Guðný Halldórsdóttir

Högni Grétar Kristjánsson - Kolbeinn Sturla G. Heiðuson - Þorri Elís Halldóruson

Guðný Halldórsdóttir fæddist 23. janúar árið 1954. Faðir hennar er Halldór Laxness, nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum, en móðir hennar er Auður Sveinsdóttir. Fjölskyldan bjó alla tíð á Gljúfrasteini í Mosfellssveit og kunni Guðný mjög vel við sig þar og býr þar enn.[1] Frægð Halldórs hafði töluverð áhrif á uppeldi hennar og segir Guðný að henni hafi verið strítt af öðrum krökkum sökum faðernis síns og hún uppnefnd „litli Kiljan“ á meðan fullorðið fólk hafi oft viljað ræða við hana á jafnréttisgrundvelli um verk hans.

Þegar ég var að alast upp hafði öll þessi umræða um hann og verk hans frekar neikvæð áhrif á mig. Ég las nefnilega ekki bækurnar hans þegar ég var unglingur eins og flestir aðrir gerðu. Þetta gerði það að verkum að ég fór svolítið út í horn, vildi ekki vera mjög áberandi eða nota nafnið hans. Maður vildi vera sjálfstæður og ekki alltaf jafn bendlaður við pabba sinn.[2]

Þrátt fyrir að hann hafi alla tíð verið mjög upptekinn við ritstörf sín segir Guðný Halldór hafa verið góðan ogskilningsríkan föður og að hann hafi alltaf sýnt börnunum sínum athygli.[3] Frjór og skapandi hugur virðist hafa runniðGuðnýju í blóð og hún hafði snemma áhuga á kvikmyndagerð en hóf þó feril sinn í fyrstu í leikhúsi. Aðeins 17 ára að aldri byrjaði hún að starfa sem aðstoðarkona í búningumdeildum ýmissa leikhúsa en það leið ekki á löngu áður en hún byrjaði að taka að sér leikstjóra- og handritsritunarhlutverk. Þaðan færði hún sig yfir í sjónvarpið og gerðist aðstoðarkona Tage Ammendrup sem var dagskrárgerðarmaður og upptökustjóri Ríkissjónvarpsins.

Á RÚV kom hún að gerð margra mynda, m.a. sjónvarpsmyndarinnar Brekkukotsannál (Rolf Hädrich, 1973) ogstuttmyndarinnar Lilja (Hrafn Gunnlaugsson, 1976), en þær eru báðar byggðar á samnefndum verkum föður hennar.Hvað varðaði starfsemi hennar við þessar kvikmyndir þá sagði Guðný: „[Ég] hélt alltaf að [ég hefði verið ráðin] vegnaþess að ég væri svo dugleg og góður starfskraftur. En í sumum tilfellum var ég var bara höfð þarna til að vera tengiliðurvið pabba. Ég geri mér það ljóst núna að það var svolítið verið að nota mig.“[4]

Hún starfaði í Ríkissjónvarpinu í rúm fjögur ár en fór síðan þaðan til Stokkhólms þar sem hún fékk vinnu sem aðstoðarleikstjóri hjá Sveriges Radio. Hún tók á sama tíma inntökupróf í kvikmyndaskólanum Dramatiska Institutet og hefur síðan þá lýst því sem mestu gæfu lífs hennar að hafa ekki komist þar inn vegna þess að henni leiddist hryllilega í landinu. Eftir að hún sneri aftur heim fékk hún vinnu við sjónvarpsmyndina Paradísarheimt (Rold Hädrich, 1980) þar sem hún starfaði við „allt frá því að gera proppslista upp í að smala sauðfé“.[5] Á þessum tíma kom hún einnig að gerð myndarinnar Punktur punktur komma strik (Þorsteinn Jónsson, 1980) og vann sem skrifta á henni. Hún stjórnaði ýmsum öðrum sjónvarpsleikritum, ýmist sem skrifta eða aðstoðarleikstjóri, en ákvað á endanum að flytjast tímabundið tilLundúna til að hefja kvikmyndanám í London International Film School.[6]

Hún útskrifaðist þaðan árið 1981 og stuttu síðar tók hún þátt í að stofna kvikmyndafélagið Umba. Félagið samanstóðaðallega af konum sem höfðu starfað sem aðstoðarstúlkur fyrir aðra

kvikmyndagerðarmenn eins og Ágúst Guðmundsson, Hrafn Gunnlaugsson og Þorstein Jónsson og höfðu þær allar þann sameiginlega draum um að spreyta sig sjálfar við kvikmyndagerð. Sá draumur varð að veruleika eftir að kvikmyndin Skilaboð til Söndru (Kristín Pálsdóttir) kom út árið 1983.[7] Guðný samdi handrit myndarinnar og öðlaðist þannig mikilvæga reynslu í framleiðslu kvikmyndar og aðeins ári seinna fékk hún að spreyta sig í leikstjórastólnum þegar að hún var ráðinn sem aðstoðarleikstjóri fyrir kvikmyndina Hrafninn flýgur (Hrafn Gunnlaugsson, 1984)

Árið 1986 steig Guðný lengra inn á svið kvikmyndabransans með því að skrifa handritið fyrir kvikmyndina Stella í orlofi (Þórhildur Þorleifsdóttir, 1986) sem varð fljótt ein vinsælasta kvikmyndin í sögu íslenska kvikmyndaiðnaðarins.Margt hafði þó breyst á tíma þeirrar myndar í samanburði við gerð fyrri mynda Guðnýjar og hún átti nú í mun meiri erfiðleikum við að finna fjármagn fyrir kvikmyndagerðina.

