Reykjavík (1944)
Morgunblaðið: 23. 10. 1943: Loftur gerir samning við Reykjavíkurborg um kvikmynd um bæinn og svo planar hann að gera mynd um sögu hitaveitunnar

Borgarstjóra hefir verið falið að semja við Loft Guðmundsson ljósmyndara um myndatöku fyrir bæinn samkvæmt tilboði.

Er hjer um að ræða 500 staðmyndir og 1500 metra langa kvikmynd. Munu verða teknar myndir af gömlum húsum er enn standa og öðrum merkum byggingum, ennfremur myndir af hinum gömlu og nýju hverfum bæjarins.

Þá mun Loftur ætla sjer að taka kvikmynd af sögu hitaveitunnar ...

Image

Image

Morgunblaðið: 18. 04. 1944: Loftur að taka upp kvikmynd um Reykjavík, stutt viðtal

Loftur Guðmundsson ljósmyndari er að taka kvikmynd af Reykjavíkurbæ. Hann er ráðinn til þess af bænum.

Það verður gaman að þessari kvikmynd, þegar tímar líða og það er eiginlega einkennilegt, að ekki skuli fyr hafa verið ráðist í að taka heildarkvikmynd af Reykjavík.

Það væri t.d. gaman að eiga kvikmynd af Reykjavíkurbæ eins og hann var fyrir 10—15 árum. Þá sæist vel, hve miklar framfarir hafa orðið hjer í bænum á þeim stutta tíma.

Það ætti að taka kvikmynd af Reykjavík á 10—15 ára fresti. Þannig væri saga bæjarins best geymd ...
Morgunblaðið: 07. 07. 1944: Loftur tekur upp bæjarstjórnarfund í Reykjavík

Þegar bæjarfulltrúarnir komu upp í Kaupþingssal í gær, til að sitja fund, var Loftur Guðmundsson þar fyrir með stóra rafmagnslampa og kvikmyndatæki.

Erindi hans var það, að taka i kvikmyndir af fundinum. Verða þessar fundarmyndir feldar inn í kvikmynd sem hann vinnur að og sýna á fyrst og fremst ýmis konar starfsemi bæjarfjelagsins ...

Image

Image

Morgunblaðið: 08. 07. 1944: Loftur kvikmyndar skáta við Úlfljótsvatn

Loftur Guðmundsson, ljósmyndari, sem nú vinnur að kvikmynd, sem einkum á að sýna ýmis konar starfsemi bæjarfjelagsins, fór í gær austur að Úlfljótsvatni til þess að taka myndir af starfsemi skáta þar.

Að Úlfljótsvatni er, sem kunnugt er, skátaskóli yfir sumarmánuðina. Dveljast þar nú 46 skátar.

Skátarnir voru kvikmyndaðir við landbúnaðarstörf og ýmsa aðra sýslan. Einnig voru teknar myndir af tjaldbúðir þeirra og skála ...
Tíminn: 11. 07. 1944: Loftur er langt kominn með gerð myndar um Reykjavík

Loftur Guðmundsson ljósmyndari vinnur nú að því að gera kvikmynd af Reykjavíkurbæ, þar sem sýndar eru helztu stofnanir bæjarins, atvinnugreinar, bæjarbragur o.s.frv. Mun myndin vera langt komin ...

Image

Image

Morgunblaðið: 14. 07. 1944: Lofti er boðið að fara til Bandaríkjanna á vegum Kodak, fer einnig til að fullvinna myndina

Eins og kunnugt er var það Reykjavíkurbær, sem rjeði Loft til að taka kvikmynd af Reykjavík og hefir hann starfað að því síðan í marsmánuði í vor og tekið um 2000 metra.

Í fyrra tók Loftur kvikmynd af Hitaveituframkvæmdunum öllum. Ætlar hann að fullgera báðar þessar myndir vestra ...
Vísir: 07. 03. 1945: Loftur í Bandaríkjunum, myndin fór í sjóinn í með Goðafossi, ætlar að gera aðra í New York

Hin kvikmyndin er af Reykjavík, og sýnir hún hvernig öll Reykjavík byggist upp hátt og lágt og allar framkvæmdir (verklegar), gömlu kofarnir sjást — og nýbyggingar til samanburðar o.m.fl.

Þessi kvikmynd er tekin fyrir bæjarráð Reykjavíkur, og átti að vera fyrsta tón- og talfilman sem búin hafi verið til á Íslandi.

En því miður tókst svo illa til, að þessi kvikmynd fór i sjóinn með Goðafossi, og verð eg því að fara aftur til New York til þess að fullgera aðra kvikmynd ...

Image

Image

Vísir: 23. 04. 1945: Loftur kominn heim, myndin lenti tvisvar í sjónum á leiðinni til Íslands og annað eintak er í vinnslu og væntanlegt bráðlega

Þá vann Loftur að kvikmynd þeirri, sem hann hafði tekið af Reykjavíkurbæ.

Var hann búinn að senda 2 eintök af henni heim, en þau fóru bæði í sjóinn.

Nú er verið að cópíera þriðja eintakið og er það jafnvel væntanlegt í næsta mánuði hingað til landsins.

