Milli fjalls og fjöru (1949)
Vísir: 25. 09. 1948: Tökur á myndinni langt komnar, en hún er unnin upp úr þjóðlegum sögum

Í sumar hefir verið unnið að fyrstu sögulegu kvikmyndinni, sem hér er tekin af íslenzkum kvikmyndamanni.

Það er Loftur Guðmundsson ljósmyndari, sem hér hefir verið að verki og hefir hann lagt mjog mikla vinnu í þessa kvikmyndatöku sína.

Efnisþráður kvikmyndar þessarar mun vera unnin úr ýmsum þjóðlífslýsingum íslenzkra úrvalsbókmennta.

Að því er Vísir hefir fregnað munu vera teknir þarna þættir úr skáldverkum eins og Pilti og stúlku, Manni og konu, „trílogíunni“ um Jón Hreggviðsson o.fl. ...

Image

Image

Alþýðublaðið: 01. 10. 1948: Blaðamönnum boðið að sjá myndbrot úr myndinni, verður sýnd um áramótin

Í gær var blaðamönnum boðið upp á nýstárlega skemmtun.

Loftur Guðmundsson ljósmyndari bauð þeim að horfa á þáttabrot úr kvikmynd, sem hann hefur tekið í sumar.

Er kvikmyndin byggð á leikriti, er Loftur hefur sjálfur samið, og á ekkert skylt við verk annarra höfunda, er fram hafa komið, að öðru leyti en því, að hún er að efni til úr íslenzku þjóðlífi ...
Tíminn: 01. 10. 1948: Umfjöllun um gerð myndarinnar og sýn Lofts á möguleika á kvikmyndagerð á Íslandi

Í sumar hefir verið unnið að töku fyrstu íslenzku kvikmyndarinnar með tóni og tali og í eðlilegum litum.

Kvikmyndatökunni er nú lokið, en eftir er að setja myndina saman og ganga endanlega frá henni til sýninga. Mun það verk taka nokkurn tíma, en vonir standa til, að þessi fyrsta íslenzka tal- og tónmynd verði frumsýnd hér í bænum um áramótin.

Höfundur þessarar kvikmyndar, er Loftur Guðmundsson ljósmyndari, og sýndi hann blaðamönnum hluta af henni í gær

Kvikmyndin á að heita Milli fjalls og fjöru, og er gerð eftir leikriti, sem Loftur samdi fyrir nær 25 árum. Hefir enginn séð eða heyrt leikrit þetta fyrr en nú, að kvikmyndin var gerð. Efni myndarinnar er úr íslenzku þjóðlífi ...

Image

Image

Morgunblaðið: 01. 10. 1948: Tökum á myndinni lokið og ítarleg umfjöllun um gerð myndarinnar

Þeir hlutar kvikmyndarinnar sem teknir voru á leiksviði, voru teknir í Hafnarfirði.

Fjekk Loftur leigðan gríðarstóran leikifimsal hjá St. Jósefssystrum í Hafnarfirði. Þar ljet hann byggja íslenskt „Hollywood“, eða kvikmyndaskála.

Þar var bygð baðstofa, krambúð og nokkur herbergi, en mikill hluti kvikmyndarinnar var tekin úti, víðsvegar um Suðurland.

Loftur naut aðstoðar ýmsra vina sinna við útvegun sjaldgæfra íslenskra muna, og varð að leita í marga staði.

Veiðarfæraverslunin Geysir lánaði vörur í krambúðina og Leikfjelagið lánaði búninga og húsgögn.

Þeir Steini Guðmundsson að Valdastöðum og Gísli hreppstjóri Andrjesson að Hálsi í Kjós lánuðu hesta og aðstoðuðu við smölun sauðfjár ...
Þjóðviljinn: 01. 10. 1948: Umfjöllun um myndina – Loftur er byrjaður á næstu mynd, um listamenn þjóðarinnar

Loftur var sjálfur leikstjóri og ljósameistari, en séra Hákon, sonur Lofts, sem á námsárum sínum í Bandaríkjunum kynnti sér tónupptöku í kvikmyndir, annaðist þann lið verksins.

