, stela jeppa og halda út á land, að æskuheimili Stellu. Kvikmyndin er með draumkenndan raunveruleika og vekur sterka tilfinningu um heimþrá og nostalgíu í áhorfandanum. Þá er Börn náttúrunnarfyrsta og eina íslenska myndin í fullri lengd til að hafa verið tilnefnd til Óskarsverðlauna en hún var tilnefnd sem besta erlenda myndin árið 1992.

Eftir Börn náttúrunnar urðu umsvif Friðriks Þórs jafnvel enn meiri, og fjárhagslegt svigrúm jókst til muna. Bíódagar (1994) ber þess merki en myndin var óvenjulega dýr í framleiðslu fyrir íslenskar myndir tímabilsins og mikið í alla umgjörð hennar lagt. Hún fjallar um Tómas (Örvar Jens Arnarsson), tíu ára gamlan strák frá Reykjavík á sjöunda áratugnum. Kvikmyndin er eins konar þroskasaga, þar sem Tómas og vinir hans njóta í fyrstu borgarsælunnar, hafa gaman af kvikmyndum og heillast af öllu frá kúrekum til Jesú. Þegar Tómas er sendur í sveit yfir sumarið aftur á móti lærir hann um átökin milli ólgu borgarlífsins og kyrrðar hinnar íslensku sveitar.

Næsta mynd Friðriks bar þess merki að frægðarsól hans hefði mjög risið erlendis, en að Á köldum klaka (1995) komu erlendir framleiðendur og erlend framleiðslufyrirtæki. Myndin fjallar um hinn japanska Hirata (Masatoshi Nagase) sem ferðast til Íslands til að heiðra dána foreldra sína með hefðbundinni japanskri trúarathöfn í íslensku óbyggðunum, þar sem þeir höfðu drukknað sjö árum áður. Þetta gerir Hirata eftir óskum afa síns þrátt fyrir að hann trúi ekki á gömlu hefðirnar. Ferð Hirata tekur þó fljótt á sig allt aðra mynd en hann átti von á.

Ári eftir útgáfu Á köldum klaka gaf Friðrik út kvikmyndina Djöflaeyjan (1996) sem er byggð á bókinni Þar sem Djöflaeyjan rís (1983) eftir Einar Kárason. Myndin fjallar um fjölskyldu Karólínu en þau bjuggu í braggahverfum Reykjavíkur eftir seinni heimsstyrjöld. Myndin fangar andrúmsloft þessa tíma, stéttaskiptinguna, fátæktina og hvernig bandarísk menning, sem drottnaði yfir hugarheimi íslenskra ungmenna, og íslensk menning mættust. Djöflaeyjan naut fádæma vinsælda í íslenskum kvikmyndahúsum og mikið lof gagnrýnenda.

Næsta kvikmynd Friðriks, Englar alheimsins (2000), sem er byggð á samnefndri bók eftir Einar Guðmundsson, fékk einnig afar góðar viðtökur. Myndin fylgir Páli (Ingvar Eggert Sigurðsson) hæfileikaríkum listamanni sem þjáist af geðklofa. Hún rekur erfiða lífsgöngu Páls sem einkennist af ótrúlega íþyngjandi sjúkdómi og sambandi hans við umheiminn, þar á meðal við aðra vistmenn á geðsjúkrahúsinu Kleppi.

Því næst gerði Friðrik tvær kvikmyndir eru mun alþjóðlegri en þær fyrri. Fyrri myndin, Fálkar (2002) fjallar um Simon (Keith Carradine) sem kemur til Íslands í þeim tilgangi að svipta sig lífi. Í ferðinni hittir hann aftur á móti Dúu (Margrét Vilhjálmsdóttir), sem hann heldur að sé dóttir sín. Þegar Dúa lendir í vandræðum við lögregluna flýja þau saman til Þýskalands, ásamt smygluðum fálkum sem þau ætla sér að selja. Síðari myndin, Næsland (2004) fjallar um hvernig ástfangni unglingurinn Jed (Martin Compston) reynir að fá kærustu sína Chloe (Guðrún María Bjarnadóttir) til að brosa á ný eftir að kötturinn hennar týnist. Vegna þessa fer Jed í leita að svari við tilgangi lífsins.

