Niðursetningurinn (1951)
Alþýðublaðið: 16. 09. 1951: Myndin komin vel á veg og verður sýnd bráðlega, ítarlega fjallað um gerð hennar

Mun þessari nýju kvikmynd verða gefið nafnið Niðursetningurinn og er sjálf kvikmyndasagan samin af Lofti sjálfum; en hún byggist að verulegu leyti á raunverulegum atburðum, samkvæmt trúverðugum heimildum.

Nafna sinn, Loft Guðmundsson rithöfund, fékk hann til að færa söguhandritið til betra máls.

Þá réði Loftur Brynjólf Jóhannesson leikara til þess að stjórna leikum, og kveður hann Brynjólf hafa leyst það erfiða verk af hendi með frábærum dugnaði; en erfitt kveðst hann hafa átt með að þegja á stundum, þegar hann var leik stjóranum ekki sammála um einstök atriði.

Valdimar Jónsson var tæknilegur ráðanautur Lofts hvað alla tónupptöku snerti, og eru þeir, Loftur og Valdimar, farnir til útlanda til þess að setja myndina saman, þar eð engin tæki eru til þess hér á landi.

Gera þeir ráð fyrir, að hún verði búin til sýningar snemma í nóvember ...

Image

Image

Morgunblaðið: 16. 09. 1951: Loftur veikur á meðan gerð myndarinnar stóð

Loftur er bjartsýnn á íslenska kvikmyndagerð og telur það engum vafa bundið að hjer gæti kvikmyndaframleiðsla til útflutnings farið fram.

— Sjálfur segist Loftur ekki ætla að gera fleiri síkar myndir, enda gekk Loftur tæplega heill til skógar við töku þessarar myndar, en áhuginn og dugnaðurinn rak hann miskunnarlaust áfram ...
Tíminn: 16. 09. 1951: Loftur allt í öllu við gerð myndarinnar, samdi líka tónlistina enda lærður í tónlist

Loftur Guðmundsson ljósmyndari hefir í sumar gert nýja kvikmynd, sem nefnist Niðursetningurinn, og er sagan, sem kvikmyndin er gerð eftir, samin af honum sjálfum.

Loks eru lögin í myndinni samin af honum sjálfum, svo að með sanni má segja, að hér hafi unnið að maður, sem hjálpar sér sjálfur.

Leikinn mun Loftur þó ekki annast sjálfur, og fékk hann Brynjólf Jóhannesson til þess að stjórna honum, en fleiri góðir leikarar eru á þessari kvikmynd.

Kona Lofts Guðríður Sveinsdóttir leikur þó eitt hlutverkið, svo að nokkuð lagði fjölskylda hans einnig fram á þessu sviði ...

Image

Image

Mánudagsblaðið: 17. 09. 1951: Heimsókn blaðamanns á tökustað

Loftur skýrði nú ýmislegt fyrir mér um vinnu sína. Aðstæður hafa verið sæmilegar í sumar en til þess að hægt sé að kvikmynda þá verður að vera logn og næg birta.

Vindurinn þýtur í hljóðnemanum og skemmir talið, en þegar dimmt er verður að notast við ljós og ýmislegt annað getur hamlað. Næsta atriði sem filma á er „innisena“.

Út af fjósinu er klefi sem ákveðinn hefur verið til myndatöku. Kýr eru engar í fjósinu en tuddi stendur í ysta bás, þybbingslegur og illur. Honum finnst víst lífið heldur grátt því í stað blessaðra kúnna er kominn heill hópur af leikendum og mönnum með allskonar tæki til kvikmyndunar.

Þetta er hörmulegt hlutskipti fyrir tudda og ekki að furða þó hann sé ekki í sólskinsskapi ...
Alþýðublaðið: 17. 10. 1951: Loftur kominn heim með myndina frá Danmörku

Loftur er nýlega kominn frá Kaupmannahöfn, en þar setti hann myndina saman, ásamt aðstoðarmanni sínum Valdimar Jónssyni.

