Óskar Gíslason


Óskar Gíslason, ljósmyndari og frumkvöðull íslenskrar kvikmyndagerðar, fæddist í Reykjavík 15.4. 1901.

Hann var sonur Gísla Þorbjarnarsonar, búfræðings, fasteignasala og kaupmanns, og k.h., Jóhönnu Sigríðar Þorsteinsdóttur.

Óskar lærði ljósmyndun hjá Ólafi Magnússyni 1916 og Magnúsi, syni hans, lærði framköllun á kvikmyndaprufum við upptöku á Sögu Borgarættarinnar 1919 og stundaði framhaldsnám í ljósmyndun hjá Peter Elfelt, kgl. ljósmyndara i Kaupmannahöfn 1920-21.

Óskar starfrækti ljósmyndastofu í Reykjavík frá 1922, vann á myndastofu Ólafs Magnússonar 1936-40, veitti forstöðu myndastofunni Týli 1940-45 og skipulagði og veitti forstöðu ljósmyndastofu Sjónvarpsins 1966-76.

Óskar er þó þekktastur sem frumkvöðull íslenskrar kvikmyndagerðar. Á árunum 1944-59 gerði hann myndirnar Lýðveldishátíðin, 1944; Íslands hrafnistumenn, 1944-1946; Reykjavík vorra daga, I. hluti 1947 og II. hluti 1948; Björgunarafrekið við Látrabjarg, 1949; Síðasti bærinn í dalnum, 1950; Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra, 1951; Ágirnd, 1952, og Nýtt hlutverk, 1953.

Í kvikmyndagerð sinni tókst honum yfirleitt ótrúlega vel upp við erfíðar aðstæður. Óskar lést 24.7. 1990.