Síðasta frásagnarkvikmynd Friðriks er Mamma Gógó (2010) sem fjallar um Gógó (Kristbjörg Kjeld), sem greind er með elliglöp og samband hennar við son sinn (Hilmar Snær Guðnason) sem á í erfiðleikum þar sem kvikmynd hans gengur ekki nógu vel. Það sem er einkum eftirtektarvert við kvikmyndina sonarins er að karakter hennar heitir sama nafni og aðalpersóna Börn Náttúrunnar, annarrar myndar Friðriks.

 Það hefur sjaldnast verið dans á rósum að fjármagna þessar kvikmyndir Friðriks Þórs. Til dæmis við gerð Djöflaeyjunar þurfti Friðrik að leita að fjármagni í 4 ár eftir að hann kláraði handritið. Friðrik fékk lítið fjármagn frá Kvikmyndasjóði Íslands og þurfti þess vegna að leita til Þýskalands, Skandinavíu og Japan til þess að getað fjármagnað myndina. Framleiðsla myndarinnar tafðist samt vegna lélegs fjárstuðnings Kvikmyndasjóðs þar sem að skilyrði fyrir erlendum styrkjum eru sú að kvikmyndin hafi opinberan stuðning heimalands síns. Því eiga kvikmyndir sem að ekki fá styrki frá íslenska ríkinu erfitt með að fá styrki erlendis.[18]

Djöflaeyjunni sem betur fer gekk samt gríðarlega vel í almennri sýningu og varð hún ein af tekjuhæstu kvikmyndum Íslands og komu 80 þúsund gestir að sjá hana.[19] Það er líka víst að kvikmyndir Friðriks hafi haft mikil áhrif þegar þær eru svona vinsælar. Til dæmis um áhrif hans á kvikmyndagerð nútímans þá nefnir Ísold Uggadóttir, leikstjóri Andið Eðlilega (2018), Börn náttúrunnar (1991) sem eina af sínum uppáhaldsmyndum.[20] Einnig talar Ragnar Kjartansson, listamaður, um hvernig Rokk í Reykjavík (1982) hafi haft áhrif á alla á Íslandi. Eftir sýningu myndarinnar hafi íslenska tónlistarsenan sprungið út. Núna eru allir í hljómsveit segir Ragnar og það er t.d. þökk sé Rokk í Reykjavík.[21]  Friðrik fékk samt ekkert fjármagn til þess að framleiða Rokk í Reykjavík og missti hann mikinn pening við gerð hennar.

Friðrik fékk ekki styrki fyrr en hann framleiddi kvikmynd sína Skytturnar árið 1987. Hann bjó til sex heimildarmyndir fyrir Skytturnar án þess að nein þeirra hafi fengið fjármagn frá ríkinu. Ein af þeim var hálftíma heimildarmyndin Eldsmiðurinn (1983) sem er nokkurskonar drög að Börnum náttúrunnar. Hún fjallar um áttræðan uppfinningamann sem að býr út á landi og segist hafa fundið upp ótrúlegustu hluti. Sú mynd fékk mjög góðar viðtökur og meira að segja Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir skrifaði mjög góða umsögn um hana. Áhugi á myndum Friðriks hefur ekki einungis verið bundinn við landsteinana heldur hafa viðtökur erlendis á myndum hans verið mjög góðar. Til dæmis bar virti kvikmynda gerðarmaðurinn og gagnrýnandinn, Michael Glover Smith, Börn Náttúrunar  saman við Make Way for Tomorrow (1937, Leo McCarey) og Tokyo Story (1953, Yasujirô Ozu) sem eina af bestu myndum kvikmyndasögunar um erfiðleika eldri borgara. Friðrik hefur einnig komist í kynni við marga af þeim stærstu í kvikmyndagerðarbransanum og fékk hann t.d. Jim Jarmusch með sér í að skrifa handritið fyrir Á köldum klaka (1995). Í sömu mynd kom goðsögnin Seijun Suzuki og lék eitt lítið hlutverk sem afi aðalhetjunar.[22]

Enn þann dag í dag sýna kvikmyndahátíðar allstaðar í heiminum myndir Friðriks, af þeim sjö myndum sem sýndar voru á „Icelandic Film Focus 2018“ í Peking voru 3 eftir Friðrik, á „Focus Islandia“ í Úrúgvæ voru tvær myndir Friðriks sýndar, á „Ultima Thule“ í Póllandi var Börn Náttúrunnar sýnd ásamt fleiri íslenskum myndum. Það er því augljóst að kvikmyndir Friðriks lifa góðu lífi jafnt hérlendis sem erlendis.[23]


Heimildir

[1] „Bíódagar Friðriks Þórs Friðrikssonar ÓÐUR TIL ÆSKUÁRANNA.“,  Morgunblaðið, 25.júní 1994, Sótt 28.febrúar 2019.

