Hrafn Gunnlaugsson

Arína Vala Þórðardóttir - Jóhann Ingi Bjarnason - Jóna Gréta Hilmarsdóttir -Natan Jónsson - Viktoría Sif Haraldsdóttr

Arína Vala Þórðardóttir - Jóhann Ingi Bjarnason - Jóna Gréta Hilmarsdóttir -Natan Jónsson - Viktoría Sif Haraldsdóttir

Hrafn Gunnlaugsson er kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur, en verk hans og velgengni þeirra hafa tryggt honum stöðu sem eitt af stærstu nöfnum íslenskrar kvikmyndasögu. Hrafn er fæddur í Reykjavík árið 1948 og er sonur Herdísar Þorvaldsdóttur leikkonu (f. 1923, d. 2013), en faðir hans var Gunnlaugur Þórðarson hæstaréttarlögmaður  (f. 1919, d.1998). Systir hans er Tinna Gunnlaugsdóttir, leikkona og fyrrverandi þjóðleikhússtjóri.[1]

Hrafn kom fyrst fram á sjónarsviðið á Íslandi með útvarpsþáttunum Útvarp Matthildur sem hann sá um með félögum sínum Davíð Oddssyni og Þórarni Eldjárn á árunum 1970-1973, en þeir komu allir til með að verða þjóðþekktir einstaklingar á sitt hvorum vettvangnum síðar meir.[2] Leikstjórnarferill Hrafns hófst hins vegar hjá Leikfélagi Reykjavíkur þar sem hann starfaði sem leikstjóri, en seinna starfaði hann einnig sem leikstjóri í Þjóðleikhúsinu og um tíma hjá sænska ríkissjónvarpinu, SVT.[3] Árin 1977-1982 starfaði Hrafn sem leiklistarráðunautur hjá RÚV, og síðar meir sem dagskrárstjóri fyrirtækisins og að lokum framkvæmdarstjóri þess.[4] Þar að auki hefur Hrafn leikstýrt fjölda sjónvarpsmynda og kvikmynda, sem í heildina eru 18 talsins, ásamt nokkrum sjónvarpsþáttaröðum og leikritum. Hann gaf einnig út þó nokkur ljóðasöfn og smásagnasöfn, ásamt einu leikritasafni (Saga af sjónum) og skáldsögu (Djöflarnir).[5]

Hrafn Gunnlaugsson hefur ekki einungis notið velgengni hér á landi, heldur hafa verk hans einnig hlotið mikla athygli á Norðurlöndunum, ekki síst í Svíþjóð. Þar hefur þriðja kvikmynd hans í fullri lengd, Hrafninn flýgur (1985) öðlast það sem mætti kalla „költ-status,“ og var um hríð sýnd sem kennsluefni í grunnskólum víðast hvar í Svíþjóð.[6] Myndin var að hluta til fjármögnuð af sænskum framleiðslufyrirtækjum, þar á meðal Svenska Filminstitutet (SFI). Tengsl Hrafns við Svíþjóð eru þó ekki handahófskennd með öllu, en árið 1974 sótti hann nám við kvikmyndagerð í Dramatiska Institutet í Stokkhólmi eftir að hafa lokið Fil. Cand prófi í Háskólanum í Stokkhólmi ári fyrr.[7]

Hrafn hóf kvikmyndaferil sinn aðeins 25 ára að aldri með sjónvarpsmyndinni Saga af sjónum árið 1973. Hrafn skrifaði handritið en móðir hans, Herdís Þorvaldsdóttir, leikstýrði kvikmyndinni. Ári síðar var Hrafni fengið það verkefni að leikstýra Áramótaskaupinu 1974. Árið 1977 leikstýrði hann svo og skrifaði handritið fyrir sjónvarpsmyndina Blóðrautt sólarlag.[8] Kvikmyndin fjallar um tvo borgarbúa sem ætla sér að fara í ferðalag í óspilltri náttúru Íslands en það ferðalag breytist skjótt í hrylling. Hrafn hefur alls leikstýrt 9 sjónvarpsmyndum frá og með árunum 1977 til 1998 en líkt og kom fram hér að ofan liggja eftir hann 18 kvikmyndir og tvær þáttaseríur.[9]

