Róska

Matthildur Lillý Valdimarsdóttir

Ragnhildur Óskarsdóttir, betur þekkt sem Róska, fæddist í Reykjavík þann 31. október árið 1940 en hún lést þann 13. mars árið 1996, aðeins 55 ára að aldri. Foreldrar hennar voru Óskar B. Bjarnason og Sigurbjörg Emilsdóttir. Róska átti tvær yngri systur, þær Borghildi og Guðrúnu. Róska kvæntist tvisvar, fyrst Gylfa Reykdal en þau eignuðust soninn Höskuld Harra árið 1963. Seinni eiginmaður Rósku var Ítalinn Manrico Pavolettoni.[1]

Róska var Reykvíkingur, alin upp í austur- og vesturbænum. Róska var flogaveik frá barnsaldri en hún byrjaði að fá flogaköst eftir fall á tólfta ári. Í kjölfarið glímdi hún við þrálát veikindi allt sitt líf. Listrænir hæfileikar Rósku komu snemma í ljós en eftir að hafa hafið nám í Menntaskólanum í Reykjavík og síðar hætt, innritaði hún sig í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, þar sem hún kynntist fyrri eiginmanni sínum, Gylfa. Þau fluttu til Tékkóslóvakíu þar sem Gylfi var í myndlistarnámi og hóf hún þar listnám. Róska varð ófrísk og eignaðist soninn Höskuld sem svo ólst upp hjá foreldrum Gylfa. Eftir að Róska og Gylfi skildu fluttist hún til Ítalíu þar sem hún hóf nám við Listaakademíuna í Róm árið 1965. Þar kynntist hún Manrico og giftu þau sig árið 1980. Þau hjónin unnu saman að mörgum kvikmyndum. Hann greindist með HIV árið 1994 og fékk alnæmi. Róska bjó meirihluta ævi sinnar á Ítalíu en vímuefnaneysla og langvarandi veikindi voru þess valdandi að hún lést langt fyrir aldur fram.[2]

Myndlist og pólitísk róttækni

Róska er í dag helst þekkt sem listakona og það var fyrir myndlist sem hún fyrst vakti athygli með sýningu á málverkum og teikningum í Casa Nova árið 1967. Sama ár gekk hún í SÚM hópinn og verk hennar Súper-þvottavél vakti sömuleiðis athygli.[3] SÚM var merkur hópur í myndlist á Íslandi en SÚM-tímabilið er kafli í íslenskri myndlistarsögu sem hófst 1965 og lauk í kringum 1975. Róska tók meðal annars þátt í listsýningu hópsins, SÚM III.[4] Róska var einn af stofnendum Félags Nýlistasafnsins.[5] Árið 2000, fjórum árum eftir andlát hennar, hélt Nýlistasafnið yfirlitssýningu tileinkaða Rósku.[6] Myndlistaferill Rósku spannaði yfir þrjátíu ár og tókst hún á við meðal annars grafík, málverk, þrívíð verk, ljósmyndir, tölvugrafík og gerninga.[7] Konan var mikilvægt viðfangsefni í verkum Rósku og hún málaði sjálfa sig og konur alla tíð. Sjálf lifði hún sem kona í karllægu samfélagi myndlistarinnar en var ekki hrædd við að láta verkin tala. Á seinni hluta ferilsins fór Róska í auknum mæli að tengja list sína við kvennabaráttu og kvenréttindi.[8]

Ásamt því að vera listakona var Róska mikil baráttukona og einkenndist ferill hennar af pólitískum væringum. Hún fór ávallt sínar eigin leiðir bæði í lífi og list. Róska var mjög pólitísk í listsköpun sinni og gerðist hluti af hópi róttækra á Ítalíu, en reynsla þessi og pólitísk sannfæring mótuðu verulega listsköpun hennar og kvikmyndagerð, og rann í vissum skilningi saman við umbyltingarafl SÚM-hreyfingarinnar:[9]