Ég finn það líka að það hafa orðið lygilegar breytingar síðan við gerðum Skilaboð til Söndru um árið. Þá mætti maður ótrúlegri greiðasemi en nú er hún fokin út í veður og vind. Nú vilja allir fá borgað upp í topp fyrir allt. Svo er greinilegt að áhorfendur eru ekki lengur sérlega spenntir fyrir íslenskum kvikmyndum, það er allt nýjabrum farið af þeim.[8]

Íslenski kvikmyndabransinn átti gjarnan í erfiðleikum með að finna sér almennilega fótfestu í samfélaginu og hafði byrjað að fara dvínandi eftir því sem leið á 9. áratuginn. Það var gjarnan erfitt að skipuleggja og fjármagna nýjar kvikmyndir og til þess að standa í framleiðslu þeirra þurfti fólk gjarnan að taka miklar fjárhagslegar áhættur.[9]

Fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem Guðný leikstýrði var Kristnihald Undir Jökli (1989) en hún er byggð er á samnefndri skáldsögu eftir föður hennar. Myndin fjallar um umboðsmann biskups, „Umba“, sem sendur er vestur áSnæfellsnes með segulbandstæki til að rannsaka starfsemi séra Jóns Prímus sem talinn er vera hættur að sinna embættisverkum sínum. Skýrslutakan flækist þó þar sem Umbi kynnist dularfullu konunni Úu og fer að efast um eigin getu til að greina á milli raunveruleika og skáldskaps.[10] Með hlutverk Umba fer Sigurður Sigurjónsson, en meðal annarra leikara voru Baldvin Halldórsson (Jón Prímus), Margrét Helga Jóhannsdóttir (Úa) og Þórhallur, „Laddi“, Sigurðsson (Jódínus Álfberg). Handritið var skrifað af Gerald Wilson, kennara Guðnýjar í kvikmyndaskólanum í Lundúnum, og kvikmyndaði Peter Hassenstein myndina, en Hassenstein hafði einnig kvikmyndað Brekkukotsannál á sínum tíma.[11]

Samkvæmt Guðnýju hafði það verið á stefnuskrá Umba að kvikmynda Kristnihaldið frá því að félagið var stofnað – þarsem faðir hennar veitti henni kvikmyndaréttinn á sögunni – en það skorti ávalt fjármagn.[12] Eftir velgengni Stellu í Orlofi (1986) gafst þeim loksins fjármagn til að hefja framleiðsluna, en einnig var fenginn tíu milljóna króna styrkur úr kvikmyndasjóð, auk þess sem þýska kvikmyndafélagið Magma Film greiddi 30% af framleiðslukostnaði kvikmyndarinnar.[13] Myndin varð jafnframt sú stærsta og dýrasta sem kvikmyndafélagið Umbi framleiddi, en heildarkostnaðurinn kom heim og saman í um 40 milljónir króna. Hefði kvikmyndin verið framleidd í dag þá væri sá kostnaður rúmar 164 milljónir; hækkun upp á 310%.[14]

Guðný leikstýrði síðan tveimur kvikmyndum á níunda áratugnum, Karlakórinn Hekla (1992) og Ungfrúin góða og húsið(1999), ásamt Áramótaskaupum áranna 1993 og 1994. Segja mætti að Karlakórinn Hekla hafi markað áfanga í ferli Guðnýjar þar sem kvikmyndin var sú fyrsta þar sem hún bæði skrifaði handritið og leikstýrði. Karlakórinn Hekla var frumsýnd 19. desember 1992 og segir frá söngferð Karlakórsins Heklu með skemmtiferðaskipi til Þýskalands og Svíþjóðar. Undir fararstjórn alkóhólistans Gunnars (Egill Ólafsson) fer ferðalagið síður en svo eftir hefðbundnu plani og kórinn lendir í ýmsum hremmingum. Myndin var samstarfsverk þýskra, íslenskra og sænskra kvikmyndafyrirtækja og var framleidd af Umba, Artiel og Filmfotografien, en hún var tekin upp í öllum þremur löndunum jafnframt sem í henni léku íslenskir, þýskir og sænskir leikarar.[15]

