Ævintýri Jóns og Gvendar (1923)
Morgunblaðið: 17. 06. 1923: Frumsýning, Ævintýri Jóns og Gvendar auglýst í Nýja Bíó sem gamanleikur í tveimur þáttum

Ævintýri Jóns og Gvendar, alíslenskur gamanleikur í 2 þáttum saminn og tekinn á kvikmynd af Lofti Guðmundssyni .

— Aðalhlutverkin leika: Friðfinnur Guðjónsson , Tryggvi Magnússon , E. Beck, Svanh. Þorsteinssdóttir , Gunnþórunn Halldórsdóttir , Haraldur A. Sigurðsson o.fl.

Mörgum mun verða forvitni á að sjá þessa nýju kvikmyndaleikara, sem eru býsna broslegir á köflum. Það borgar sig áreiðanlega að ómaka sig til að koma í Nýja Bíó í kvöld ...

Image

Image

Morgunblaðið: 17. 06. 1923: Myndin frumsýnd, spennandi verður að sjá íslenska leikara á tjaldinu

Ævintýri Jóns og Gvendar heitir íslensk kvikmynd, sem sýnd verður í Nýja Bíó í kvöld og næstu kvöld.

Er þetta gamanleikur í tveim þáttum, leikin af Friðf. Guðjónssyni, Gunnþ. Halldórsdóttur, Tryggva Magnússyni, Svanhildi Þorstsdóttur, E. Beck og Haraldi Sigurðssyni.

Þetta er fyrsta gamanmyndin, sem gerð er hjer á landi, og hefir Loftur Guðmundsson tekið og útbúið myndina að öllu leyti. Mun mörgum verða forvitni á að sjá þessa íslensku leikara á kvikmynd ...
Sunnudagsblaðið: 17. 06. 1923: Íslensk gamanmynd verður sýnd:

Jón og Gvendur: Íslenzkur gamanleikur í 2 þáttum. Saminn og tekinn á kvikmynd af Lofti Guðmundssyni.

Leikinn af: Friðfinni Guðjónssgni, Tryggva Magnússyni. E. Beck, Svanh. Þorsteinsdóttur, Gunnþórunni Halldórsdóttur Haraldi Á. Sigurðssyni o.fl.

Þetta er fyrsta alíslenzka grínmynd sem gerð hefir verið og mun mörgum verða forvitni á að sjá leik þennan, sem er afar hlægil. ...

Image

Image

Morgunblaðið: 21. 06. 1923: Dómur um myndina og umfjöllun um fátæklegan tæknibúnað Lofts

Síðastliðið sunnudagskvöld var í fyrsta skifti sýnd hjer alíslensk kvikmynd sem heitir: Ævintýri Jóns og Gvendar.

Að myndinni má óefað margt finna og skal drepið á það helsta.

Í fyrsta lagi verður manni á að halda að samhengi vanti í efnið, en það er ekki tilfellið, heldur vantar nægilegar skýringar með lesmáli við aðal-atvikin og einnig að atvikin sjálf eru ekki nógu greinilega látin koma í ljós t.d. með því að taka myndina nálægt, á þeim stöðum, sem mest eiga að vera áberandi.

Í öðru lagi koma sum aukaatvikin of greinilega fram, sem geta verið góð og eru nauðsynleg í hverja mynd, en mega ekki vera of áberandi, eins og til dæmis lífgunartilraun Jóns á Gvendi.

Og í þriðja lagi er myndin tekin heldur hægt, þannig að þegar hún er sýnd með eðlilegum snúningshraða, verða einstakar hreyfingar hraðari en æskilegt væri ...
Morgunblaðið: 22. 09. 1935: Viðtal við Loft – myndin hlaut góða aðsókn á sínum tíma

— Árið 1924, segir Loftur, tók jeg kvikmynd, sem nefnd var Ævintýri Jóns og Gvendar.

Aðalhlutverkin ljeku Eiríkur Beck, forstj., Haraldur Á. Sigurðsson konsúll, Tryggvi Magnússon fulltrúi, Svanhildur Þorsteinsdóttir og Friðfinnur Guðjónsson.

Mynd þessi var sýnd í Nýja Bíó og gekk á hverju kveldi í heila viku. Þetta þótti góð aðsókn í þá daga og mun hún aðallega hafa verið svona góð af því þetta var fyrsta íslenska leikkvikmyndin, svo og vegna þess að hún þótti dálítið „ófín“.

Þegar jeg sá hvað mjer gekk vel með þessa mynd rjeðist jeg í að taka aðra mynd, alvarlegs efnis, en það var Ísland í lifandi myndum. Hún hefir verið sýnd margoft í Nýja Bíó, við fádæma aðsókn ...

Image

Image

Morgunblaðið: 31. 05. 1944: Grein eftir Loft – líkir myndinni við fyrstu verk Charlie Chaplin

Fyrir nálega 25 árum tók jeg mína fyrstu kvikmynd sem hlaut nafnið Ævintýri Jóns og Gvendar, útbjó jeg hana hjer að öllu leyti, og var hún sýnd í Nýja Bíó í 6 daga, og þótt hún væri með viðvaningsbrag, gaf hún lítið eftir fyrstu Chaplínsmyndunum ...
Morgunblaðið: 27. 02. 1957: Loftur kallaður brautryðjandi íslenskrar kvikmyndagerðar og myndin hans fyrsta verk

Það má segja, að íslenzk kvikmyndagerð sé enn á bernskuskeiði, enda á hún ekki langa sögu að baki sér.

Brautryðjandinn mun hafa verið Loftur heitinn Guðmundsson ljósmyndari, en fyrsta kvikmynd hans Ævintýri Jóns og Gvendar, var gerð 1922.

Síðan hafa ýmsir hér fengizt við kvikmyndagerð, oftast stutta leikþætti eða þjóðlífslýsingar ...

Image

Image

DV: 16. 01. 1982: Myndin var sýnd þar til filman var ónýt

En hinsvegar hefur fjöldinn allur af merkilegum heimildamyndum sem geymt hafa okkar sögu hreinlega glatast. Þær hafa kannski ekki beinlínis eyðilagst, heldur eru margar þeirra týndar og enginn virðist vita hvar þær eru niður komnar.

Svo hefur maður sögur um það, að einhverjar gamlar filmur sem voru ósýningarhæfar, hafi verið sýndar og eyðilagst í viðkomandi sýningu.

Þannig fór t.d. fyrir Alþingishátíðarkvikmynd Lofts Guðmundssonar. Svo má einnig nefna fyrstu leiknu kvikmynd Lofts Guðmundssonar sem hét Ævintýri Jóns og Gvendar. Hún var hreinlega sýnd þangað til hún var búin. Þannig má lengi telja áfram.

Það er því óskaplega slæmt ástand í þessum efnum. Margar þessara mynda eru kannski ekki merkilegar á heimsmælikvarða, en þær skipta okkur mjög miklu máli.“ ...
Sagnir: 01. 06. 2000: Aðeins tvær mínútur af myndinni hafa varðveist

Því miður eigum við dæmi um glataðar kvikmyndir og er kvikmyndin Ævintýri Jóns og Gvendar (1923) eftir Loft Guðmundsson gott dæmi um slíkt. Af þessari fyrstu stutt- og gamanmynd sem gerð var hér á landi hefur einungis tveggja mínútna bútur varðveist ...

Image