Kvikmyndatökunni er að fullu lokið, en eftir er að setja myndina saman og ganga endanlega frá henni til sýninga. Því verki verður, sem fyrr segir, væntanlega lokið fyrir næstu áramót ...

Image

Image

Morgunblaðið: 08. 01. 1949: Myndin komin til landsins og verður sýnd í næstu viku

Í næstu viku verður frumsýnd hjer í Reykjavík ný íslensk kvikmynd, sem markar merk tímamót í íslenskum kvikmyndaiðnaði, sem hingað til hefir verið frekar frístundarstarf áhugasamra og duglegra ljósmyndara, en iðnaður í þess orðs fylstu merkingu.

Þessi nýja kvikmynd verður fyrsta íslenska kvikmyndin, sem tekin er í eðlilegum litum og með tóni og tali.

Ennfremur er þetta sögukvikmynd, en þær myndir, sem til þessa hafa verið gerðar hafa flestar verið landslangsmyndir, eða kvikmyndir, sem lýst hafa ákveðnum hjeruðum eða bæjum.

Höfundur þessarar kvikmyndar er Loftur Guðmundsson ljósmyndari, sem áður hefir verið brautryðjandi á ýmsum sviðum ljósmyndatækninnar hjer á landi og sem er löngu þjóðkunnur maður ...
Alþýðublaðið: 13. 01. 1949: Fyrsta íslenska tilrauna- talmyndin frumsýnd í Gamla Bíó

Kvikmynd þessi er fyrsta tilrauna-talmyndin, sem gerð er á Íslandi.

Loftur Guðmundsson ljósmyndari hefur samið efni myndarinnar og kvikmyndað, en hljómupptökuna hefur séra Hákon Loftsson annazt.

Öll inni kvikmyndun fór fram í leikfimissal St. Jósefssytranna í Hafnarfirði, en úti kvikmyndunin á Kjalarnesi, Hálshólum í Kjós og víðar í Kjósinni, og enn fremur við Arnarnes, sunnan Reykjavíkur, á Meðalfellsvatni og uppi á Esju ...

Image

Image

Vísir: 13. 01. 1949: Viðtal við Loft í tilefni af útgáfu myndarinnar

— Er gaman að taka kvikmyndir? spurði fréttaritari Vísis Loft í gærkveldi.

— Gaman! Það fer eftir því hvernig á það er litið. Eg get nú, t.d. sagt yður að eg gaf Drottni fyrirheit um það, að hann mætti hirða mig þegar eg væri búinn að heyra og sjá fyrstu hljómmyndina mína.

Nú er eg búinn að því en nú ætla eg líka að biðja Drottinn um frest, biðja hann að hirða mig ekki fyrr en seinna. Mig langar nefnilega til að taka fleiri hljómmyndir áður.

Seinna getur vel verið að eg sýni þær þarna uppi— eg meina hjá Drottni — en þeim liggur bara ekkert á ...
Þjóðviljinn: 13. 01. 1949: Fyrsta íslenska talmyndin. Þó að myndin reynist léleg er þetta sögulegur atburður

Í kvöld gerist sá sögulegi atburður að sýnd verður fyrsta íslenzka talmyndin, er það kvikmynd Lofts Guðmundssonar; Milli fjalls og fjöru. Verður hún sýnd í Gamla bíó.

Loftur hefur ekki aðeins tekið myndina heldur hefur hann og samið efni hennar.

Alllangt er síðan kvisast fór um þessa kvikmynd Lofts og í október í haust svalaði hann að nokkru forvitni manna með því að skýra blöðunum nokkuð frá efni hennar, en hún lýsir íslenzku þjóðlífi á öldinni sem leið og hefur myndarinnar verið beðið með eftirvæntingu ...

Image

Image

Þjóðviljinn: 13. 01. 1949: Myndinni klappað lof í lófa þrátt fyrir ýmsa galla

Í gærkvöld var frumsýnd kvikmynd Lofts Guðmundssonar: Milli fjalls og fjöru.

Myndin fjallar um viðskipti sýslumannsins og konungssonarins sem er ákærður — vitanlega ranglega — fyrir sauðaþjófnað. Að sjálfsögðu er þetta svo kryddað með smá ástarævitýri.