Ungfrúin góða og húsið er aðlögun á samnefndri nóvellu Halldórs Laxness og því annað skáldverk föður síns sem Guðný lagaði að hvíta tjaldinu. Myndin, sem frumsýnd var í Háskólabíói 24. september 1999, fjallar um Rannveigu (Tinna Gunnlaugsdóttir), konu af efri stéttum sem verður ólétt í Kaupmannahöfn eftir ástarsamband við danskan leikara (Bjørn Floberg). Þegar hún snýr aftur heim beitir systir hennar, Þuríður (Ragnhildur Gísladóttir), og aðrir fjölskyldumeðlimir hana lygum til þess að vernda heiður fjölskyldunnar. Líkt og Karlakórinn var myndin samvinnuverk nokkurra Norðurlandaþjóða og meðal tökustaða voru Flatey á Breiðarfirði, Helsingjaeyri og Kaupmannahöfn í Danmörku og Trollhattan í Svíþjóð. Framleiðsla myndarinnar var nokkuð krefjandi, en á síðustu stundu drógu danskir framleiðendur sig úr fjármögnuninni og þurfti Guðný því að byrja framleiðsluferlið upp á nýtt.[16] Áskoranirnar virðastþó hafa borgað sig því að myndin vann til fimm verðlauna á fyrstu Edduverðlaunahátíðinni árið 1999, m.a. fyrir bestu kvikmyndina, bestu leikkonu í aðalhlutverki og besta leikstjórann.[17]

Næsta verk Guðnýjar var gamanmyndin Stella í framboði, en um sjálfstætt framhald á Stellu í Orlofi var að ræða. Eins og áður nefndi skrifaði Guðný handrit fyrri myndarinnar en framhaldinu leikstýrði hún bæði og skrifaði. Myndin var frumsýnd 27. desember árið 2002 og í henni flækir Stella (Edda Björgvinsdóttir) sér í há-pólitískt klandur og býður sig fram í stjórnmálaflokk. Stella í Framboði naut ekki sömu velgengni og forveri hennar og fékk dræmar móttökur við útkomu, hún var samt sem áður tilnefnd til þriggja Edduverðlauna en vann þó engin.[18]

Síðasta verk Guðnýjar til þessa er kvikmyndin Veðramót (2007). Guðný leikstýrði og skrifaði dramamyndina sem frumsýnd var 5. september 2007. Myndin gerist á áttunda áratug síðustu aldar og fjallar um unga byltingarsinna sem byrja að vinna á vistheimili fyrir vandræðaunglinga. Myndin var tilnefnd til fjögurra Edduverðlauna og fékk Jörundur Ragnarsson verðlaun fyrir leik sinn í aðalhlutverki. Einnig fékk Guðný tilnefningu til besta leikstjóra á kvikmyndahátíð Moskvu árið 2008.

Guðný hefur ekki unnið að annari kvikmynd síðan 2007, sem kann að vera skringilegt í fyrstu. Hins vegar hefur leikstýran tjáð yfir erfiðinu sem fylgir kvikmyndagerð og segir hún hverja einustu mynd hafa krafist harðrar vinnu. Þar að auki segir hún litla undirstöðu mega finna í kvikmyndaiðnaðinum hérlendis. Illa er farið með eldri leikstjóra og reynsla þeirra til lítils metin. Þetta veldur því að leikstjórar brenni út með aldur fram.19 Þrátt fyrir svartsýn orð á kvikmyndaiðnaðinn hefur Guðný unnið að mörgum flottum verkum, myndir hennar eru bæði fjölbreyttar í viðfangsefni sem og gerð. Á ferli sem spannar rúma tvo áratugi hefur leikstýran og rithöfundurinn sýnt fram á getu sína í gaman- og dramamyndum, rómantík og fantasíu.


Heimildir

1. Guðný var heiðruð sem bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2008, þegar hún tók við viðurkenningunni sagði hún „Rétt eins og Árni Johnsen er atvinnu-Vestmannaeyingur, er ég atvinnu-Mosfellingur,“. Mosfellingur, föstudagur 12. september 2008, bls. 16.

2. Morgunblaðið, sunnudagur 19. febrúar 1989, bls. 6.

3.  Sama heimild.

4.  Sama heimild.

5. Helgarpósturinn, fimmtudagur 17. apríl 1986, bls. 20.

6. Sama heimild

7. Tíminn, fimmtudagur 7. apríl 1983, bls. 3.

8. Þjóðlíf, 9. janúar 1986, bls. 36.

9. Sama heimild.

10. Stutt samantekt á söguþræði myndarinnar sótt: http://www.gljufrasteinn.is/is/halldor_laxness/vi_og_verk_halldors_kiljans_laxness/ritverk/kristinhald_undir_j okli/.

11. Morgunblaðið, sunnudagur 19. febrúar 1989, bls. 7.

12. Sama heimild.

13. Sama heimild..

14. Notað var verðhagsreiknivél Hagstofu Íslands í þessum útreikningum, slóð: https://hagstofa.is/talnaefni/efnahagur/verdlag/visitala-neysluverds/.

15. DV, laugardagur 12. desember 1992, bls. 45.

16. „Ungfrúin góða og húsið”, kvikmyndir.is, sótt 4. mars. Slóð: https://kvikmyndir.is/mynd/?id=1714.

17. Morgunblaðið, þriðjudagur 16. nóvember 1999, bls. 6.

18. „Stella í framboði”, kvikmyndavefurinn, sótt 4. mars. Slóð: https://www.kvikmyndavefurinn.is/films/nr/232.