Hún tilheyrði þeirri kynslóð róttækra, evrópskra listamanna sem vildi afmá mörkin milli lífs og listar og barðist gegn listasnobbi borgarastéttarinnar, pólitísku andvaraleysi almennings og áróðursvél atvinnustjórnmálamanna. Hún var listmálari, ljósmyndari, ljósmyndafyrirsæta, kvikmyndaleikstjóri en umfram allt uppreisnarmaður; rauði þráðurinn í lífi hennar var „sífelld uppreisn í lifandi póesíu og pólitík.“[10]

Þegar Róska var námsmaður í Róm tóku vinstrisinnar, stúdentar og verkamenn, verkamannabæinn Fabbrico hernámi. Róska tók virkan þátt í atburðunum sem áttu sér stað þar enda var hún dyggur kommúnisti.[11]

Við formuðum lítil ráð, sem öll gegndu ákveðnu hlutverki. Ég var í upplýsingaráði og málaði skilti sem buðu fólk velkomið ef það ætlaði að taka þátt en báðu það annars að hypja sig. Ég hannaði líka og dreifði bæklingum, ljósritaði fréttabréf og dreifði baráttusöngvum . . . Þarna kynntist ég ýmsum frægum leikurum og leikstjórum, til dæmis Goddard, sem kom og sýndi myndir og gaf okkur tökuvél. Daríó Fó var þarna líka og sýndi leikritin sín og Fellini og fleiri heimsþekktir menn.[12]

Róska tók þátt í stúdentaóeirðunum á Spáni og tengsl hennar við Rauðu herdeildirnar eru þekkt. Þrátt fyrir að hún skilgreindi sig ekki sem femínista, vann Róska ávallt að jafnréttismálum.[13]

 

Kvikmyndagerð

Róska fór fyrst að fást við kvikmyndun árið 1968 en á þeim tíma var hún í listnámi í Róm. Hún, ásamt nokkrum félögum, fengu lánaða kvikmyndatökuvél sem þau tóku með sér til Parísar. Þar tóku þau upp á filmu þá atburði sem áttu sér stað. „Kynntist ég þá þeim möguleikum sem kvikmyndin hefur upp á að bjóða og einnig kynntist ég því hversu mikill munur er að starfa í hóp eins og við kvikmyndatöku eða einn sér eins og við flesta listsköpun.“[14] Róska ákvað að leggja kvikmyndafræði fyrir sig sem sérgrein við Listaakademíuna vegna Rauðu Emilíu og uppreisnanna þar.[15]

Eftir Rósku liggja nokkur verk á sviði kvikmynda, meðal annars L’impossibilita di resitare Elettra Oggi (1969),Ballaðan um Ólaf Liljurós (1977) og Sóley (1982). Einnig leikstýrði hún sjö heimildarþáttum um Ísland fyrir ítalska sjónvarpið. Kvikmyndagerðarmaðurinn Jean-Luc Godard tók upp tvær kvikmyndir á Ítalíu árið 1969 sem Róska tengdist. Á þeim tíma hafði hann snúið sér að gerð pólitískra heimildarmynda og stofnað Dziga Vertov hópinn en Róska tók þátt í starfi hans. Ágreiningur kom upp í hópnum og í kjölfarið gerði Róska ásamt félögum sínum kvikmyndina L’impossibilita di resitare Elettra Oggi. Kvikmyndin fjallar um hóp ungs fólks sem ætlar að setja leikritið Elektra eftir Sófókles á svið. Þessi hópur áttar sig síðan á því að það sé ómögulegt og að hin sanna list felist í uppreisn verkalýðsins gegn yfirvaldinu. Hernám Fabbrico á sjöunda áratug tuttugustu aldar, sem Róska hafði tekið þátt í, var hvatinn að þessari mynd.