Þessi kvikmynd er um 6000 fet að lengd og er gert ráð fyrir að Loftur bæti enn við hana ýmislegu, sem var ótekið áður.

Upphaflega var gert ráð fyrir þvi að myndin yrði með hljómum og tali, en líklega getur það þó ekki orðið ...
Þjóðviljinn: 14. 01. 1983: Sýningareintak myndarinnar ónýtt og negatívan liggur undir skemmdum, Reykjavíkurborg neitar að leggja fé í björgunaraðgerðir

Á árunum 1940-1942 tók Loftur Guðmundsson ljósmyndari, heimildarkvikmynd um Reykjavíkurborg.

Sýningareintakið af þessari mynd, ásamt „negatívi" hennar hefur verið geymt í Árbæjarsafni við algerlega ófullnægjandi skilyrði, enda er svo komið að sjálft sýningareintakið er þegar orðið ónýtt, en „negatívið" er það ekki, en er byrjað að skemmast.

Það er því enn ekki of seint að bjarga þessari merku heimildarmynd, en við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í síðustu viku felldi Sjálfstæðisflokkurinn tillögu frá Alþýðubandalaginu um fjárveitingu til verksins. Um er að ræða 200 þúsund krónur ...

Image

Image

Helgarpósturinn: 21. 01. 1983: Grein um mikilvægi varðveislu almennt og um aðgerðarleysi ríkis og borgar við að bjarga myndinni

Föstudaginn 14. janúar hneykslaðist Þjóðviljinn á því með réttu að sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafi fellt tillögu Alþýðubandalagsins um 200.000 kr. fjárveitingu til þess að forða merkri kvikmynd frá eyðileggingu: Heimildarmynd um Reykjavík sem Loftur Guðmundsson gerði 1940-42.

Sýningareintakið er ónýtt og negatívið á sömu leið. Með röngu þegir Þjóðviljinn hinsvegar yfir því að ríkisvaldið ber mesta ábyrgð á safninu og kvikmyndum þess og ætti því án múðurs að leggja fram 200.000 krónur til að bjarga þessari Reykjavíkurmynd, enda er Reykjavík nú einu sinni í ríkinu hvað sem Davíð segir og gerir ...
Þjóðviljinn: 10. 05. 1983: Tryggingafélagið Almennar Tryggingar kemur myndinni til bjargar á 40 ára afmæli sínu, Reykjavíkurborg á sýningarréttinn að myndinni

Á blaðamannafundi í gær gerðu þeir Guðmundur Pétursson, Ólafur B. Thors og Sigurður Sigurkarlsson hjá Almennum tryggingum grein fyrir 40 ára sögu félagsins og þau Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns íslands og Nanna Hermannsson borgarminjavörður sögðu frá kvikmynd Lofts Guðmundssonar.

Loftur Guðmundsson gerði þessa mynd 1943 með stuðningi frá Reykjavíkurborg í borgarstjóratíð Bjarna Benediktssonar. Þykir myndin hafa mikið og gott heimildargildi um borgina og atvinnuhætti í Reykjavík.

Eftirtökur af þessari mynd höfðu farið forgörðum á leiðinni frá Bandaríkjunum til Íslands. Þannig fór ein í hafið með Goðafossi og önnur með Dettifossi ...

Image

Image

Þjóðviljinn: 17. 03. 1984: Atriði úr myndinni sýnd í Sjónvarpinu

Þá verður í Glugganum talað við Erlend Sveinsson, forstöðumann Kvikmyndasafns íslands, um kvikmynd sem Loftur Guðmundsson ljósmyndari tók árið 1944, en þessi mynd hefur nú verið endurgerð og verður sýnd almenningi á næstunni og verða sýnd atriði úr myndinni í þættinum ...
DV: 12. 05. 1984: Myndin frumsýnd í endurbættri útgáfu 40 árum eftir gerð hennar

Í tilefni 40 ára afmælis Almennra Trygginga hf. þann 11. maí 1983 samþykkti stjórn félagsins, að láta endurgera og bjarga 40 ára gamalli Reykjavíkurkvikmynd sem Loftur Guðmundsson ljósmyndari tók, en hafði ekki lokið við er hann lést.

Talið var að myndin ónýttist, yrði ekkert að gert. Þessu umfangsmikla verki er nú lokið og fyrir dyrum stendur sýning kvikmyndarinnar, sem er stórmerk heimild um bæjarlífið í Reykjavík, einmitt á þeim tímum sem hlutafélagið Almennar Tryggingar var stofnað.

Stjórn félagsins er því sérstök ánægja að bjóða öllum sem áhuga hafa, að sjá myndina en hún hefur ekki komið fyrir almenningssjónir fyrr en nú 40 árum síðar ...

Image

Image

Fréttablaðið: 23. 02. 2007: Myndin sýnd á vetrarhátíð í Reykjavík

Árið 1944 tók Loftur Guðmundsson kvikmyndir í Reykjavík.

Hann lauk aldrei við verkið og verður afurðin sýnd á Vetrarhátíð á vatnstjaldi