Hrafn er þekktastur fyrir víkingaþríleik sinn Hrafninn flýgur (1984), Í skugga hrafnsins (1988) og Hvíti víkingurinn (1991). Í fyrstu kvikmynd þríleiksins, Hrafninn Flýgur, er rakin hefndarsaga Gests, írsks manns sem heldur til Íslands til að hefna foreldra sinna sem myrtir voru af víkingum tveimur áratugum fyrr. Þar beitir hann hinum ýmsu brögðum til að koma fóstbræðrunum Þórði og Eiríki fyrir kattarnef. Kvikmyndinni hefur þótt svipa til svokallaðra spaghettívestra, en líkindi í söguþræði og stílbrögðum má finna við A Fistful of Dollars (Sergio Leone, 1964). Kvikmyndin vakti þegar mikla athygli á meðan á framleiðsluferlinu stóð, einna helst fyrir metnaðarfulla búninga- og leikmyndahönnun, sem og nýstárlega eftirvinnslutækni, en kvikmyndin var klippt á VHS.[10] Við útgáfu hlaut myndin einnig jákvæðar viðtökur, en myndin vann Guldbegge verðlaunin ásamt því að vera tilnefnd til Fantasport verðlaunanna fyrir bestu alþjóðlegu ævintýramyndina (International Fantasy Film Award). Líkt og kom fram í inngangi naut kvikmyndin einnig mikilla vinsælda í Svíþjóð, og hefur viðhaldið stöðu sinni sem költ-mynd þar í landi.

Árið 1988, fjórum árum eftir frumsýningu á Hrafninn flýgur, bættist önnur myndin í þríleiknum fræga í hópinn; Í skugga hrafnsins. Myndin er sjálfstætt framhald af Hrafninn flýgur og segir frá aðalpersónunni Trausta er hann kemur heim til Íslands eftir langa dvöl í Noregi. Hann er ekki fyrr kominn til landsins en hann lendir í átökum við nágranna sinn um eignarhald á hval sem rekið hefur á land, og úr verður mikil átakasaga um völd, ástir og siðferði. Kvikmyndin er lauslega byggð á sögunni um Tristan og Ísold, sett fram á Sturlungaöldinni. Myndin hlaut almennt jákvæðar viðtökur og var Hrafni í kjölfar frumsýningarinnar, ítrekað líkt við hinn margverðlaunaða japanska kvikmyndaleikstjóra Akira Kurosawa.[11]Hins vegar þótti öðrum valdið hafa stigið Hrafni til höfuðs eftir velgengni fyrri stórmyndar hans og hann sagður of þrjóskur til samstarfs við aðra þar sem hann vildi einfaldlega gera allt sjálfur. Egill Ólafsson segir til dæmis í minningabók sinni „Egils Sögur - á meðan ég man“ frá vinnubrögðum Hrafns við tökur á Í Skugga hrafnsins: „Hann var kominn með hvíta hanska eins og Kurosawa, fullur af sjálfum sér og talaði ekki við einn einasta leikara.“[12]

Lokamynd þríleiksins, Hvíti víkingurinn kom út árið 1991 og segir frá þeim Aski og Emblu er þau eru gefin saman í síðasta vígi ásatrúarmanna í Noregi. Áður er en þau geta notið hveitibrauðsdaganna tekur Ólafur konungur hjúin til fanga í tilraun til þess að nauðbeygja Ísland undir kristna trú. Askur er sendur til Íslands til að boða trúna, með þau fyrirmæli um að snúa ekki aftur nema með þær fréttir að allt Ísland sé orðið kristið. Myndin hlaut dræmar viðtökur miðað við fyrstu tvær kvikmyndir þríleiksins. Hrafn Gunnlaugsson kenndi því alfarið um að framleiðslufyrirtækið hafi limlest kvikmyndina í eftirvinnsluferlinu og gert úr henni innihaldslausa landslagsmynd þar sem átti að vera stórbrotið drama, en hann mætti sjálfur ekki á frumsýningu myndarinnar. Hrafn kom til með að klippa kvikmyndina árum síðar svo útkoman varð eins og hann vildi upprunalega hafa hana. Þar að auki gaf hann kvikmyndinni nýtt nafn, en nú heitir hún Embla.[13]

Áður en Hrafn Gunnlaugsson leikstýrði þríleiknum gerði hann myndina Óðal feðranna sem kom út árið 1980 og er íslensk og sænsk mynd. Myndin fjallar um sveitapiltinn Stefán sem þarf að hætta námi í Reykjavík og flytja aftur til smábæjarins þar sem hann ólst upp til að taka við búi fjölskyldu sinnar vegna andláts föður síns. Myndin snýst um baráttu hans til að gera það sem hann langar að fást við í stað þess að vinna á sveitabæ eins og foreldrar hans vilja. Hrafn skrifaði handritið fyrir myndina auk þess að leikstýra myndinni. Margir af leikurum myndarinnar höfðu aldrei leikið í kvikmynd áður.