Ballaðan um Ólaf Liljurós er 35 mínútna löng kvikmynd sem byggist á íslenskri þjóðsagnahefð og er með súrrealísku ívafi. Róska skrifaði handritið og leikstýrði ásamt eiginmanni sínum Manrico Pavolettoni.[16] Á meðan Ballaðan um Ólaf Liljurós var tekin upp í lit voru heimildarþættirnir sjö teknir í svart-hvítu. Heimildarþættirnir, sem teknir voru upp á árunum 1973 til 1975, fjalla um Ísland, allt frá jarðfræði og sögu landsins til menningar Íslendinga.[17]

Sóley

Kvikmyndin Sóley er líklega sú mynd sem Róska er þekktust fyrir en hún kom út árið 1982. Róska skrifaði handritið og hún og maðurinn hennar, Manrico Pavolettoni leikstýrðu. Þegar þessi greinargerð er skrifuð er negatívan týnd og aðeins er til sýningareintak af kvikmyndinni sem er í slæmu ástandi á Kvikmyndasafni Íslands. Verið er að safna fyrir endurvinnslu á myndinni.

Sóley gerist á Íslandi á 18. öld. og segir frá ævintýrum bóndans Þórs, sem fer í leit að týndu hestunum sínum. Á hálendinu hittir hann álfkonuna Sóleyju, sem hjálpar honum í leit hans að hestunum.[18] Undirliggjandi þema myndarinnar er misskipting valds og auðs, þar sem Þór er tákn almúgans, Sóley tákn frelsisbaráttunnar og presturinn tákn valdsins.[19] Kvikmyndin er í fullri lengd og er tekin á 35mm filmu.[20] Tökur hófust tíunda eða ellefta september árið 1979 og tekið var upp á Reykjanesi, í Mývatnssveit, Laxárdal, Landmannalaugum og víðar. Róska stofnaði kvikmyndafélagið Sóley hf. fyrir gerð myndarinnar en í því félagi voru um þrjátíu manns sem lögðu peninga í félagið til að fjármagna myndina og lögðu einnig fram ókeypis vinnuframlag. Í viðtali við Dagblaðið sagði Róska að hún taldi að kostnaður kvikmyndarinnar færi upp í tuttugu og fimm milljónir króna.[21] Kvikmyndin var styrkt af Kvikmyndasjóði Íslands og fékk Róska einnig starfslaun listamanna.[22] Samt sem áður dugði það engan veginn og peningamálin náðu ekki saman sem olli óánægju meðal þeirra sem unnu að myndinni.

Hugmyndina fékk Róska frá Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum og einnig úr ljóði Sigfúsar Daðasonar. Sjálf sagði Róska að myndin hafi átt að vera „frelsisóður með þjóðsagnaívafi.“[23] Guðmundur Bjartmarsson var aðstoðarleikstjóri myndarinnar en hann lýsti Rósku með eftirfarandi hætti: Hún hugsaði mjög stórt og kannski þess vegna átti hún erfiðara með að hrinda því í framkvæmd. Hún leikstýrði ekki, að minnsta kosti ekki á hefðbundinn hátt. Allir máttu koma með tillögur og stjórna sér sjálfir. Þetta var ekki ósvipað því og stundum gerist um heimildamyndir. Það eru klipptir saman ólíkir hlutir og látnir mynda heild.[24]

Þegar tökur hófust á myndinni hafði Róska ekki enn fundið leikkonu í aðalhlutverkið. Þá greip Róska til þess ráðs að skipta liði og áttu allir að leita í miðbænum að leikkonu sem liti út eins og Sóley. Allir komu til baka tómhentir en haldið var heim til Rúnars Guðbrandssonar, sem fór með annað aðalhlutverkið. Þegar bankað var upp á kom kærasta Rúnars til dyra, hún varð fyrir valinu og var Róska himinlifandi. Kærasta Rúnars var hins vegar dönsk og talaði enga íslensku. Róska hélt í fyrstu að það yrði ekkert mál en það reyndist erfiðara en hún hélt og endaði Birna Þórðardóttir á að tala inn á fyrir leikkonuna. Sóley er fyrsta frásagnarmyndin í fullri lengd sem leikstýrt er af konu í íslenskri kvikmyndasögu en viðtökurnar lituðust því miður af áhugaleysi.[25] Þá mætti ennfremur halda því fram að skref hafi verið stigið með listrænu kvikmyndina innan íslenska þjóðarbíósins. Róska var umdeild meðal gagnrýnenda á sínum tíma en nú þegar liðnar pólitískar erjur móta ekki skoðanir á listsköpun Rósku má vona að það mikilvæga starf sem hún vann birtist yngri kynslóðum með skýrari hætti en raunin var meðan hún lifði.[26]