[2] Kvikmyndamiðstöð Íslands. (e.d.). Nomina Sunt Odiosa. Sótt 28.febrúar 2019,  http://kmivefur.eplica.is/films/nr/502.    

[3] „35 ár upp á dag síðan Friðrik Þór frumsýndi mynd.“, Morgunblaðið, 12.mars 2010. Sótt 28.febrúar 2019.

[4] „Friðrik Þór Friðriksson.“, Dagblaðið Vísir, 1. apríl 1993, bls. 42. Sótt 28. febrúar 2019.

[5] „Forfallinn veiðimaður.“, Morgunblaðið. 12. maí 2014. Sótt 28. febrúar 2019.

[6] Arnaldur Indriðason, „Aftur í árdaga kvikmyndanna“, Lesbók Morgunblaðsins, 6. september 1997, bls. 13.

[7] Arnaldur Indriðason, „Aftur í árdaga kvikmyndanna“, Lesbók Morgunblaðsins, 6. september 1997, bls. 13–14.

[8] „Íslenska kvikmyndasamsteypan“, Icelandic Film Center. Sótt 28. febrúar 2019 ,https://www.icelandicfilms.info/company/nr/93.

[9] „Íslenska kvikymndasamsteypan ehf (5806901069).“ Ríkisskattstjóri, rsk.is. Sótt 28. febrúar 2019, https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/5806901069.

[10] „The 64th Academy Awards. 1992“, Oscars.org. Sótt 28. febrúar 2019, https://www.oscars.org/oscars/ceremonies/1992.

[11] H.K. „Áskorun um stuðning við Börn náttúrunnar“, Dagblaðið Vísir 50. tölublað, 28. febrúar 1992, bls 2.

[12] H.K. „Börn náttúrunnar: Fyrstu verðlaun í Japan“, Dagblaðið Vísir 71. tölublað, 26. mars 1993, bls. 4.

[13] „Eddan 2000“, Eddan. Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin. Sótt 28. febrúar 2019, http://eddan.is/?page_id=123.

[14] Þórey, ,,Rokk í Reykjavík”, timarit.is, 8. apríl 1982, sótt 3. mars 2019

[15] Björn Þór Vilhjálmsson, ,,Breyttir tímar”, Kúreki norðursins, ritstj. Guðni Elísson, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2005. bls. 93-131, hér bls. 101.

[16] SER, ,,Góður þverskurður af rokklífi Reykvíkinga”, timarit.is, 8. Febrúar 1982, sótt 3. mars 2019.

[17] Sólveig K. Jónsdóttir, ,,HUGVIT HAGLEIKSMANNSINS”, timarit.is, 18. febrúar 1982, sótt 3. Mars 2019.

[18] „Forfallinn veiðimaður.“, Morgunblaðið. 12.maí 2014. Sótt 28.febrúar 2019,

[19] Icelandic Cinema Online.  „Interview with Fridrik Thor Fridriksson about why he made Devil´s Island.” Birt 25. júní 2011. 9:32. https://vimeo.com/25591673

[20]„Ísold Uggadóttir's Top 8 Films.” The Reykjavik Grapevine. Grapevine.is,  19. mars 2017. Sótt  4. mars 2019. https://grapevine.is/culture/movies-theatre/2017/03/16/isold-uggadottirs-top-8-films/.

[21] Ragnar Kjartansson. „Ragnar Kjartansson about Rokk in Reykjavík” Birt 29. október 2013. Fyrir Pirelli HangarBicocca. 2:43. https://www.youtube.com/watch?v=M-gaMtAUR6U

[22] Smith, Michael Glover. "Filmmaker Interview: Fridrik Thor Fridriksson." White City Cinema (blogg), 27. janúar 2014. Skoðað 4. mars 2019. https://whitecitycinema.com/2014/01/27/filmmaker-interview-fridrik-thor-fridriksson/

[23] "Icelandic Films at Festivals and Icelandic Film Focuses 2018." Kvikmyndamidstod.is, Sótt 4. mars 2019. http://www.icelandicfilmcentre.is/icelandic-films-and-festivals/icelandic-films-at-festivals/2018/.