Eins og áður hefur verið sagt hefur Loftur ekki aðeins tekið myndina heldur einnig samið efni hennar og að lokinni sýningu klöppuðu áhorfendur höfundi myndarinnar lof í lófa.

Þrátt fyrir ýmsa galla er taka fyrstu íslenzku talmyndarinnar afrek sem ber að þakka ...
Morgunblaðið: 15. 01. 1949: Dómur um myndina, góð miðað við aðstæður

Enda þótt hjer hafi verið rætt nokkuð um galla myndarinnar, þá ber engu að síður að þakka Lofti þessa merkilegu tilraun hans til talmyndagerðar.

Hann hefur með henni unnið mikilsvert brautryðjendastarf, og með því unnið sjer sæmdarheitið: faðir íslenskra talmynda. Hann er vel að þeim heiðurstitli kominn ...

Image

Image

Alþýðublaðið: 16. 01. 1949: Dómur um myndina, fífldjarft afrek en mikilvægt

Nú ræðst hann í að gera kvikmynd í líkingu við þá stóru þarna úti í Hollywood og víðar. Það skal þurfa kjark, mér liggur við að segja fífldirfsku, til þess.

Hann vantar bókstaflega allt, „sem við á að éta“, annað en sæmilega kvikmyndavél og áhöld, sem sæmilega efnaðir menn þar ytra nota til þess að taka kvikmyndir á ferðalögum sínum, skólakvikmyndir og annað þess háttar.

Ágæt tæki til sinna nota — en ég er hræddur um að þeir stóru þar ytra myndu nota önnur og dýrari við upptöku slíkra kvikmynda.

Peninga til fyrirtækisins hefur hann heldur ekki neina á þann mælikvarða og svo hefur hann enga þjóðlega þróun á þessu sviði að bakhjarli, ekkert annað en kvikmyndatökutækin, nokkra góða leikara — sviðleikara auðvitað — og sjálfan sig í staðinn fyrir alla sérfræðingasveitina ...
Mánudagsblaðið: 17. 01. 1949: Umfjöllun um myndina og mikilvægi hennar fyrir íslenska menningu

Hér er aðeins um „tilraun“ að ræða, sem þó hefur tekizt framar öllum vonum.

Loftur Guðmundsson hefur innt af hendi þarflegt brautryðjandastarf og fært okkur heim sanninn um það, að hægt er að taka íslenzkar kvikmyndir í líkingu við þær sem við fáum erlendis frá.

Loftur og sonur hans, síra Hákon, eiga báðir miklar þakkir skilið fyrir kvikmyndina, Milli fjalls og fjöru, og reykvískir kvikmyndahúsagestir bíða þess með óþreyju að sjá næstu mynd hans, sem, ef marka má af þeim atriðum, sem sýnd eru á undan bessari mynd, spáir mjög góðu ...

Image

Image

Alþýðublaðið: 23. 01. 1949: Það sem Loftur getur lært af myndinni sem er enn sýnd fyrir fullu húsi, brot úr næstu mynd hans sýnd fyrir sýningar

Á undan myndinni eru sýndir smáþættir úr næstu kvikmynd Lofts.

Virðist sem þar sé um að ræða einhvers konar revíuumynd með þáttum úr skemmtanalífi Reykjavíkur.

Þar syngja ungar stúlkur, Georg og Konni tala saman, piltur leikur á harmoniku o.s.frv.

Ég hygg, að hyggilegra hefði verið fyrir Loft að byrja starf sitt á svona mynd. Hún krefst ekki mikils sviðsbúnaðar, ekki mikilla leikarahæfileika og ekki mikils fjármagns. Hins vegar gat hún gefið góða reynslu um marga hluti ...
Mánudagsblaðið: 24. 01. 1949: Myndin sögð hafa fengið ómaklega útreið í útvarpinu

Í síðustu viku flutti Bjarni þáttinn „Útvarp til útlanda“ og gerði þar kvikmynd LoftsMilli fjalls og fjöru, að umræðuefni.

Nú er það í sjálfu sér ekki í frásögufærandi, þó að honum þyki þessi mynd vera einmitt „frétt til næsta bæjar“, þar sem um nýung er að ræða og sjálfsagt að láta landa vora erlendis frétta um framfarir hér heima fyrir.

