UPPTÖKUR


ÍSLENSK KVIKMYNDAKLASSÍK - ÁGÚST GUÐMUNDSSON


„Íslensk kvikmyndaklassík“ er fyrirlestrarröð á vegum kvikmyndafræði Háskóla Íslands þar sem mikilvægum brautryðjendum íslenskrar kvikmyndagerðar, og athyglisverðum samtímaleikstjórum, er boðið í heimsókn til að ræða um tilurð, framleiðslu og viðtökur tiltekinnar myndar eftir sig. Um er að ræða hádegisfyrirlestra sem haldnir eru einu sinni í mánuði og eru öllum opnir. Þá má gera ráð fyrir að sjálft erindið sé kannski rúmur hálftími upp í þrjú korter en að því búnu verður opnað fyrir umræður. Það er Ágúst Guðmundsson, eitt mikilvægasta kvikmyndaskáld þjóðarinnar, sem reið á vaðið fimmtudaginn 21. september 2017 og ræddi um kvikmynd sína frá 1980, Land og syni.

GESTAFYRIRLESTRAR KVIKMYNDAFRÆÐI HÁSKÓLA ÍSLANDS - TOM WHITTAKERDr. Tom Whittaker, kvikmyndafræðingur við háskólann í Liverpool, flutti erindið „Woody Allen og spænskur tvífari hans: Raddleiklist, búktal og hljóðheimur talsetningarinnar“ í Öskju 130 miðvikudaginn 8. mars 2017. Erindið var í boði Kvikmyndafræði HÍ. Um 80% allra kvikmynda sem sýndar eru á Spáni eru talsettar. Þrátt fyrir þetta háa hlutfall hafa raddleikararnir sem standa að baki talsetningu kvikmynda, bæði á Spáni og annars staðar, ekki hlotið þá fræðilegu athygli sem vægi þeirra kallar á. Í þessum fyrirlestri mun Dr. Tom Whittaker ræða sambandið milli Woody Allen og spænska raddleikarans, Joan Pera, sem um langt árabil hefur talsett Allen á spænsku og katalónsku. Woody Allen hefur ávallt haft mikinn áhuga á þeim sem talsetja hann, og Joan Pera er þar engin undantekning. Raunar sagði Allen eitt sinn í gamni að Pera léti hann hljóma betur en innistæða væri fyrir. Í erindi þessu mun Whittaker ræða miðlægan hlut talsetningar í spænski kvikmyndamenningu. Jafnframt verður rætt um raddleik Woody Allens sjálfs, sérstöðu hans og sérstakan hæfileika til að afhjúpa klofið eðli raddarinnar sem slíkrar.

DEILA ÞESSU