— Þetta er ein af myndunum úr filmunni

— en nokkrar útstillingsmyndir eru í Tóbaksverzlunni London gegnt Reykjavíkur apóteki og ætti fólk að leggja það á sig að sjá þær ...

Image

Image

Alþýðublaðið: 31. 10. 1951: Myndin frumsýnd 3. nóvember í Nýja Bíói

Næstkomandi laugardag verður hin nýja kvikmynd Lofts Guðmundssonar ljósmyndara, Niðursetningurinn, frumsýnd í Nýja Bíói.

Þetta er litkvikmynd með tali og tónum, gerð eftir samnefndri sögu og kvikmyndahandriti Lofts ljósmyndara; Brynjólfur Jóhannesson annast leikstjórn ...
Tíminn: 31. 10. 1951: Myndin sýnd blaðamönnum, þykir góð þrátt fyrir tæknigalla

Hin góða tón- og talupptaka gefur þessari íslenzku kvikmynd talsvert gildi fram yfir það sem maður á að venjast í íslenzkum kvikmyndum.

Mun óhætt að segja að með þeim ófullkomnu tækjum sem notuð hafa verið hefir hér prýðilega tekizt í höndum Valdimar Jónssonar. En hann er snjall og vel menntaður á þessu sviði.

Hefir hann unnið að samsetningu myndarinnar og endurbætingu hljómsins erlendis um nokkurt skeið.

Benti Loftur réttilega á að þar er hæfileikamaður á ferð sem getur orðið íslenzkri kvikmyndagerð að góðu liði ef hún þá á framtíð fyrir sér en það skulum við vona.

Hin nýja kvikmynd Lofts er allgóður áfangi og betur af stað farið en heima setið

Image

Image

Vísir: 31. 10. 1951: Myndin sýnd blaðamönnum, þykir ekki við hæfi að birta gagnrýni strax

Loftur bauð í gær fréttamönnum blaða og útvarps að sjá þessa kvikmynd, sem hann hefir haft í smíðum undanfarið.

Bersýnilegt er að Loftur hefir lagt mikla vinnu og natni í að gera þessa kvikmynd sem bezt úr garði, og verður ekki annað sagt, en að honum hafi vel tekizt.

Á þessu stigi málsins þykir ekki rétt að birta gagnrýni á myndinni, heldur láta frumsýninguna fara fram fyrst.

En ef almenningur verður jafn ánægður með myndina og fréttamenn virtust vera í gær, má hann vel við una ...
Morgunblaðið: 31. 10. 1951: Blaðamannasýning, myndin þykir góð – sér í lagi hljóðið

Það er skemmst frá að segja, að Lofti hefur að líkindum aldrei heppnast betur en í þetta sinn.

Honum hefur nú tekist að yfirstíga þá erfiðleika, sem einkanlega spilltu síðustu mynd hans og það sem hlýtur að vera aðalatriði meðan íslensk kvikmyndagerð er ennþá á tilraunastigi ef svo mætti segja, sem er hin tæknilega hlið myndatökunnar, en á því sviði hefur Loftur nú unnið sigur.

Hljómur og tal hefur að þessu sinni heppnast svo vel, að hvergi spillir ánægju áhorfandans ...

Image

Image

Þjóðviljinn: 31. 10. 1951: Eftivænting eftir myndinni í Reykjavík

Ný kvikmynd, gerð af Lofti Guðmundssyni, er alltaf atburður sem Reykvíkingar bíða með eftirvæntingu.

Á laugardaginn kemur verður frumsýnd hin nýja mynd hans Niðursetningurinn.

Hefur Loftur einnig sjálfur samið söguna er myndin er gerð eftir og einnig lög í myndina.

Eins og nafn myndarinnar ber með sér fjallar hún um örlög niðursetnings o.fl. olnbogabarna í lífinu, fyrr á árum þegar hreppsnefndir ráðstöfuðu fátækum mönnum milli bæja og byggða ...
Morgunblaðið: 03. 11. 1951: Myndin frumsýnd almenningi

Niðursetningurinn

Leikstjóri og aðalleikari: Brynjólfur Jóhannesson.