Alls hefur Hrafn unnið til þrennra verðlauna og verið tilnefndur til annarra þrennra fyrir kvikmyndir sínar.[14] Hann leikstýrir gjarnan og skrifar handritin fyrir kvikmyndir sínar en þó ekki alltaf. Í kvikmyndinni Hin helgu vé (1993) skrifaði Hrafn t.d. handritið ásamt Bo Jonsson, auk þess sem Hrafn leikstýrði, klippti og framleiddi kvikmyndina. Í þeirri kvikmynd er hann algjör höfundur. Þetta er eina myndin sem Hrafn sér um alla þessa þætti kvikmyndarinnar.

Árið 1999 leikstýrði Hrafn síðan kvikmyndinni Myrkrahöfðinginn en hún var skrifuð af Bo Jonsson, þeim hinum sama og skrifaði Hin helgu vé með Hrafni. Myrkrahöfðinginn er að hluta til byggð á Píslarsögu séra Jóns Magnússonar. Sagan gerist á 17. öld og fjallar um Jón sem verður prestur í lítilli kirkju þegar fyrirrennari hans lætur lífið. Hann verður sannfærður um að galdrar séu á kreiki þegar hann verður ástfanginn af yngri konu en hann var þá giftur ekkju fyrrverandi prests kirkjunnar. Í baráttu hans gegn því sem hann telur vera myrkraöfl endar hann á því að fremja hræðilega glæpi gegn íbúum litla bæjarfélagsins þar sem hann býr.

Nýjasta kvikmynd Hrafns heitir Opinberun Hannesar og er hún frá árinu 2003. Myndin fjallar um Hannes sem starfar hjá Eftirlitsstofnun ríkisins en tapar viðkvæmum upplýsingum sem leiðir til mikilla vandræða.[15] Myndin er byggð á smásögu eftir  Davíð Oddsson, sem var forsætisráðherra þegar hún var gerð.[16] Þrátt fyrir misgóða dóma frá gagnrýnendum og áhorfendum hefur Hrafn margsinnis talið þá mynd vera sína bestu og þá sem hann er stoltastur af.[17]Hann tók margar áhættur í kvikmyndinni og ekki síst á sviði tæknilegra atriða sem þótti, og þykir enn í dag, fremur óhefðbundið. Upphaflega átti gerð kvikmyndarinnar að kosta um 130 milljónir íslenskra króna en sú upphæð lækkaði í tæpar 60 milljónir eftir viðræður. Að lokum var myndin styrkt um 43 milljónir frá mismunandi aðilum. Fjármagnið sem lagt var í myndina var síðar fremur umdeilt þar sem það var talið óþarflega hátt fyrir lokaútgáfu myndarinnar og var þessu líkt við hneyksli. Hrafn svaraði slíkum ummælum og sagði að þau væru ekki á rökum reist en sakaði gagnrýnendurna um „yfirgripsmikið þekkingarleysi” á þessu sviði. [18]

Kvikmyndir Hrafns byggja oft á gömlum íslenskum sögum eða eru nátengdar íslenskri menningu á einhvern hátt. Markmið hans með myndunum er einmitt að kynna Ísland og sýna einkenni þjóðarinnar en kvikmyndir Hrafns hafa iðulega verið umdeildar og gjarnan gagnrýndar fyrir að gefa ranga mynd af íslenskri menningu.[19] Myndir hans eru sagðar þrúgandi og uppfullar af annarlegum órum, málfarið er skítugt og handritið sundurlaust.[20] Oft er talað um „typpasymbólisma” í tengslum við kvikmyndir hans en í mörgum þeirra má sjá nauðgunarfantasíur.[21] Af þeim sökum væri hægt að færa rök fyrir því að kvikmyndir hans séu bein birtingarmynd nauðgunarmenningar. Sjálfur segir Hrafn að kynhvöt hans sé hluti af sköpunargleðinni og markmið hans sé einmitt að koma áhorfandanum úr jafnvægi með því að afhjúpa ákveðin tabú í stað þess að byggja snyrtilega upp persónusköpun og samræður.[22]