Heimildir

 

[1] „Ragnhildur Óskarsdóttir, Róska“, Morgunblaðið, 22. mars 1996, bls. 42.

[2] Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, „Féll í skóla og varð flogaveik upp úr því“, Helgarpósturinn, 29. febrúar 1996, bls. 22-23.

[3] „Sífelld uppreisn í lifandi póesíu og pólitík“, Lesbók Morgunblaðsins, 14. október 2000, bls. 2.

[4] Einar Guðmundsson, „Barist gegn afturhaldi og tregðu“, Morgunblaðið, 11. mars 1989, bls. 8.

[5] „Rok í Nýlistasafninu“, Morgunblaðið, 29. febrúar 1996, bls. 24.

[6] „Sífelld uppreisn í lifandi póesíu og pólitík“, bls. 2.

[7] „Rok í Nýlistasafninu“, bls. 24.

[8] „Leiðsögn um femínískan myndheim Rósku í karllægum heimi myndlistar“, Listasafn Íslands, 19. ágúst 2017, sótt 15. apríl 2020 af https://www.listasafn.is/fraedsla/fraedsludagskra/leidsogn-um-feminiskan-myndheim-rosku-i-karllaegum-heimi-myndlistar.

[9] Heiða Jóhannsdóttir, „Líf og list Rósku“, Morgunblaðið, 27. maí 2005, bls. 61.

[10] „Sífelld uppreisn í lifandi póesíu og pólitík“, bls. 2.

[11] Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, „Féll í skóla og varð flogaveik upp úr því“, bls. 22.

[12] Sama rit, bls. 22.

[13] Þ.H.S. „Brothætt list Rósku“, Dagblaðið Vísir, 14. september 2000, bls. 21.

[14] BH. „Vinnur að gerð myndar um Alþingi 930“, Dagblaðið, 23. september 1977, bls. 4.

[15] Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, „Féll í skóla og varð flogaveik upp úr því“, bls. 23.

[16] „Kvikmyndir Rósku í Nýlistasafninu“, Morgunblaðið, 3. nóvember 2000, bls. 38.

[17] BH. „Vinnur að gerð myndar um Alþingi 930“, bls. 4.

[18] „Sóley – Týnda kvikmyndin eftir Rósku“, Karolina Fund, sótt 15. apríl 2020 af https://www.karolinafund.com/project/view/2382.

[19] ELA. „Fjármálin hafa verið okkur erfiðust“, Dagblaðið, 31. október 1979, bls. 19.

[20] „Safnað fyrir endurgerð Sóleyjar“, Mbl.is, 21. apríl 2019, sótt 15. apríl 2020 af https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/04/21/safnad_fyrir_endurgerd_soleyjar/.

[21] ELA. „Fjármálin hafa verið okkur erfiðust“, bls. 19.

[22] Sama rit, bls. 19.

[23] Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, „Féll í skóla og varð flogaveik upp úr því“, bls. 23.

[24] Sama rit, bls. 23.

[25] Sama rit, bls. 23.

[26] Þórður Ingi Jónsson, „Finding Sóley: Famed cult movie brought back into the light“, Grapevine.is, 24. apríl 2019, sótt 15. apríl 2020 af https://grapevine.is/icelandic-culture/movies-theatre/2019/04/24/finding-soley-famed-cult-movie-brought-back-into-the-light/.