Mynd, sem allir ættu að sjá ...

Image

Image

Vísir: 05. 11. 1951: Niðursetningurinn fær almennt góða dóma og er betri en Milli fjalls og fjöru sér í lagi hljóðið

Ef þessi mynd er borin saman við fyrri mynd Lofts Milli fjalls og fjöru er framförin ákaflega mikil.

Þessi mynd er miklu betur leikin, mislýsingar gætir minna, þó hún óprýði nokkuð þessa mynd.

En mestu munar þó á tal- og tónupptökum, sem eiginlega má heita að hafi tekizt ágætlega.

— Myndin er yfirleitt bráðskemmtileg, mörg atriðin ljómandi falleg og á Loftur þakkir skilið fyrir þessa kvikmynd ...
Mánudagsblaðið: 05. 11. 1951: Síðasta mynd Lofts, að eigin sögn og þykir sú besta hingað til

Loftur Guðmundsson, ljósmyndari, bauð blaðamönnum til sín á Bárugötu, til þess að skoða hina nýju kvikmynd hans Niðursetningurinn.

Þetta er önnur sögumynd Lofts, og sú síðasta að eigin sögn.

Sjálfur hefur Loftur annazt kvikmyndun, samið söguna og stjórnað verkinu í heild, en teknískur ráðunautur er Valdimar Jónsson.

Brynjólfur Jóhannesson hefur haft leikstjórn á hendi, auk þess sem hann leikur aðalhlutverkið ...

Image

Image

Alþýðublaðið: 06. 11. 1951: Myndin borin saman við Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra, mikið vantar upp á tækni og gæði leiks

Tveir kvikmyndatökumenn hafa nú sýnt kvikmyndir sínar, Óskar Gíslason Bakkabræður og Loftur Guðmundsson Niðursetningurinn.

Önnur er gamanmynd, en hin mjög alvarlegs efnis og tekin úr íslenzku þjóðlífi fyrr á dögum.

Mér dettur ekki í hug að gera samanburð á myndunum. En það vekur athygli þegar maður hefur séð þær að mjög langt eigum við í land til þess að geta gert góðar kvikmyndir.

Þetta er eðlilegt. Kvikmyndatökumennirnir eiga við hin verstu skilyrði að búa. Féleysi sniður þeim þröngan stakk, margskonar tæki og tilfæringar vantar og svo eigum við enga kvikmyndaleikara.

Óskar Gíslason notaðist við algera leikmenn í faginu, enda mistókst oft — og hvimleiðar eyður komu. En Loftur fékk í lið með sér ýmsa fremstu leiðssviðs leikara okkar. Og frammistaða þeirra jók ekki á álit þeirra ...
Vísir: 06. 11. 1951: Myndin með því besta sem framleitt hefur verið á Íslandi

Undirtektir almennings á fyrstu sýningu þessarar myndar benda einnig ótvírætt til þess að Loftur hafi fundið tóninn.

Enda þótt slíkar myndir geti tæpast orðið nein útflutningsvara, eins og eðlilegt er, má vafalaust telja, að kvikmyndir á borð við Niðursetninginn verði kærkomið skemmtiatriði hérlendis, en þar með er væntanlega tilganginum náð ...

Image

Image

Morgunblaðið: 15. 11. 1951: Góð aðsókn eftir 40 sýningar. Allir ættu að geta haft gaman af

Aðsókn að kvikmynd Lofts, Niðursetningurinn, hefur verið góð og hefur myndin nú verið sýnd 40 sinnum.

Loftur telur aðsóknina hafa verið betri en hann hafi búist við og telur hann það vel farið að myndin mæli með sjer sjálf.

Svo sem kunnugt er sækir Loftur efnið í myndina í sveitalífið eins og það var í gamla daga. Það er niðursetningur á bænum og besti vinur hans þar verður umkomulaus stúlka sem komið er fyrir þar. Inn í efnið er svo spunnið saklaust ástarævintýri.