 Hrafn er einn áhrifamesti kvikmyndagerðarmaður Íslands og á því drjúgan þátt í sköpun kvikmyndamenningar hérlendis. Hann var meðal þeirra fyrstu til að nota Ísland í einskonar ferðamynd (e. scenics) til að sýna framandi náttúru og einkenni landsins. Margar kvikmyndir Hrafns njóta mikilla vinsælda enn þann dag í dag, þá einkum Hrafninn flýgur sem nýtur velgengni innan sem utan landsteinanna og í endurliti verður hann ávallt þekktastur fyrir þau verk sem byggja á Íslandssögu. Aðdáendur Þríleiksins mættu gleðjast þar sem fjórða myndin í þeirri sögu er væntanleg en handritsskrif með Ólafi Gunnarssyni hófust 2006 og var lokið árið 2013.[23] Myndin mun kallast Orðstír deyr aldrei, en óvíst er á þessum tímapunkti hver staða kvikmyndarinnar er. Hrafn er óhræddur við að ögra fagurfræði listgreinarinnar þar sem hann notar nýstárlegar aðferðir við upptöku og dregur iðulega fram ímyndir í kvikmyndum sínum sem valda óhug en eru það einnig þau einkenni sem gera hann eftirminnilegan.

 


HEIMILDIR

[1] Pétur Ásvaldsson, ritstj., Samtíðarmenn A-Í, Vaka-Helgafell, 2003.

[2] Sama rit.

[3] Sama rit.

[4] Sama rit.

[5] Sama rit.

[6] „Krummi með hvíta hanska, kafli úr „Egils-sögum““, Klapptré, 19. desember 2015, sótt þann 4. mars 2019 af https://klapptre.is/2015/12/19/krummi-med-hvita-hanska-kafli-ur-egils-sogum-egils-olafssonar/.

[7]  Pétur Ásvaldsson, ritstj. Samtíðarmenn A-Í, Vaka-Helgafell, 2003.

[8] (Enginn höfundur), „Hrafn Gunnlaugsson“, IMDb, sótt þann 3. mars 2019 af https://www.imdb.com/name/nm0348321/?ref_=nv_sr_1.

[9] Sama síða.

[10] „Harla óvenjuleg klipping“, Morgunblaðið, 9. september 1984, sótt þann 24. mars 2019 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1599335&lang=0.

[11] „Íslenska stórmyndin sem allir verða að sjá - Hvað segja gagnrýnendur:“ Morgunblaðið, 15. nóvember 1988, sótt þann 4. mars 2019 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=122165&pageId=1692723&lang=is&q=%ED%20Skugga%20Hrafnsins.

[12] „Krummi með hvíta hanska, kafli úr „Egils-sögum““, Klapptré, 19. desember 2015, sótt þann 4. mars 2019 af https://klapptre.is/2015/12/19/krummi-med-hvita-hanska-kafli-ur-egils-sogum-egils-olafssonar/.

[13]„Hvíti víkingurinn verður Embla,“ Bíó og sjónvarp, Vísir, 14. júní 2007, sótt þann 4. mars 2019 af http://www.visir.is/g/2007106140096.

[14] (Enginn höfundur), „Hrafn Gunnlaugsson“, IMBd, sótt þann 3. mars 2019 af https://www.imdb.com/name/nm0348321/?ref_=nv_sr_1.

[15] Kvikmyndir.is, Opinberun Hannesar, sótt þann 2. mars 2019 af  https://kvikmyndir.is/mynd/?id=2769.

[16] Árni Þórarinsson, „Frelsið skal verja með boðum og bönnum“, Morgunblaðið, 28. desember 2003.

[17] Bergsteinn Sigurðsson, „Hugsa aldrei um áhorfendur“, Fréttablaðið, 29. september 2007.

    Ummæli, DV, 30. desember 2004.

[18] „Skandall skellur kvikmyndaheiminn“, DV, 20. janúar 2004.

[19] Árni Þórarinsson, Krummi - Hrafns saga Gunnlaugssonar, Reykjavík: Oddi hf., 1994.

[20] Sama rit.

[21] Sama rit.

[22] Sama rit.

[23] Höskuldur Daði Magnússon, „Hrafn og Ólafur skrifa víkingamynd“, Fréttatíminn, 20. september 2013.