Fréttin er sjálfsögð og eðlilegt að menn flytji hana í svona þætti. En Bjarni lét þar ekki staðar numið. Í stað þess að láta sér nægja að segja, að þessa dagana væri þessi kvikmynd til sýnis, tekur Bjarni sér hlutverk gagnrýnandans og ræðst á kvikmyndara með botnlausum skömmum og dylgjum.

Kvað svo rammt að ósómanum af Bjana hálfu, að hann kvað íslendinga nú fullvissa þess, að Loftur væri lítið annað en skrumari, sem lítt sem ekkert kynni til verks þess, sem hann auglýsti ...

Image

Image

Vikan: 27. 01. 1949: Stillur úr myndinni

Fimmtudagskvöldið 13. janúar var frumsýnd í Gamla Bíó fyrsta talmyndin, sem tekin hefur verið á Íslandi.

Loftur ljósmyndari Guðmundsson á heiðurinn af þessu brautryðjandastarfi, því að hann hefur samið efni myndarinnar og annazt leikstjórn og kvikmyndun, en sonur hans, séra Hákon Loftsson, aðstoðaði hann við hljóðupptökuna.

Innimyndirnar voru teknar í leikfimisal St. Jósefs-systranna í Hafnarfirði, en útimyndirnar á Kjalarnesi, Hálshólum í Kjós og víðar í Kjósinni, við Arnarnes, sunnan Reykjavíkur, á Meðalfellsvatni og uppi í Esju.

Þótt sitthvað megi að þessari kvikmynd finna, þá er samt ákaflega gaman að sjá hana og taka hennar merkilegt afrek.

Loftur er þegar byrjaður á nýrri kvikmynd ...
Tíminn: 28. 01. 1949: Myndin hlýtur enn góða aðsókn

Ennþá er kvikmynd Lofts: Milli fjalls og fjöru sýnd á hverju kvöldi í Gamla Bíó við mikla aðsókn.

Fólk vill lengi sjá fallegar myndir og hugsar líka sem svo, ef Loftur getur ekki búið þær til, þá hver? ...

Image

Image

Mánudagsblaðið: 31. 01. 1949: Rúmlega 28.000 manns hafa séð myndina

Um 28 þúsund manns hafa nú séð kvikmynd Lofts Guðmundssonar, Milli fjalls og fjöru, sem sýnd er um þesar mundir í Gamla Bíó.

Á kvöldsýningum hefur húsið alltaf verið fullt og stundum jafnvel á fimm sýningum ...
Spegillinn: 01. 02. 1949: Góðlátlegt grín gert að myndinni og viðbrögðum blaðanna við henni

Vér getum ekki látið hjá líða fremur en hin blöðin að minnast á hinn stórmerka viðburð í íslenzkri kvikmyndagerð, sem er að vísu ekki laus við smávægilega tekniska galla, eins og Loftur tekur sjálfur fram í formála myndarinnar, en allt um það mjög „athyglisverð og virðingarverð tilraun“.

„Svo góð, að furðu sætir við slíkar aðstæður“. „Sýnir óvenjudugnað og framtakssemi“ og „ef Loftur getur það ekki — þá hver?“ eins og hann sjálfur segir. Enda þótt listrýni þessi sé eftir Dúk og Disk eins og venjulega, vildum vér mega vera með sem ein lítil millirödd í kór lofsamlegra ummæla um hina „virðingarverðu tilraun", enda þótt vér ekki höfum fengið senda miða á frumsýninguna með konum vorum, og er hól vort því alveg gratís.

Vér tökum þetta fram, af því vitað er, að menn semja yfirleitt kvikmyndadóma sína með þakklátara hugarfari, eftir að þeim hafa verið sendir gratís miðar á frumsýningu ...

Image

Image

Morgunblaðið: 10. 02. 1949: Síðasta sýning í Gamla Bíó eftir metaðsókn og enn er aðsókn góð, en myndin þarf að fara út á land í sýningar

Gamla bíó sýnir kvikmynd Lofts, Milli fjalls og fjöru í síðasta sinn í kvöld.