Hefur það verið skoðun þeirra er sjeð hafa myndina, að bæði ungir og gamlir hafi haft af henni hina mestu ánægju.

— Þar með er tilgangi myndarinnar að mjög miklu leyti náð. Þessi mynd er fyllilega þess virði að eytt sje kvöldstund við að sjá hana ...
Vísir: 17. 11. 1951: Ítarleg rýni á myndina, spor í rétta átt

Með kvikmyndinni Niðursetningurinn hefir Loftur Guðmundsson ljósmyndari stigir drjúgt spor í rétta átt.

Hljóð þessarar myndar er t.d. miklum mun betra en í fyrri mynd sama manns. Yfirleitt heyrist allt vel, sem sagt er i myndinni.

Þó er þar eitt atriði, sem má minnast á, sem sé, að stundum er talið skýrara, þegar leikendur eru fjarri, en þegar þeir eru nálægt. Þetta er óeðlilegt, og spillir því dálitið heildaráhrifum myndarinnar ...

Image

Image

Tíminn: 18. 11. 1951: 50. sýning myndarinnar, hátt í 16.000 áhorfendur, verður brátt sýnd úti á landi

Fimmtugasta sýning á kvikmynd Lofts Guðmundssonar, Niðursetningurinn, var í gærkvöldi i Nýja bíó.

Mun þá láta nærri, að sextán þúsund sýningargestir séu búnir að sjá kvikmyndina í Reykjavík.

Fer því hver að verða síðastur að sjá myndina hér, þar sem í ráði er að senda hana út á land ...
Morgunblaðið: 18. 11. 1951: Utanbæjarfólk kemur í hópum til að sjá myndina, m.a. frá Vestmannaeyjum

Kvikmynd Lofts, Niðursetningurinn, hefir nú verið sýnd 50 sinnum og eru um 16 þúsundir manna búnar að sjá hana.

Hefir nokkur fjöldi utanbæjarmanna komið á sýninguna í hópum, m.a. frá Vestmarmaeyjum.

— Sýningum á myndinni fer nú að ljúka hjer í bænum ...

Image

Image

Tíminn: 24. 11. 1951: Myndin sýnd í Hafnarfjarðarbíó

Litkvikmynd Lofts

Niðursetningurinn

Leikstjóri og aðalleikari: Brynjóifur Jóhannesson ...
Verkamaðurinn: 24. 10. 1952: Myndin sýnd á Akureyri

Um helgina:

Niðursetningurinn

Hin vinsæla kvikmynd Lofts Guðmundssonar ...

Image

Image

Þjóðviljinn: 04. 03. 1953: Myndin sýnd í Nýja Bíó, síðar verða sýningar úti á landi

Kvikmynd Lofts Guðmundssonar, Niðursetningurinn, verður sýnd í Nýja bíó á þrem sýningum í dag.

Kvikmynd þessi var fyrst sýnd í nóvember 1951, var þá sýnd nokkrum sinnum hér í bænum og síðan á nokkrum stöðum úti á landi, við ágæta aðsókn.

Marga hefur langað til að sjá þessa mynd aftur og hefur því verið hafin sýning á henni að nýju ...
Fálkinn: 21. 02. 1966: Minning Önnu Herskind um sýningu af myndinni

„Fórstu oft í leikhús þegar þú varst litil?“

„Ekki mjög, en þeim mun oftar á bíó. Ég man enn þegar ég fór með mömmu og ömmu að sjá íslenzka kvikmynd sem hét Niðursetningurinn með Brynjólfi Jóhannessyni í aðalhlutverkinu.

Ég hef verið fimm eða sex ára, og þegar hann dó í endanum varð mér svo mikið um, að ég fór að hágráta. Amma reyndi að hugga mig, og hún talaði áreiðanlega eins hátt og ég grét, en aumingja mamma sussaði árangurslaust á okkur og dauðskammaðist sín fyrir þessi læti.

'Ég skal fara með þig aftur á morgun, og þá sérðu, að hann er ekki dáinn', sagði hún við mig. 'Já, en þá deyr hann bara aftur', vældi ég og mátti ekki til þess hugsa.

Ég fór að hlakka til að verða fullorðin, því að þá ætlaði ég að eignast niðursetning og vera alltaf voða voða góð við hann.“ ...

Image

Image

Dagblaðið: 03. 02. 1978: Umfjöllun um myndina og Loft fyrir sýningu í Sjónvarpinu

Fjallar myndin um niðursetning á sveitaheimili og er farið heldur illa með hann.

Reynt er að lýsa á sem beztan og raunverulegastan hátt lífi þeirra manna, sem urðu að lifa sem niðursetningar fyrr á tímum.

Myndin er tekin árið 1951 og hefur Loftur aflað sér upplýsinga í þjóðsögum og öðrum heimildum.

Ekki hefur hann þó tekið sér neina sérstaka sögu til fyrirmyndar, því hann samdi handrit myndarinnar sjálfur.

Leikstjóri myndarinnar er Brynjólfur Jóhannesson og leikur hann einnig aðalhlutverkið ásamt Bryndísi Pétursdóttur og Jóni Aðils ...
Morgunblaðið: 02. 02. 1978: Ný eintök gerð af myndinni

Samkomulag hefur orðið um að á vegum menntamálaráðuneytisins verði gerð ný eintök af leiknum kvikmyndum Lofts heitins Guðmundssonar; Milli fjalls og fjöru og Niðursetningnum, en sú síðarnefnda verður sýnd í sjónvarpinu á föstudagskvöld í tilefni kvikmyndahátíðar þeirrar, sem hefst í dag klukkan 15:30 í Háskólabíói.

Einu eintökin, sem til eru af framangreindum kvikmyndum Lofts, eru frumeintökin, sem búið er að sýna oft og mörgum sinnum og því hefur orðið að ráði að meimtamálaráðuneytið láti í tilefni kvikmyndahátíðarinnar gera ný eintök af myndunum ...

Image

Image

Alþýðublaðið: 03. 02. 1978: Myndin ánöfnuð Kvikmyndasafni Íslands af börnum Lofts

Menntamálaráðherra gat þess í ræðu sinni að börn Lofts Guðmundssonar, ljósmyndara, hefðu ánafnað safninu myndir Lofts Milli fjalls og fjöru og Niðursetningurinn ...
Morgunblaðið: 03. 02. 1978: Myndin sýnd í Sjónvarpinu

Síðast á dagskrá sjónvarps í kvöld er íslenska kvikmyndin Niðursetningurinn, sem Loftur Guðmundsson ljósmyndari gerði árið 1951.

Leikstjóri myndarinnar er Brynjólfur Jóhannesson, og fer hann jafnframt með aðalhlutverk myndarinnar, ásamt Bryndísi Pétursdóttur og Jóni Aðils.

Niðursetningurinn er þjóðlífslýsing frá fyrri tímum. Hún fjallar um niðursetning á bæ einum, sem sætir illri meðferð, einkanlega er sonur bónda honum vondur ...

Image

Image

Þjóðviljinn: 15. 01. 1983: Viðtal við Erlend Sveinsson, framtíðareintak gert af myndinni

Þegar við tölum um að bjarga kvikmyndum sem eru á gömlu nitrat-filmunum, þá megum við ekki gleyma því að þetta er tæmandi verk.

Þær myndir sem teknar voru á svona filmur eru ekki svo margar. Við létum til að mynda gera framtíðareintök af tveimur merkum kvikmyndum íslenskum í fyrra.

Það voru myndir Lofts Guðmundssonar, Milli fjalls og fjöru og Niðursetningurinn og það eru ekki svo ýkja margar kvikmyndir sem eftir er að bjarga ...
Pressan: 22. 12. 1992: Myndin sýnd í Sjónvarpinu á öðrum degi jóla

Niðursetningurinn

Gömul íslensk kvikmynd eftir Loft Guðmundsson ...

Image