Er nú búið að sýna þessa kvikmynd nærri 70 sinnum og hefur engin mynd, sem Gamla Bíó hefur sýnt verið sýnd þar oftar í röð. Á hverfanda hveli var sýnd 50 sinnum.

Sýningin á mynd Lofts verður að hætta nú, þótt enn sje aðsókn það mikil, að aðgöngumiðar seljast upp á svipstundu, vegna þess, að búið er að lofa kvikmyndinni út á land og verður því ekki hægt að breyta þeirri ákvörðun, að myndin verði sýnd í síðasta sinn í kvöld, en nokkrum sinnum er búið að auglýsa, að það eigi að hætta að sýna myndina, en þeim ákvörðunum breytt vegna mikillar aðsóknar ...
Alþýðublaðið: 19. 02. 1949: Myndin sýnd í Bæjarbíó í Hafnarfirði

Bæjarbíó, Hafnarfirði (sími 9184); Milli fjalls og fjöru. Sýnd kl. 5, 7 og 9 ...

Image

Image

Útvarpstíðindi: 07. 03. 1949: Hin umdeildu orð sem féllu um myndina í útvarpinu

Eftirfarandi greinarstúfur er kafli úr erindi, er Bjarni Guðmundsson, blaðafulltrúi, flutti í útvarp til útlanda sunnudaginn 16. jan. s.l.

Ummæli hans um hina nýju kvikmynd Lofts Guðmundssonar, Milli fjalls og fjöru, hafa valdið deilum og athugasemdum í blöðum og þó enn meira manna á milli.

Höfundi þeirra finnst þau hafa verið rangfærð nokkuð í umsögnum blaðanna, og vill því gjarnan að þau komi fyrir almenningssjónir eins og hann flutti þau og getur þá hver og einn tekið afstöðu til þeirra á eigin spýtur.

Útvarpstíðindi urðu að sjálfsögðu við þeirri ósk Bjarna að birta þennan kafla ...
Framsóknarblaðið: 30. 03. 1949: Myndin sýnd í Vestmannaeyjum, mikil aðsókn

Íslenzka talmyndin Milli fjalls og fjöru, eftir Loft ljósmyndara var sýnd hér í Samkomuhúsinu um s.l. helgi við mikla aðsókn.

Myndin er fyrsta talmynd á íslenzku sem gerð hefir verið. Efnið er sögulegar heimildir. Þrátt fyrir ýmsa ógalla á myndinni, er þessi fyrsta tilraun lofsverð og þakkarvert brautryðjendastarf.

Sá óvenjulegi háttur var þó hafður við sölu aðgöngumiða, að sætin voru ótölusett, og er það síst til ánægjuauka fyrir gestina. Troðningur var mjög mikill við dyrnar, sem von var, þar sem fólkið tróðst út og inn hvað á móti öðru ...

Image

Image

Íslendingur: 06. 04. 1949: Myndin sýnd á Akureyri

Íslenzka kvikmyndin Milli fjalls og fjöru verður sýnd í Nýja Bíó miðvikudaginn 6. þ. m. kl. 5, 7 og 9 ...
Verkamaðurinn: 08. 04. 1949: Dómur um sýninguna á Akureyri. Taka ber tillit til aðstæðna þegar myndin er skoðuð

Það liggur í augum uppi, að rita mætti upp langan lista um ýmsa galla, stóra og smáa.

Stærsti gallinn „tæknislegs“ eðlis, er að „talið“ og myndin falla ekki saman. Þetta er óviðfelldið og verður ekki séð annað, með leikmannsaugum, en að þetta hefði hlotið að mega gera betur með meiri natni.

En sem sagt, eg tel enga ástæðu til þess að leggja höfuðáherzluna á galla myndarinnar, þvert á móti ber að þakka að ísinn hefur verið brotinn og vonandi á Loftur eftir að gera margar góðar íslenzkar kvikmyndir.

Efnið er hvorki stórbrotið né neitt listaverk, en það er skemmtilegt og þannig, að öllum Íslendingum kemur kunnuglega fyrir sjónir. Það, ásamt fallegum „senum“, veldur vafalaust miklu um, hversu vel myndin hefur verið sótt ...

Image